Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 09:32:28 (37)

1998-10-05 09:32:28# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[09:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999. Í ræðu minni í dag mun ég fjalla um helstu áhersluatriði ríkisstjórnarinnar í efnahags- og ríkisfjármálum eins og þau birtast í þessu fjárlagafrumvarpi. Ég mun því lítt fjalla um einstaka tekju- eða gjaldaliði í frumvarpinu enda er það skoðun mín að 1. umr. um þetta mál eigi að vera tiltölulega almenns eðlis.

Mig langar til að byrja á að vitna í einn merkasta forvera minn í embætti fjármálaráðherra, Jón Þorláksson, en hann lýsti aðkomu sinni að fjármálaráðuneytinu vorið 1924 með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Fjárhagurinn er afskaplegur, tómur sjóður og vanskilaskuldir í öllum áttum.``

Þetta hafa því miður ýmsir af fyrirrennurum mínum upplifað og háttvirtum þingmanni, Friðriki Sophussyni, hefur sjálfsagt verið líkt innan brjósts þegar hann tók við embætti. Nú er öldin önnur og því ber að fagna.

Ég vil nota þetta tækifæri til að færa Friðriki Sophussyni sérstakar þakkir fyrir hans miklu og góðu störf sem fjármálaráðherra í sjö ár. Hann getur sannarlega litið glaður um öxl nú þegar svo myndarlega hefur rofað til í ríkisfjármálunum og uppskeran af starfi hans er að koma í ljós.

Eins og fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra hefur staða efnahagsmála hér á landi gjörbreyst á undanförnum árum. Í stað óðaverðbólgu og jafnvægisleysis ríkir nú stöðugleiki á flestum sviðum efnahagslífsins. Þetta birtist meðal annars í því að verðbólga hefur verið með minnsta móti eða á bilinu 1,5--2,5% síðustu fimm ár og jafnvel enn minni á þessu ári. Þá hafa vextir farið lækkandi undanfarin ár og gengi íslensku krónunnar hefur verið stöðugt og jafnvel farið hækkandi undanfarin missiri. Með þessu og sérstökum aðgerðum stjórnvalda svo sem skattalækkunum hefur rekstrargrundvöllur atvinnulífsins verið treystur. Í kjölfarið hefur fjárfesting atvinnulífsins aukist eftir langvarandi lægð. Árangur efnahagsstefnunnar birtist einnig í því að atvinna hefur aukist og atvinnuleysi að sama skapi minnkað og er nú minna en í nær öllum aðildarríkjum OECD. Kaupmáttur heimilanna hefur jafnframt aukist verulega undanfarin ár og er gert ráð fyrir rúmlega 23% aukningu frá árinu 1995 til loka næsta árs. Í þessum tölum gætir meðal annars áhrifa lækkunar tekjuskatts sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á síðasta ári og skattfrelsis lífeyrisiðgjalda. Þessi hagstæða þróun hefur einnig skilað sér í mun meiri hagvexti hér á landi en í flestum nálægum ríkjum. Þannig renna flestir hagfræðilegir mælikvarðar stoðum undir þá kenningu að hér ríki sannkallað góðæri í efnahagsmálum.

Það er óumdeilt að staða ríkisfjármála hefur styrkst verulega á undanförnum árum. Allt frá miðjum síðasta áratug var mikill hallarekstur á ríkissjóði með tilheyrandi lántöku og skuldasöfnun. Smám saman hefur tekist að ná betri og betri tökum á ríkisfjármálunum með margvíslegum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þessar aðgerðir hafa skilað sér í traustari afkomu ríkissjóðs og nú er svo komið að lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs er orðinn jákvæður þannig að unnt verður að greiða niður skuldir ríkissjóðs um allt að 30 milljarða króna á árunum 1998--1999. Þetta er ótrúlegur árangur sem markar sannkölluð tímamót.

Ég vil hins vegar minna á að oft er erfiðara að hafa stjórn á efnahags- og ríkisfjármálum í góðæri líkt og nú ríkir á Íslandi en þegar erfiðleikar steðja að. Þess vegna er afar mikilvægt að varðveita þennan árangur og slaka hvergi á. Þetta á ekki síst við um ríkisfjármálin því að þau gegna nú lykilhlutverki í hagstjórn hér á landi. Traust staða ríkissjóðs er mjög mikilvæg til þess að auka sparnað í þjóðfélaginu og stuðla þannig að betra jafnvægi í efnahagslífinu með aðhaldi að innlendri eftirspurn. Þessi sjónarmið hafa verið höfð að leiðarljósi við undirbúning þessa fjárlagafrumvarps. Ég mun nú stuttlega fjalla um helstu áhersluatriði frumvarpsins.

Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að nýta hagstætt árferði til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, lækka þar með vaxtakostnað og búa þann veg í haginn fyrir komandi kynslóðir. Það er eitt helsta einkenni þessa fjárlagafrumvarps. Gert er ráð fyrir tæplega 2 milljarða króna tekjuafgangi á rekstrargrunni á árinu 1999 að teknu tilliti til bókfærðra lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Afkoman batnar því um tæplega 5 milljarða króna frá áætlun yfirstandandi árs. Greiðslustaða ríkissjóðs verður áfram mjög hagstæð samkvæmt áætlun fjárlagafrumvarpsins og er gert ráð fyrir að lánsfjárafgangur ríkissjóðs geti numið um 15 milljörðum króna á árinu 1999, eða svipaðri fjárhæð og á þessu ári. Eins og áður hefur komið fram gefur þessi niðurstaða færi á að greiða niður skuldir ríkissjóðs í stórum stíl. Gangi áætlunin eftir munu heildarskuldir ríkissjóðs verða 23 milljörðum króna lægri í lok árs 1999 en í árslok 1997 og hlutfall skulda af landsframleiðslu lækka úr 46% í lok árs 1997 í 34% árið 1999. Endurgreiðsla skulda er í reynd meiri eða sem nemur sem næst samanlögðum lánsfjárafgangi árin 1998 og 1999, þ.e. um 30 milljörðum króna eins og ég hef áður nefnt, en á móti kemur hækkun skulda vegna áfallinna vaxta. Með þessu lækkar árlegur vaxtakostnaður ríkissjóðs um 1,2 milljarða króna. Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta atriði því að með þessu móti munu ríkisfjármálin draga verulega úr neikvæðum áhrifum viðskiptahalla á efnahagslífið og þannig stuðla að áframhaldandi stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Að undanförnu hefur verið lögð sérstök áhersla á að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs. Engin ný löng erlend lán hafa verið tekin á yfirstandandi ári, en tvö erlend lán er námu tæplega 10 milljörðum króna voru greidd upp á árinu. Auk þess verður staðan á erlendum skammtímalánum lækkuð þannig að í heildina er áætlað að höfuðstóll erlendra skulda ríkissjóðs lækki um 15 milljarða króna á árinu 1998.

Ég vil einnig nefna að samkvæmt áætlunum fjárlagafrumvarpsins er talið að heildarlántökur ríkisaðila, þ.e. ríkissjóðs, fyrirtækja og sjóða í eigu ríkisins, fari nær alfarið til þess að mæta afborgunum eldri lána. Í þessu felst að skuldsetning ríkisins í heild mun því nánast verða óbreytt á árinu 1999 og hið sama gildir reyndar um árið 1998. Það eru óneitanlega tímamót þegar ríkið er ekki lengur nettólántakandi á fjármagnsmarkaði. Ekki er lengra síðan en 1991 að ríkið þurfti að taka lán á markaðnum sem námu um 10% af landsframleiðslu eða sem samsvarar um 60 milljörðum króna á núgildandi verðlagi. Áhrif þessara umskipta eru þau að svigrúm atvinnulífs og einstaklinga á lánamarkaði eykst og jafnframt dregur úr þrýstingi á vaxtastigið. Sjást þessa þegar merki.

Áframhaldandi hagvöxtur og aukin umsvif í efnahagslífinu á næsta ári skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs. Áætlað er að heildartekjur ríkissjóðs á árinu 1999 verði rúmlega 181 milljarður króna eða um 6 milljörðum króna hærri en á árinu 1998. Þar af má rekja 2,7 milljarða króna til aukinna veltuskatta og 2,1 milljarð til aukinna tekna af tekjuskatti einstaklinga þrátt fyrir 1% lækkun á skatthlutfallinu um næstu áramót en hún kostar um 1,5 milljarða króna. Loks skilar tryggingagjald um hálfum milljarði króna í auknum tekjum.

Að frumkvæði ríkisstjórnarinnar lögfesti Alþingi á síðasta ári umtalsverða lækkun tekjuskatts einstaklinga, eða um 4%. Fyrsti áfanginn, 1,1% lækkun, kom til framkvæmda þegar árið 1997. Í byrjun árs 1998 lækkaði hlutfallið um 1,9% í viðbót og í ársbyrjun 1999 lækkar skatthlutfallið enn um 1%. Tekjuskattur einstaklinga er því orðinn lægri en var þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1988. Með þessum breytingum eru stigin mikilvæg skref í átt til lækkunar jaðarskatta hér á landi sem mun skila sér í auknum kaupmætti almennings.

Annað árið í röð er gert ráð fyrir umtalsverðum tekjum af sölu eigna. Eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum 1998 er stefnt að sölu á tæplega helmingi hlutabréfa ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Íslenskum aðalverktökum nú í haust. Á næsta ári er síðan áformað að ljúka sölu á hlutabréfum ríkisins í þessum fyrirtækjum. Auk þess er miðað við sölu á fjórðungshlut í Sementsverksmiðju ríkisins. Að svo stöddu er ekki ljóst hve miklum tekjum eignasalan getur skilað en miðað er við að 2,4 milljarðar króna komi fram á tekjuhlið en þar er einungis færður söluhagnaður hlutabréfanna, þ.e. söluverðmæti umfram skráð nafnverð. Sala hlutabréfanna skilar hins vegar mun hærri heildarfjárhæðum í ríkissjóð en þær koma fram sem fjármagnstilfærslur og ganga til lækkunar skulda ríkissjóðs.

Mig langar að fjalla sérstaklega um mikilvægi eignasölu ríkisins í þessu samhengi og leiðrétta þann misskilning sem gætt hefur á liðnum vikum hjá sumum háttvirtum þingmönnum stjórnarandstöðunnar að megintilgangur ríkisstjórnarinnar með því að selja eignarhlut ríkisins í atvinnufyrirtækjum sé að ná inn tekjum í ríkissjóð til þess að standa undir auknum útgjöldum. Telja þeir þetta bera vott um slaka fjármálastjórn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Vissulega eru það ákveðin rök fyrir sölu ríkisfyrirtækja að hún skilar ríkissjóði og þar með landsmönnum öllum tekjum. En það er hins vegar misskilningur að þessar tekjur fari til þess að fjármagna aukin útgjöld. Staðreyndin er sú að einungis hluti tekna af eignasölu er færður á rekstrarreikning. Stærsti hluti söluverðmætisins kemur fram á lánsfjárjöfnuði og gengur beint til þess að lækka skuldir ríkisins. Ég hygg að það sé óumdeilt að eitt brýnasta verkefni stjórnvalda um þessar mundir er einmitt að lækka skuldir ríkisins eins hratt og unnt er þannig að skuldabagganum verði ekki velt yfir á kynslóðir framtíðarinnar. Jafnframt næst með þessu móti það veigamikla markmið að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs og þar með skapa svigrúm fyrir aukin útgjöld á öðrum sviðum eða frekari lækkun skatta. Ég vil nefna sem dæmi að áætlanir fyrir árið 1998 sýna að greiðslustaða ríkisins er afar hagstæð og horfur á að lánsfjárafgangur geti orðið um 15 milljarðar króna. Þetta er þrefalt meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs. Um helming þessarar fjárhæðar má rekja til sölu á eignum ríkisins en hluti hennar hefur þegar komið til framkvæmda og frekari sala er áformuð síðar í haust. Og hvað skyldi svo verða um tekjur af sölu eigna sem nema tæplega 7 milljörðum króna? Jú, þessar tekjur ganga til þess að lækka skuldir ríkissjóðs eins og sjá má af því að hlutfall heildarskulda ríkissjóðs lækkar úr 46% í 39% af landsframleiðslu á árinu 1998 og á næsta ári er áætlað að hlutfallið lækki í 34% eins og fram er komið. Af þessu má ráða hve eignasala getur verið mikilvæg í því skyni að greiða niður skuldir ríkisins og lækka vaxtakostnað.

Það er líka ástæða til þess að fara nokkrum orðum um hvernig afkoma ríkissjóðs er metin því að þar hefur einnig gætt misskilnings á eðli þeirra breytinga sem lögfestar voru á Alþingi í fyrravor. Meginbreytingin felst í því að nú eru bæði fjárlög og ríkisreikningur færð á rekstrargrunni en fjárlög voru áður eingöngu færð á greiðslugrunni. Í þessu felst meðal annars að nú ber að færa skuldbindingar sem falla á ríkissjóð á árinu til gjalda samtímis jafnvel þótt þær komi ekki til greiðslu fyrr en seinna. Þetta sést vel á færslu lífeyrisskuldbindinga ríkisstarfsmanna en hækkun þeirra vegna breytinga á launakerfi ríkisstarfsmanna á þessu ári er öll bókfærð á rekstur ársins 1998 þótt hún komi til greiðslu á mörgum árum og jafnvel áratugum. Það er mikil framför að birta fjárlög á sama grunni og ríkisreikningur er gerður upp á. Þannig er horfst í augu við og bókfærðar þær skuldbindingar sem kunna að falla á ríkissjóð vegna ákvarðana sem eru teknar á viðkomandi ári jafnvel þótt þær komi ekki til útborgunar fyrr en löngu seinna. En hvaða áhrif hefur þetta á bókfærða afkomu ríkissjóðs? Afkomutölur ársins 1998 sýna glöggt áhrif þessara breytinga. Samkvæmt fjárlögum var gert ráð fyrir lítils háttar rekstrarafgangi ríkissjóðs á árinu miðað við rekstrargrunn. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er nú gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs geti orðið rúmlega 9 milljörðum kr. meiri en í fjárlagaáætlun. Hins vegar er talið að bókfærð útgjöld ríkissjóðs muni fara um 12 milljörðum kr. fram úr fjárlögum, mest vegna fyrrnefndrar hækkunar lífeyrisskuldbindinga ríkisstarfsmanna en þær eru taldar verða 9--10 milljörðum kr. hærri en áætlað hafði verið. Samkvæmt þessu stefnir í tæplega 3 milljarða kr. bókfærðan halla á ríkissjóði á árinu 1998. Þessi mælikvarði segir hins vegar ekkert um greiðsluflæði innan ársins og getur því ekki orðið grundvöllur umræðu um áhrif ríkisfjármálanna á efnahagslífið til skamms tíma litið. Þar verður að nota annan mælikvarða, svokallaðan lánsfjárjöfnuð.

[09:45]

Samanburður þessara tveggja mælikvarða, þ.e. annars vegar bókfærðrar afkomu á rekstrargrunni og hins vegar lánsfjárjöfnuðar ríkissjóðs, leiðir í ljós þá sérkennilegu niðurstöðu að miðað við fjárlög versnar afkoman á fyrri mælikvarðann en batnar stórlega á hinn síðari. Báðir mælikvarðar eiga vissulega rétt á sér. Annar sýnir mat á afkomu ríkissjóðs að teknu tilliti til áfallinna en ógreiddra skuldbindinga. Hinn mælikvarðinn, lánsfjárjöfnuðurinn, sýnir hins vegar áhrif ríkisfjármála á efnahagslífið hverju sinni, t.d. hvort fylgt er aðhaldssamri eða undanlátssamri stefnu. Sú staðreynd að horfur eru á allt að 30 milljarða kr. lánsfjárafgangi á árunum 1998 og 1999 sýnir að ríkisstjórnin fylgir aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum sem meðal annars dregur úr neikvæðum áhrifum viðskiptahallans á þróun efnahagslífsins. Afkoma ríkissjóðs á rekstrargrunni sýnir einnig afgang, sem nemur tæplega 2 milljörðum kr., en það þýðir að endar ná einnig saman í ríkisrekstrinum þegar horft er til skuldbindinga ríkisins til lengri tíma. Til fróðleiks má benda á að ef fjárlög væru enn sett fram á gamla forminu, þ.e. á greiðslugrunni, mundu niðurstöðutölur nú sýna um 10 milljarða kr. rekstrarafgang. Ég vil í þessu sambandi einnig nefna að framreikningar á horfum í ríkisrekstri til næstu fimm ára, sem birtir eru í fjárlagafrv., sýna að afkoma ríkissjóðs styrkist jafnt og þétt og það gefur færi á að greiða skuldir ríkissjóðs enn frekar niður í framtíðinni. Í þessu tilviki er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs geti lækkað úr 40% af landsframleiðslu í lok ársins 1998 í 20% árið 2003 ef rétt verður á málum haldið. Þær forsendur sem búa að baki þessum framreikningum gera ráð fyrir að áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum og ég vona að við berum gæfu til þess að láta þessar áætlanir ganga eftir og helst gott betur.

En hvernig horfir um fyrirhuguð útgjöld ríkissjóðs á næsta ári? Samkvæmt fjárlagafrv. eru heildarútgjöld á árinu 1999 áætluð 179,3 milljarðar kr. á rekstrargrunni og hækka um 2 milljarða kr. frá áætlun yfirstandandi árs, en um 13,5 milljarða kr. frá fjárlögum 1998. Að frátöldum lífeyrissjóðsskuldbindingum hækka útgjöldin um 6 milljarða kr. milli ára, eða um 3,5%. Til samanburðar má nefna að hagvöxtur er talinn verða um 5% og verðmæti landsframleiðslunnar eykst um 7,5% á milli ára. Hlutfall útgjalda ríkisins af landsframleiðslu lækkar því um 1% milli ára. Batnandi afkoma ríkissjóðs gefur hins vegar færi á að taka sérstaklega á ýmsum veigamiklum útgjaldaþáttum, ekki síst innan heilbrigðiskerfisins, menningar- og samgöngumála, án þess að slaka um of á heildarstefnunni í ríkisfjármálum.

Útgjöld ríkisins til samgöngumannvirkja aukast um tæplega 1 milljarð kr. milli ára, þar af um 800 millj. kr. til vegamála. Í fyrsta sinn í langan tíma er gengið út frá óskertum framkvæmdaáætlunum í vega-, hafna- og flugmálum. Til framkvæmda í menntamálum og heilbrigðismálum verður varið um 2 milljörðum kr. á næsta ári, sem er svipuð fjárhæð og á þessu ári.

Samkvæmt fjárlagafrv. aukast útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála um 3% að raungildi frá útgjaldaáætlun 1998 og um 5,4% frá síðustu fjárlögum. Jafnframt er gert ráð fyrir að þjónustusamningar verði gerðir við flest sjúkrahús um rekstur og fjárframlög. Með þessu fá stjórnendur aukinn sveigjanleika í rekstri en taka jafnframt aukna ábyrgð á að þjónusta og kostnaður verði í samræmi við áætlun fjárlaga. Þá er í frv. sérstök áhersla lögð á fjölgun hjúkrunarrýma, einkum fyrir aldraða, og stefnt að allt að 120 nýjum hjúkrunarrýmum á næsta ári.

Útgjöld til rannsóknar- og þróunarmála eru einnig verulega aukin á næsta ári, meðal annars til verkefna tengdum íslenska upplýsingasamfélaginu, sem svo er kallað, en það er fyrsta skref í átt til þess að framfylgja stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Þá vil ég nefna sérstakt framlag til áætlunar á sviði upplýsinga- og umhverfismála.

Árið 2000 verður viðburðarríkt á sviði menningarmála. Þar má nefna 1000 ára kristnitökuhátíð, 1000 ára afmæli landafunda Íslendinga í Vesturheimi og verkefnið Reykjavík -- menningarborg Evrópu árið 2000. Í fjárlagafrv. er fyrirhugað að verja umtalsverðum fjármunum til undirbúnings þessara merku viðburða.

Ný lög um húsnæðismál voru afgreidd á Alþingi sl. vor. Ný stofnun, Íbúðalánasjóður, tekur við af Húsnæðisstofnun ríkisins og er gert ráð fyrir að sjóðurinn standi undir útlánum sínum án framlags úr ríkissjóði. Stuðningur ríkisins við húsnæðiseigendur verður með greiðslu vaxtabóta og er gert ráð fyrir að þær hækki um 300 millj. kr. milli ára. Á árinu 1999 mun ríkissjóður þó veita Íbúðalánasjóði sérstakt framlag til að standa undir vaxtamun á útlánum og teknum lánum til leiguíbúða.

Ég hef þegar fjallað ítarlega um hvernig bætt afkoma ríkissjóðs á þessu og næsta ári gerir kleift að greiða niður skuldir ríkisins í ríkari mæli en áður hefur þekkst á svo skömmum tíma. Mig langar hins vegar að nefna nokkur önnur atriði sem lúta sérstaklega að lánamálum ríkissjóðs.

Lánveitingar ríkissjóðs til ríkisfyrirtækja, sjóða eða aðila utan ríkisins hafa farið ört minnkandi á síðustu árum. Fyrirtæki og sjóðir hafa verið seld eða gerð að hlutafélögum sem taka lán án ríkisábyrgðar. Á árinu 1999 er áætlað að endurlán ríkissjóðs nemi alls um 5,2 milljörðum kr. samanborið við 7,3 milljarða kr. í ár. Lækkunin stafar af því að lánsfjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins verður ekki mætt með lánveitingu úr ríkissjóði. Þess í stað mun Íbúðalánasjóður annast fjármögnunina með sölu á húsnæðisbréfum. Innheimtar afborganir af áður lánuðu fé nema 7 milljörðum kr. og lánveitingar ríkissjóðs skila því í fyrsta sinn nettóinnstreymi í ríkissjóð á árinu 1999.

Heildarumfang ríkisábyrgða er meira en sem nemur skuldum ríkissjóðs þar sem ríkissjóður ber einnig ábyrgð á skuldbindingum ríkisfyrirtækja og fjármálastofnana í ríkiseign. Mat Seðlabanka Íslands á ábyrgðum ríkissjóðs í árslok 1995 sýndi að heildarupphæð þeirra var um 570 milljarðar kr. Með sölu ríkisfyrirtækja og breyttu rekstrarformi hefur tekist að lækka ábyrgðirnar um liðlega 170 milljarða kr. Þá má geta þess að með nýrri löggjöf hafa heimildir til að veita ríkisábyrgð verið þrengdar.

Á undanförnum árum hefur hlutdeild ríkisbréfa og spariskírteina verið mjög mikil á verðbréfamarkaðnum. Síðustu missirin hefur aftur á móti dregið verulega úr vægi ríkisverðbréfa og mun sú þróun væntanlega halda áfram á næsta ári. Engu að síður verður ríkissjóður áfram virkur lántakandi þar sem endurfjármagna þarf eldri lán í einhverjum mæli. Að undanförnu hafa markvisst verið byggðir upp markflokkar fyrir spariskírteini, ríkisbréf og -víxla. Þetta fyrirkomulag felur í sér að á markaði verða fáir en stórir flokkar ríkisverðbréfa og ákveðnir viðskiptavakar tryggja að sífellt liggi fyrir kaup- og sölutilboð í viðkomandi flokka. Þetta hefur eflt eftirmarkað og stuðlað að hagstæðri þróun á fjármagnsmarkaði. Breytingin hefur enn fremur styrkt markaðsstöðu ríkisverðbréfa og átt þátt í því að lækka vexti.

Þótt fjárlagafrv. feli í sér margvíslegar umbætur og aukin útgjöld til brýnna málaflokka fer því fjarri að slakað sé á því aðhaldi að innlendri eftirspurn sem fylgt hefur verið að undanförnu. Eins og ég hef áður nefnt er stefnt að umtalsverðum lánsfjárafgangi á árinu 1999 sem mun draga úr neikvæðum áhrifum viðskiptahalla á efnahagslífið.

Upp á síðkastið hafa komið fram vísbendingar um að hagsveiflan hér á landi sé komin á það stig að aukins aðhalds sé þörf til að halda aftur af miklum vexti þjóðarútgjalda. Þannig hefur innflutningur neysluvöru aukist mikið að undanförnu, einkum innflutningur varanlegs neysluvarnings svo sem bíla og heimilistækja. Í kjölfarið hefur vöruskiptajöfnuður versnað. Annar mælikvarði á umsvif í efnahagslífinu er þróun tekna ríkissjóðs. Innheimtan á fyrstu átta mánuðum ársins gefur greinilegar vísbendingar um aukna veltu og meiri launabreytingar en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum. Þá hefur verulega dregið úr atvinnuleysi upp á síðkastið. Loks má nefna að útlánaaukning bankanna það sem af er árinu hefur verið nokkuð mikil miðað við sama tíma í fyrra. Öll þessi atriði eru dæmigerð merki um mikil umsvif og eftirspurn í efnahagslífinu sem fyllsta ástæða er til að hafa góðar gætur á.

Við ríkjandi aðstæður í efnahagslífinu er brýnt að stjórnvöld freisti þess að hamla gegn aukningu þjóðarútgjalda og komi þannig í veg fyrir að stöðugleikinn í verðlagsmálum raskist. Æskilegt er að grípa til aðhaldsaðgerða bæði í peninga- og ríkisfjármálum. Svigrúm til frekara aðhalds í peningamálum er hins vegar takmarkað þar sem nú þegar er fylgt mjög aðhaldssamri peningamálastefnu. Þetta kemur meðal annars fram í mun hærri vöxtum hér á landi en í flestum nálægum ríkjum. Enn fremur hefur gengi íslensku krónunnar farið hækkandi síðustu missiri sem hefur þrengt að samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. Við þessar aðstæður er mikilvægt að treysta stöðu ríkisfjármála enn frekar. Það stuðlar að auknum innlendum sparnaði og hamlar gegn aukningu þjóðarútgjalda. Í þessu felst þó ekki að það þurfi að draga úr útgjöldum til brýnna málaflokka eins og velferðar- og menntamála, en útgjöld til þeirra munu sem fyrr segir aukast á þessu og næsta ári líkt og undanfarin ár. Hins vegar þarf að beita ýtrasta aðhaldi í opinberum rekstri, t.d. með því að halda áfram að bjóða út ýmis verkefni á vegum ríkisins. Einnig mun áframhaldandi sala á eignum ríkisins til einkaaðila verða til þess að auka sparnað og draga úr innlendri eftirspurn.

Þá vil ég sérstaklega nefna mikilvægi þess að rekstur sveitarfélaga sé með viðunandi hætti sem við ríkjandi aðstæður þýðir að þau skili afgangi af rekstri og leggi þannig sitt af mörkum til þess að treysta stöðugleikann í sessi. Sveitarfélögin hafa ekki farið varhluta af þeim stöðugleika sem hér hefur ríkt að undanförnu og jafnframt notið góðs af auknum kaupmætti almennings. Í kjölfar þess að sveitarfélögin hafa á undanförnum árum tekið við auknum verkefnum af ríkinu lætur nú nærri að þau standi fyrir um fjórðungi opinbers rekstrar í landinu. Það er því enn mikilvægara en áður að rekstur sveitarfélaga taki mið af efnahagslegum aðstæðum hverju sinni. Við ríkjandi aðstæður í efnahagslífinu er því æskilegt að þau skili afgangi og stuðli þannig að áframhaldandi stöðugleika.

Flest bendir til að meginverkefni hagstjórnar hér á landi á næstu árum verði að leita leiða til að auka þjóðhagslegan sparnað og draga úr viðskiptahalla gagnvart útlöndum. Eins og nú horfir stefnir í umtalsverðan viðskiptahalla á árunum 1998 og 1999. Um þriðjung hallans má rekja til tímabundinnar fjárfestingar í stóriðju, sem mun skila sér í auknum útflutningstekjum þegar fram í sækir. Einnig hefur almenn fjárfesting atvinnufyrirtækja aukist verulega og má ætla að hún skili sér einnig í aukinni framleiðslu til lengri tíma litið. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að mikill vöxtur einkaneyslu á einnig nokkurn þátt í auknum viðskiptahalla og er þannig merki um að þjóðhagslegur sparnaður sé of lítill. Þetta er óæskileg þróun sem brýnt er að bregðast við. Hér er þó rétt að ítreka að gert er ráð fyrir lánsfjárafgangi hjá ríkissjóði í ár og á næsta ári sem spornar gegn neikvæðum áhrifum viðskiptahalla á efnahagslífið. Þegar flest þjóðhagsleg skilyrði eru hagstæð, líkt og nú er, er hins vegar æskilegt að afgangur sé á viðskiptajöfnuði og að erlendar skuldir þjóðarbúsins fari lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu, að minnsta kosti ef litið er til viðskiptajöfnuðar án fjárfestingar í stóriðju. Einnig er rétt að hafa í huga að þótt grunnur íslensks efnahagslífs sé mun traustari nú en áður var, meðal annars vegna opnunar hagkerfisins út á við og aukinnar markaðsvæðingar á mörgum sviðum, geta veður skipast skjótt í lofti. Þar nægir að nefna að aflabrögð geta brugðist og viðskiptakjör versnað, en hvort tveggja er nú með hagstæðasta móti samanborið við það sem verið hefur undanfarin ár. Viðvarandi viðskiptahalli sem rekja má til neyslu- og fjárfestingarútgjalda umfram verðmætasköpun í þjóðarbúskapnum er ávísun á þenslu sem grefur undan stöðugleika í efnahagslífinu þegar fram í sækir.

Alþjóðlegar athuganir sýna ótvírætt að aukinn sparnaður hins opinbera, þ.e. afgangur á rekstri hins opinbera, er öruggasta og fljótvirkasta leiðin til þess að auka þjóðhagslegan sparnað. Tvennt rennir stoðum undir þessa kenningu. Annars vegar bendir margt til að sparnaðarvitund almennings sé ekki jafnsterk hér á landi og annars staðar. Hins vegar er erfitt að auka sparnað einkageirans með stjórnvaldsaðgerðum nægilega mikið til að treysta þjóðhagslegan sparnað, að minnsta kosti til skamms tíma litið. Loks er rétt að benda á að við ríkjandi aðstæður er erfitt að beita peningamálunum í því skyni að auka sparnað. Nægir þar að nefna að vextir hér á landi eru þegar mun hærri en í flestum nágrannaríkjunum og líklegt að frekari vaxtahækkun muni annaðhvort leiða til aukinnar lántöku erlendis til að fjármagna fjárfestingu eða draga úr hagvexti þegar fram í sækir. Hins vegar er ótvírætt að efnahagslegar umbætur af ýmsu tagi gætu leitt til aukins sparnaðar. Þannig er enginn vafi á að sala ríkisfyrirtækja getur stuðlað að auknum sparnaði, hvort sem litið er til skamms eða langs tíma. Sama máli gegnir um umbætur í lífeyrismálum sem stuðla að því að auka lífeyrissparnað. Loks má nefna tiltekin sparnaðarform sem fela í sér tímabundnar skattaívilnanir.

Fyrr í haust skipaði ég starfshóp til að fara yfir framkomnar hugmyndir ýmissa aðila og gera tillögur um hvernig efla mætti sparnað í þjóðfélaginu. Þetta starf er nú á lokastigi og verða tillögur vinnuhópsins væntanlega kynntar í ríkisstjórn innan skamms. Í þessu starfi hafa margvísleg atriði verið til skoðunar, meðal annars þau sem ég hef þegar nefnt. Ég vil í þessu samhengi nefna að skiptar skoðanir eru um ágæti ýmissa sparnaðartegunda sem fela í sér skattaívilnanir þar sem þær eru almennt ekki taldar leiða til aukins þjóðhagslegs sparnaðar heldur tilfærslu úr einu formi í annað. Slíkar ívilnanir geta þó verið réttlætanlegar tímabundið í ljósi annarra markmiða en að auka sparnað. Ég tel því mikilvægt að skoða allar mögulegar leiðir sem geta stuðlað að auknum þjóðhagslegum sparnaði sem ég hygg að allir séu sammála um að sé æskilegt og vænti þess að kynna hugmyndir þess efnis síðar í þessum mánuði.

Sem kunnugt er hafa lífeyrismál verið í brennidepli hér á landi undanfarin ár. Á síðustu tveimur árum hafa verið lögfestar mikilvægar breytingar á þessu sviði, bæði hvað varðar lífeyrismál opinberra starfsmanna og starfsemi almennra lífeyrissjóða. Með þessum breytingum hefur grundvöllur lífeyrissjóðakerfisins í heild verið treystur og þannig stuðlað að auknum þjóðhagslegum sparnaði. Ég vil sérstaklega vekja athygli á breytingu sem tekur gildi frá og með næstu áramótum sem getur í senn stuðlað að auknum lífeyrissparnaði og treyst fjárhagslega stöðu lífeyrisþega þegar fram í sækir. Samkvæmt gildandi lögum er lögbundið framlag eða iðgjald einstaklinga í lífeyrissjóði, sem nú nemur 4% af launum, undanþegið tekjuskatti. Frá næstu áramótum geta einstaklingar dregið allt að 2% framlag til lífeyrissparnaðar til viðbótar frá skattskyldum tekjum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þessi viðbótarheimild gefur færi á auknum lífeyrissparnaði einstaklinga og þar með auknum lífeyrisréttindum auk þess sem hún getur stuðlað að auknum þjóðhagslegum sparnaði.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum í því skyni að bæta rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu atvinnulífsins, bæði með lækkun og niðurfellingu skatta og öðrum aðgerðum til að treysta stöðugleikann í efnahagslífinu, hafa skilað umtalsverðum árangri. Í kjölfarið hefur traust erlendra aðila á efnahagsstefnu stjórnvalda farið vaxandi sem meðal annars birtist í bættu lánshæfismati Íslands erlendis. Enn fremur hafa íslensk stjórnvöld fengið afar jákvæða umfjöllun í skýrslum OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bæði vegna þeirra áherslubreytinga sem orðið hafa í hagstjórn og ýmissa skipulagsbreytinga sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á mörgum sviðum efnahagslífsins, á fjármálamarkaði, í opinberum rekstri með aukinni áherslu á hagræðingu og markaðsvæðingu, í lífeyrismálum og víðar.

[10:00]

Stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eins og hún birtist í þessu fjárlagafrv. miðar að því að treysta stöðugleikann í sessi og stuðla að áframhaldandi hagvexti og batnandi lífskjörum heimilanna í landinu. Það er lykilatriði í þessu samhengi að nýta góðærið til að treysta stöðu ríkisfjármála enn frekar en orðið er og halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Lækkun skulda ríkisins er forgangsatriði í ríkisfjármálum og eitt brýnasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir í efnahagsmálum. Með þessu móti er í senn búið í haginn fyrir framtíðina og rennt styrkum stoðum undir áframhaldandi góðæri í efnahagsmálum. Það er meginmarkmið þessa frumvarps.

Ég vitnaði í upphafi til þess tíma er Jón Þorláksson varð fjármálaráðherra árið 1924. Hann greindi þingheimi frá því er hann tók við embætti að handbært fé landsjóðs nægði aðeins fyrir útgjöldum í tvo daga. Jón brást þannig við afar bágstöddum og nær tómum ríkissjóði að leggja fyrir Alþingi umfangsmiklar sparnaðartillögur til að freista þess að ná endum saman. Þessar tillögur voru samþykktar og gengu svo vel eftir að þingið 1924 var jafnan í minnum haft og kallað ,,sparnaðarþingið mikla``. Það væri ekki amalegt ef það löggjafarþing sem nú er nýhafið fengi svipuð eftirmæli. Að því gætu þingmenn stuðlað með því að staðfesta þá mikilvægu stefnu þessa fjárlagafrv. að hefja skuli niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs í stórum stíl og létta þar með myndarlega yfirþyrmandi byrði vaxta og afborgana af komandi kynslóðum.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln.