Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 22:29:21 (30)

1998-10-01 22:29:21# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[22:29]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Gamalt en nýuppfært leikrit var sett á fjalirnar í gær á blaðamannafundi oddvita þessarar ríkisstjórnar. Önnur sýning var í dag í stefnuræðu forsrh. og valdir kaflir eru endurfluttir í umræðunum í kvöld. Sýningin heitir: Það er allt í himnalagi á Íslandi --- að meðaltali.

Það var hreint makalaust að fylgjast með þeim félögum, oddvitum ríkisstjórnarflokkanna á blaðamannafundi í gær þar sem þeir lýstu eigin ágæti og þeirri paradís á jörðu sem íslenskt samfélag væri, fyrir suma a.m.k., undir þeirra stjórn. Þarna sátu þeir tveir, hæstv. forsrh. og utanrrh., --- já, utanrrh. sem sýningarhaldsins vegna gerði stuttan stans frá ferðalögum sínum erlendis og er hér enn, og þarna sátu þeir í plussstólunum í ráðherrabústaðnum og áttu tæpast orð til að lýsa þeim glæsilega árangri sem þeir töldu sig hafa náð. Kvörtuðu raunar í bland aðeins yfir samfylkingunni sem þeir óttast mjög en það fór ekki hnífsblaðið á milli þeirra. Þvert á móti hældu þeir hver öðrum fyrir visku og dugnað. Sjálfumgleði þeirra var fölskvalaus. Þarna náði leikritið hæstu mögulegum hæðum. Að vísu voru áhorfendur ekki alveg klárir á því hvort þá ætti að hlæja eða gráta. Þetta var nefnilega tragikómísk grátbrosleg stund.

[22:30]

Samkvæmt ýmsum hagtölum efnahagskerfisins, segja þeir, er ýmislegt á réttri leið. Það er ekki fjarri lagi og vissulega er það fagnaðarefni en á þá ekki öllum eða flestum að líða vel eða er það bara meðaltalið svona svipað því og maðurinn sem hafði annan fótinn í ísköldu vatni en hinn í sjóðandi heitu? Þeim manni ætti að vera ylvolgt og líða prýðisvel samkvæmt meðaltalsfræðunum en þannig er það bara ekki. Þessum manni er einfaldlega ískalt á öðrum fætinum en sjóðandi heitt á hinum. Það eru nákvæmlega slíkar andstæður sem þessir herramenn, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, hafa verið að skapa með stjórnarstefnunni. Þeir hafa skipt þjóðinni í tvo hópa, þá fáu sem hafa og eiga og hina mörgu sem gera það ekki. Þeir hafa breikkað bilið milli þeirra sem verða að láta enda ná saman á launatekjunum einum saman og svo hinna sem meira mega sín, m.a. þeirra sem geta látið fjármagnið vinna fyrir sig. Það er þessi gliðnun, þessi frjálshyggja sem umhverfist í sérhyggju sem ævinlega hefur verið, er og væntanlega verður viðlagið í samstjórn þessara tveggja helmingaskiptaflokka, Sjálfstfl. og Framsfl.

En aftur til leikritsins í ráðherrabústaðnum í gær og í endurflutninginn hjá aukaleikurunum hér í kvöld. Veltum því nú aðeins fyrir okkur hvað þeir töluðu ekki um, hvað ekki var nefnt einu orði á þessari halelújasamkomu. Skoðum veruleikann um stund.

Er allt í himnalagi hjá fjölskyldum á Íslandi? Er skuldaaukning heimilanna um 43 milljarða síðustu 12 mánuði merki um að allt sé í fínu standi? Sögðu ekki stjórnarflokkarnir fyrir síðustu kosningar: Stöðvum skuldasöfnun heimilanna. Tugþúsundir heimila á landinu þakka vafalaust ríkisstjórninni alveg sérstaklega fyrir þann árangur að búa svo um hnútana að fjölskyldur í landinu hafa orðið að auka skuldsetningu sína um 11,8% á einu ári. Svo slá stjórnarliðarnir hver öðrum á bak og segja það stórárangur að nú sé ríkissjóður því sem næst rekinn hallalaus, en láta þess að vísu ekki getið að það gerist einfaldlega vegna þess að ríkissjóður er að bólgna út af peningum, peningum sem koma úr launaumslögum vinnandi fólks í landinu. En íslenskt fjölskyldufólk fær ekki slíka lottóvinninga. Það verður auðvitað að framfleyta sér og sínum af sjálfsaflafé, mjög gjarnan á lágum launum og borga af lánum sínum upp á þau býti sem þar eru í boði. Og enn þá eru vextirnir með þeim hæstu sem þekkjast, enda græða bankar og fjármálastofnanir á tá og fingri.

Skyldi ekki allt vera í fínu lagi hjá barnafjölskyldum sem hafa fengið alveg sérstakar kveðjur frá ríkisstjórninni á þessu ári og fá þær áfram á næsta ári? Í miðju góðærinu lækka greiðslur til barnafólks um meira en 500 millj. kr. Það er vafalaust himinhrópandi hamingja hjá þúsundum barnafjölskyldna í landinu, eða hvað? Er ekki líka allt eins og best verður á kosið hjá fötluðum og öryrkjum? Það hefur sennilega verið fyrir algeran misskilning að þeir stóðu varðstöðu fyrir utan Alþingishúsið í kvöld og minntu á skammarleg kjör sín, kjör sem eru ekki mönnum bjóðandi. Þegar síðan við jafnaðarmenn og félagshyggjufólk lýsum þeim viðhorfum okkar að við viljum taka myndarlega á málefnum þessa fólks og gera stöðu þeirra sambærilega við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, þá koma mennirnir í ráðherrabústaðnum og segja að slíkt mundi setja efnahagskerfið á hliðina. Þvílíkt og annað eins. Slíkum fornaldarviðhorfum höfnum við algerlega.

Nei, góðir Íslendingar, menn búa ekki til raunveruleikann. Það er bara í leikritum og í leikritinu í ráðherrabústaðnum í gær sér í gegnum fagurlega skreytta leikmyndina. Það sér í kuskið á hvítflibbanum. En í öðru leikriti á öðrum tímum samdi annar oddvitanna einmitt annað leikrit með því heiti og þar sér svo sannarlega í kuskið á hvítflibbum stjórnarherranna.

Góðir Íslendingar. Raunveruleikinn er stundum bitur en hann er eini sanni vegvísirinn og með hann í huga þurfum við breytingar, réttlæti og jöfnuð. Í vor gefst tækifærið, tækifærið til að hvíla þá sjálfumglöðu í ráðherrabústaðnum og efla styrk samfylkingar jafnaðar og félagshyggju og kvenfrelsis, samfylkingu sem ein getur hnekkt því ofurvaldi sem helmingaskiptaflokkarnir hafa haft í íslensku samfélagi.

Geðvonska hæstv. utanrrh. í umræðunum hér og sjútvrh. sömuleiðis sýnir það svart á hvítu að þessir menn eru hræddir. Við skulum gera þá hræddari og við skulum breyta ásýnd íslensks samfélags í kosningunum í maí á næsta ári. Þá verða skýrir og klárir valkostir sem við blasa og dómi kjósenda á þeirri stundu kvíði ég ekki.