Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 22:36:36 (31)

1998-10-01 22:36:36# 123. lþ. 2.1 fundur 10#B umræða um stefnuræðu forsætisráðherra#, BH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 123. lþ.

[22:36]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í stefnuræðunni sem flutt var fyrr í dag kennir ekki margra nýrra grasa. Kunnuglegt hjal um ágæti ríkisstjórnarinnar, góðærið og efnahagslegar framfarir höfum við heyrt svo oft áður og það kom því ekki á óvart í þessari ræðu nema e.t.v. eitt sem forsrh. minntist ekki á. Hann minntist ekki einu orði á hina miklu trú sína á opinbera íhlutun í atvinnurekstri sem birtist í gagnagrunnsfrv. Ekki er minnst einu orði á töfraformúluna í heilbrigðiskerfinu sem á að verða til þess að Íslendinga verði í mannkynssögunni minnst fyrir að hafa fundið lækningu við flestum þeim sjúkdómum sem hrjá mannskepnuna og það á undraverðum tíma eftir því sem spáð er. Ekki orð um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði í stefnuræðunni. Ekki orð um sérleyfi sem á að veita einu fyrirtæki án þess að gefa öðrum kost á að koma þar að, ekki orð um fyrirbæri sem er um það bil að setja allt vísindasamfélagið á Íslandi á annan endann og er nú óðum að spyrjast út um heiminn. Ekki orð um stærsta mál komandi þings.

Forsrh., sem sjálfur hefur komið að málinu við undirritun samninga með gullpennann og fánann fyrir framan sig og þannig gefið undirrituninni ríkisstjórnarstimpil, minnist ekki orði á töfralausnina sína í þessari stefnuræðu. Það var það eina sem kom á óvart í ræðunni.

Það hefur líklega fæstum dulist að í öllum hinum vestræna heimi eru nú að eiga sér stað breytingar sem hafa fætt af sér endursköpun á stjórnmálaflokkum með nýja leiðtoga í fararbroddi. Fall Helmuts Kohl í Þýskalandi var ekki aðeins áfellisdómur yfir fyrrum leiðtoga heldur var það einnig viðbragð almennings í Þýskalandi við breyttri heimsmynd sem kallar á nýjar áherslur í stjórnmálum. Hið sama mætti segja um nýlegar breytingar í öðrum löndum Evrópu. Framsækin og lýðræðisleg jafnaðarstefna er stefnan sem kjósendur helstu ríkja Evrópu hafa valið til þess að leiða þjóðfélagið inn í nýja tíma, tíma þar sem hin gömlu gildi kaldastríðsáranna hafa vikið fyrir nýjum forgangsverkefnum.

Stjórnmálaflokkarnir á Íslandi eru að miklu leyti mótaðir í skugga kalda stríðsins og þeir bera þess flestir merki. Það er engin ástæða til að ætla annað en þeirra bíði sama naflaskoðunin og annarra stjórnmálasamtaka í nálægum löndum, enda er hún nauðsynleg til að takast á við kröfur nýrra tíma. Upplýsingaöldin býður upp á möguleika sem engan hafði órað fyrir ef litið er nokkra áratugi aftur í tímann. Stjórnmálasamtök þurfa að svara því á hvern hátt þau vilja bregðast við þeim tækifærum og þeim hættum sem fylgja tölvutæknibyltingu og sívaxandi möguleikum á sviðum fjarskipta og upplýsingatækni. Ríkisstjórnin hefur gefið tóninn í gagnagrunnsfrv. Hún vill hefta þá möguleika sem felast í vísindum og rannsóknum með aukinni tölvutækni með því að útdeila einkarétti í stað þess að virkja alla þá möguleika sem í þessum atvinnugreinum felast. Hún vill ekki hlusta á þær raddir sem telja möguleikana margfalda ef aðrar leiðir eru farnar og hún vill ekki láta fyrirtæki eða vísindastofnanir bjóða í gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði.

Svipaða sögu má segja um fjarskiptaiðnaðinn á Íslandi í dag. Þrátt fyrir gífurlegan vöxt og óteljandi möguleika á þessu sviði er fyrirtækjum hér á landi haldið niðri vegna óeðlilegrar samkeppnisstöðu. Einkavæðing Pósts og síma hefur ekki breytt einokunarstöðu Landssímans á markaðnum og þau einkafyrirtæki sem hafa hætt sér inn á svið stóra risans eiga í vök að verjast. Til að bíta höfuðið af skömminni er svo forsprakki samtaka vinnuveitenda gerður að formanni stjórnar Landssímans sem gerir það líklega ekki mjög aðlaðandi kost fyrir Tal og Íslandssíma að óska eftir aðild að Vinnuveitendasambandinu. En svona er nú samfélagið sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur fætt af sér. Loforð ríkisstjórnarinnar um hag neytandans af einkavæðingu símans hafa ekki gengið eftir. Ríkisvaldið stendur vörð um einokunarstöðuna og budda neytandans geldur fyrir.

Auðlindir Íslands og meðferð þeirra er enn eitt dæmið um skömmtunarpólitík ríkisstjórnarinnar þar sem hinum fáu útvöldu er veitt ríflega á kostnað hinna mörgu. Hálendi Íslands, auðlindir sjávar og lands, allt skal fyrir lok þessa kjörtímabils lúta lögmálum ríkisstjórnarinnar og þeir sem hún velur munu fá sinn skerf en hinir ekkert. Óánægja fjöldans með fiskveiðistjórnunina er reyndar svo mögnuð að hún hefur skapað grundvöll fyrir pólitíska upprisu fyrrverandi bankastjóra sem virðist hafa það eitt á stefnuskrá sinni að brjóta á bak aftur óréttlætið í sjávarútvegi. En ríkisstjórnin hvikar hvergi í sinni stefnu. Hún ætlar að halda áfram að tala máli sinna manna á kostnað fjöldans þegar auðlindir okkar eru annars vegar.

Góðir tilheyrendur. Ríkisstjórnin með sína forræðishyggju og fyrirgreiðslupólitík mun lifa áfram á meðan ekki er verðugur andstæðingur í nánd. Svipmót sérhagsmunaaflanna sem nú eru við stjórnvölinn blasir hvarvetna við og hin áhrifamikla mótmælastaða sem við sáum á Austurvelli í kvöld segir sína sögu en á öryrkja er ekki hlustað frekar en aldraða eða verkalýðshreyfinguna sem líka lagði leið sína á Austurvöll nú nýlega í mótmælaskyni við aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Aðeins það stjórnmálaafl sem þorir að takast á við hin raunverulegu tækifæri framtíðarinnar og þau vandamál sem þeim kunna að fylgja getur breytt íslensku samfélagi og dregið það upp úr því hjólfari sérhagsmunahyggjunnar sem það er í í dag. Kjarkur, stefnufesta og framtíðarsýn er allt sem til þarf, góðir áheyrendur, og af slíku er nóg til af hálfu þeirra sem aðhyllast kvenfrelsi, jafnaðarstefnu og félagshyggju á Íslandi í dag. --- Góðar stundir.