Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 11:58:13 (41)

1998-10-05 11:58:13# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[11:58]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. kennir fjárlagafrv. sitt við sólina en eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, komst svo ágætlega að orði þá er skýjað með köflum í því frv. Reyndar er það svo að í ýmsum málaflokkum er mjög þungskýjað og sér vart til sólar. En fyrst nokkur orð um sólina og sólskinið.

Að sjálfsögðu er fagnaðarefni að atvinnuleysi skuli vera á niðurleið á Íslandi. Gert er ráð fyrir því að atvinnuleysi verði um 3% á þessu ári og samkvæmt þeim spám sem fylgja frv. ætla menn að atvinnuleysið verði enn minna á næsta ári eða um 2,5%. Auðvitað eigum við ekki að þurfa að búa við neitt atvinnuleysi í því góðæri og þeirri efnahagsuppsveiflu sem við búum nú við í landinu. Hvers vegna segi ég það? Jú, vegna þess að ef undanskilin eru undanfarin ár, reyndar þessi áratugur allur, þá bjuggu Íslendingar ekki við neitt atvinnuleysi frá stríðslokum ef undanskilin eru síðustu ár sjöunda áratugarins. Það má því segja að þótt við náum atvinnuleysi á næsta ári niður í 2,5% þá er það 2,5% of mikið. Hins vegar er það að sjálfsögðu jákvæð þróun að atvinnuleysi skuli vera á niðurleið á Íslandi.

[12:00]

Það er sitthvað annað sem er gott í frv. Það er gott að sjá að í ráði er að fjölga vistrýmum um 120 fyrir aldraða, mér finnst það vera jákvætt. Mér finnst það líka vera jákvætt að ná niður skuldum ríkissjóðs. Skuldir ríkissjóðs hafa verið allmiklar en á niðurleið á undanförnum árum. Árið 1996 námu skuldir ríkissjóðs tæpum 50% af vergri landsframleiðslu. Menn ætla að þetta hlutfall verði komið niður í 34% á næsta ári og samkvæmt spám ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að þetta hlutfall verði miklum mun lægra þegar fram líða stundir og er talað um 20% af vergri landsframleiðslu þegar komið er fram til ársins 2003. Vissulega væri ánægjuefni ef þetta gengi eftir. Við höfum bent á það aftur og ítrekað, bæði úr röðum stjórnarandstöðunnar og einnig af vettvangi samtaka launafólks, að efnhagsuppsveiflu á að nota til þess að ná niður skuldum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að það er slæmt að búa við þunga skuldastöðu þegar kreppir að og illa árar. Þá þurfa menn iðulega að ráðast í lántökur til þess að örva hjól atvinnulífsins og skapa atvinnu. Oft hefur þessu verið öfugt farið hér og nægir að nefna byggingu Perlunnar og Ráðhússins í Reykjavík en ráðist var í þessa dýru mannvirkjagerð á þenslutímum. Það er því í sjálfu sér jákvætt og gott og heyrir sólskininu til að ná niður skuldum.

Hins vegar eru ýmsar blikur á lofti. Það eru blikur á lofti á alþjóðavettvangi og því miður ástæða til að ætla að þeir bjartsýnistónar og þær bjartsýnu fullyrðingar eða spár sem fram koma í þjóðhagsspá, sem fylgir frv., muni ekki standast. Gert er ráð fyrir því að á næstu árum eða fram til ársins 2003 verði hagvöxtur að meðaltali um 3%. Gert er ráð fyrir því að útflutningur þjóðarinnar aukist um 3--4% á ári. En sérfræðingar sem fjalla um ástandið í alþjóðaviðskiptum og í efnahagskerfi heimsins hafa einmitt þessa dagana uppi varnaðarorð sem gefa ástæðu til að ætla að þessar spár kunni að vera ívið of bjartsýnar. Nægir þar að minna á fund sjö helstu iðnríkja heims sem hefur nú átt sér stað þar sem menn hafa einmitt verið að slá þessa varnaðartóna.

Þótt æskilegt og gott sé að ná niður skuldum hins opinbera er engin ástæða fyrir Íslendinga til að fara á taugum yfir því hvernig ástatt er í þeim efnum hér á landi því ef við lítum til þeirra ríkja sem við berum okkur helst saman við eru skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu mjög litlar á Íslandi. Ef litið er t.d. til ársins 1997 þegar skuldir hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, voru 53% hér á landi, þá voru þessar tölur 67,3% fyrir Danmörku, Þýskaland 61%, Frakkland 57,9%, Írland 72,3%, Ítalíu 123%, Holland 75%, Austurríki 71% og ef ég man rétt er meðaltalið í OECD-ríkjunum í kringum 70%, í Evrópusambandsríkjunum 75% eða þar um bil. Skuldir hins opinbera á Íslandi eru því tiltölulega lágar miðað við það sem gerist í viðmiðunarríkjum okkar. Annað er af því að við erum að bera saman hið opinbera hér við það sem er hjá öðrum þjóðum að þá er samneyslan á Íslandi miklu minni en gerist annars staðar. Þess vegna er niðurskurður hjá hinu opinbera alvarlegri hér en t.d. í Svíþjóð þar sem menn hafa ráðist í mikinn niðurskurð á liðnum árum. Menn eru engu að síður að bera sig saman við þessar þjóðir. Niðurstaðan er hins vegar ekki sambærileg. Þessa niðurstöðu og þessar afleiðingar niðurskurðar höfum við t.d. séð hjá þeim hópum sem standa höllum fæti í þjóðfélagi okkar. Það er vissulega ömurleg staðreynd að hugsa til þess að fjöldi fólks á Íslandi þurfi að leita til hjálparstofnana, Rauða krossins og Hjálparstofnunar kirkjunnar, til þess eins að fá næringarríkan mat og fá klæði. Þetta hlýtur að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni. Þetta eru þeir fyrirvarar sem ég er núna byrjaður að hlaða á þessa fyrstu yfirlýsingu sem ég nefndi hér um að það væri sitthvað jákvætt í þessu frv. Þótt það sé gott og jákvætt að ná niður skuldum og við eigum að sjálfsögðu að stefna að því er náttúrlega forgangur númer eitt, tvö og þrjú að útrýma fátækt á Íslandi og þess sér ekki stað í þessu frv. að það sé ráðist á þann vanda.

Ég mun koma að því síðar hvernig ég tel að ráðast ætti í það verkefni og lýtur bæði að forgangsröð í ráðstöfun fjármunanna og síðan að tekjuöfluninni. En við þurfum að skoða þessi mál í víðu samhengi. Við þurfum að spyrja hvernig á því standi að hagur ríkissjóðs er eins góður og raun ber vitni. Þegar þannig er spurt kemur í ljós að tekjur ríkissjóðs hafa farið vaxandi síðustu missiri, ekki vegna skattahækkana heldur þrátt fyrir skattalækkanir. Ástæðan fyrir þessu er sú að veltan í íslenska efnhagskerfinu hefur skapað ríkinu auknar tekjur.

Hluti af veltunni er innfluttur. Við flytjum miklu meira inn til landsins en við flytjum út úr landinu og nú stefnir í mesta viðskiptahalla sem Íslendingar hafa búið við síðan snemma á síðasta áratug, síðan árið 1982. Það stefnir í að viðskiptahalli Íslendinga á þessu ári verði 38,5 milljarðar kr. Nú er rétt að spyrja hvort innstæða sé fyrir þessari auknu veltu og hvernig okkur muni takast eða hvort okkur muni takast að snúa þessum gríðarmikla viðskiptahalla upp í hagnað þegar fram líða stundir.

Að sjálfsögðu er ekki hægt að svara spurningunni nú að öllu leyti einfaldlega vegna þess að hluta af þessum viðskiptahalla má skýra í ljósi aukinna fjárfestinga, flugvélakaup, virkjunarframkvæmdir og fleira sem kann að gefa okkur tekjur þegar fram líða stundir. Hins vegar má rekja hluta af þessum viðskiptahalla til aukinnar neyslu, bílakaupa, heimilistækja og þar fram eftir götunum, og það hlýtur að valda okkur áhyggjum að sjá hve skuldir heimilanna vaxa jafnt og þétt og eru nú komnar í um 400 milljarða kr. en skuldastaða heimilanna er orðin verri en hún hefur nokkru sinni verið fram til þessa. Þetta er skýringin á hinum góða hag ríkissjóðs, geigvænlegur viðskiptahalli sem áhöld eru um hvort innstæða verður fyrir þegar fram líða stundir.

Annað er áhyggjuefni og hlýtur að vera áhyggjuefni og talsmenn stjórnarandstöðu hafa vakið máls á hér, það er hagur sveitarfélaganna. Það segir í þjóðhagsspánni, sem fylgir frv., að gert sé ráð fyrir að halli á rekstri sveitarfélaganna á næsta ári muni að öllum líkindum nema hálfum öðrum milljarði kr. Þá vaknar sú spurning hvort góður hagur ríkissjóðs sé á kostnað sveitarfélaganna því að það er staðreynd að ríkið hefur verið að færa verkefni af sínum herðum yfir til sveitarfélaganna. Þegar peningaleg staða sveitarfélaganna og skuldsetning sveitarfélaganna er skoðuð núna á undanförnum árum kemur mjög alvarleg og uggvænleg þróun í ljós.

Ef litið er á peningalega stöðu sveitarfélaganna, eðlilegast er að skoða hana í stað heildarskuldanna, það gefur gleggsta mynd af raunverulegri stöðu. Árið 1990 var peningaleg staða þeirra um fimm milljarðar í mínus. Árið 1993 er þessi tala komin í 13,5 milljarða. Árið 1995 24 milljarða í mínus. Samkvæmt nýjustu tölum sem menn hafa þá gera menn ráð fyrir að peningaleg staða sveitarfélaganna verði 24,3 milljarðar í mínus árið 1997.

Allt þetta þurfum við að skoða þegar við erum að velta fyrir okkur þessari góðu stöðu ríkissjóðs. Þess vegna er rétt að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., og væri fróðlegt að fá skýringar hans á því hér á eftir eða vangaveltur um það efni, hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að á sama tíma og hann spáir því að árið 2003 verði skuldir ríkissjóðs komnar niður í það mark að vera 20% af vergri landframleiðslu muni skuldir íslensku þjóðarinnar hafa aukist. Skuldir íslensku þjóðarinnar verða 2% hærri árið 2003 en núna samkvæmt þeirra eigin spám. Íslendingar munu því búa við verri hag að þessu leyti samkvæmt spám ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Hún spáir því í gögnum sínum að skuldir Íslendinga árið 2003 verði tæp 50% af vergri landsframleiðslu en er að stæra sig núna af því að verða þá komin með skuldir ríkissjóðs niður í 20%. Ég er að hvetja til þess að menn skoði heildardæmið. Alvarlegast finnst mér ef góð staða ríkissjóðs er á kostnað sveitarfélaganna. Það kemur fram í þjóðhagsáætluninni að halli á rekstri sveitarfélaganna verði hálfur annar milljarður á næsta ári. Að hluta til ætla menn að þetta sé vegna ákvarðana um að færa dýr verkefni frá ríki til sveitarfélaga.

[12:15]

En hvað hefði ríkisstjórnin getað gert? Hvernig hefði hún átt að bera sig að? Ég held að hér hafi verið gerð mjög alvarleg mistök í skattamálum á undanförnum árum. Í ljós kemur að fyrirtækin í landinu láta nánast ekkert af efnahagsbatanum rakna til þjóðarbúsins. Framlag fyrirtækjanna til samneyslunnar stendur nánast í stað undanfarin þrjú ár á meðan launafólk greiðir miklum mun meira en það gerði áður. Ég tel það hafa verið rangt að lækka skatta á hátekjufólk og ég tel það hafa verið rangt að lækka tekjuskatta fyrirtækja í þeim mæli sem gert hefur verið. Fyrir örfáum árum voru tekjuskattar fyrirtækja yfir 50%. Hvað skyldu þeir vera núna? Hvað skyldu tekjuskattar á Íslandi fyrir fyrirtæki vera núna á þessu yfirstandandi skattaári? 30%, tekjuskattar fyrirtækjanna hafa verið lækkaðir um 20% á fáeinum árum. Skattar á hátekjufólk hafa líka verið lækkaðir stórlega. Frægast að endemum var lækkun í tengslum við fjármagnstekjufrv. og fjármagnstekjulögin. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra á sínum tíma lækkaði skattstofn af arði, söluhagnaði, um tæpan milljarð króna við þau. Svo dæmi sé tekið af einu fyrirtæki, fyrir og eftir þessa skattbreytingu, minnist ég þess að í þann mund sem þessi breyting var gerð á lögum var eitt stórt fyrirtæki með aðsetur í Reykjavík að greiða út arð. Tíu einstaklingum sem tilgreindir voru í frétt um það mál voru greiddar 14,3 millj. kr. í arðgreiðslur. Áður en þessi lög um fjármagnstekjuskatt tóku gildi hefði skatturinn sem þetta fólk hefði þurft að borga verið 5,5 til 6,5 millj. kr. Hver skyldi hann hafa verið eftir að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og hæstv. fjmrh. Geirs H. Haarde og forvera hans Friðriks Sophussonar fór höndum um lögin? Hver skyldi breytingin hafa orðið? Jú, þetta fólk greiddi eftir umrædda lagabreytingu 1--1,5 millj. kr., það fór eftir aðstæðum hvers og eins hvar á bilinu menn voru. Með öðrum orðum, aðeins skattur þessa hóps, tíu einstaklinga sem eru að fá útgreiddan arð úr stórfyrirtæki í Reykjavík, lækkar úr um 6 millj. niður í 1 millj. Þetta hefur verið að gerast í landinu. Þetta eru þær skattbreytingar sem hv. þm. Jón Kristjánsson hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum. Að lækka tekjuskatta fyrirtækja um 20%. Lækka skatta á ríkustu einstaklingana í landinu og á sama tíma berast okkur fréttir af því að öryrkjar og gamalt fólk leiti til Hjálparstofnunar kirkjunnar og Rauða krossins til að hafa í sig og á. Hvers konar ríkisstjórn er þetta eiginlega?

Vill þjóðin hafa þetta svona? Vill þjóðin hafa ein lög og eina reglu fyrir almenning en láta allt annað gilda um forréttindafólkið? Hvers vegna segi ég það? Hvers vegna segi ég að allt annað gildi um forréttindafólkið? Við skulum taka af því dæmi. Hver skyldu skattleysismörk vera fyrir almennan launamann? Hver skyldu þau vera? Þau eru 59.867 kr. en ef einstaklingur hefur tekjur af arði og fjármagni, hver eru skattleysismörkin þá? Hver skyldu skattleysismörkin vera fyrir þann sem situr heima og klippir á sér neglurnar meðan peningarnir streyma inn á bankareikningana? Hver eru skattleysismörkin fyrir hann? Þau eru 233.600. Slíkur einstaklingur má hafa 233.600 í tekjur á mánuði án þess að ein einasta króna fari til samfélagsins.

Þetta er þjóðfélag meiri háttar fólks og minni háttar fólks og svo er þessi ríkisstjórn að tala um sólskinsfjárlög. Auðvitað baðar þetta fólk, fjármangarar og gróðafólk, sig í góðæri og sólskini hæstv. fjmrh. Geirs H. Haarde á meðan aðrir og fátækasti hluti þjóðarinnar þarf að leita til hjálparstofnana til að hafa í sig og á.

Fyrir nokkru var gerð athyglisverð könnun og hún rædd á opinberum vettvangi fyrir fáeinum vikum. Harpa Njáls, félagsfræðingur, hefur unnið þá könnun. Þar kemur í ljós að þrátt fyrir stórstígar efnahagsframfarir sem orðið hafa á þessari öld er það svo að það hlutfall þjóðarinnar sem er undir fátækramörkum, og er þá notast við algilda mælikvarða um að hafa í sig og á, er hið sama nú í aldarlok og það var í aldarbyrjun. Er þetta sæmandi? Er sæmandi að gera ekki eitthvað í þessu máli? Ég beini orðum mínum til Geirs H. Haarde og fulltrúa Framsfl. vegna þess að Framsfl. er að sjálfsögðu ábyrgur fyrir þessu líka. Er sæmandi að lækka skatta á hátekjufólk, arðgreiðslur, fjármagn og tekjur stórfyrirtækja á sama tíma og fátæku fólki er vísað út á gaddinn?

En vill íslenska þjóðin þetta? Vilja menn hafa þetta svona? Nei, þjóðin vill ekki hafa þetta svona. Í umfangsmestu könnun sem framkvæmd hefur verið hér á landi á afstöðu Íslendinga til velferðarþjónustunnar --- þetta var gert á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands --- kemur fram að Íslendingar vilja ekki hafa þetta svona. Þeir vilja breytingar á þessu. Fram kemur að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vill aukna aðstoð hins opinbera við þá hópa í þjóðfélaginu sem standa höllum fæti og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er tilbúinn að taka á sig auknar byrðar til að svo geti orðið.

Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hafnar þjónustugjöldum. Þjónustugjöld er hugtak sem segir okkur kannski lítið. Þetta orð er notað yfir það að rukka gamalt fólk sem fer á elliheimili eða fólk sem verður veikt og þarf að leita til læknis, þá er það rukkað sérstaklega. Þegar þjóðin var spurð fyrir tæpum tíu árum, 1989, hvort henni fyndist koma til greina að lækka skatta, greiðslur úr sameiginlegum sjóðum, og hækka þá þjónustugjöld, gjöldin á gamla fólkið og veika fólkið og skólanemana, voru um 60% þessu andvíg. 40% sögðu að þetta kæmi til greina í einhverjum litbrigðum, menn voru misjafnlega harðir á þessu. Nú eru yfir 70% andvíg þessu. Yfir 70% hafna þjónustugjöldum og vilja jafnvel taka á sig meiri skattbyrðar til að geta hlaupið undir bagga með þeim sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu.

Margt annað kemur fram merkilegt í þessari könnun. Það kemur fram að fólk vill auka aðstoð við aldraða, við öryrkja. Vill auka aðstoð við barnafólk. (GE: Margir jafnaðarmenn.) Margir jafnaðarmenn, segir hv. þm. jafnaðarmanna, Gísli Einarsson. Það er alveg rétt. Fólk andæfir þeirri stefnu og þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til þennan áratug sem tvær undangengar ríkisstjórnir Sjálfstfl., fyrst í samvinnu við Alþfl. og síðan nú við Framsfl., hafa gripið til. Þjóðin er að andæfa þessu, hún vill þetta ekki. Hún vill aðstoð við barnafólk.

Nú er hið sama að gerast og gerðist á fyrstu árum þessa áratugar þegar skorið var niður við barnafólk. Þá var á einum fjárlögum, í einu vetfangi skorið niður um hálfan milljarð. Þetta er að gerast núna, reyndar undir öðrum formerkjum, vegna þess að þá var reglunum breytt. Viðmiðunarreglunum var þá breytt þannig að um beinan niðurskurð var að ræða. Engu að síður er það svo að framlag til barnafólks í gegnum barnabætur verður nú 550 millj. lægra á næsta ári en á þessu ári. Hvernig stendur á þessu? Jú, ástæðan er sú að tekjur fólks hafa aukist án þess að viðmiðunarreglum, útreikningsreglum fyrir barnabætur sé breytt. Þess vegna verður framlag hins opinbera til barnafólks minna, sem nemur rúmum hálfum milljarði kr. en í fyrrgreindri könnun kom fram að 97% þjóðarinnar vill auka aðstoð við barnafólk. Svar ríkisstjórnarinnar er að skera niður, að framlagið verði 550 millj. kr. minna á næsta ári en það er núna.

[12:30]

Síðan eru í frv. ýmsar mjög undarlegar mótsagnir. Menn gera t.d. ráð fyrir því að efna til hátíðahalda árið 2000. Það er ágætt. Ríki og kirkja ætla að halda mikið partí árið 2000. Það er góðra gjalda vert að gera sér glaðan dag. En á næsta ári einu til undirbúnings samkvæmislífinu árið 2000 eiga að fara 260 millj. kr. 260 millj. kr. eiga að fara í undirbúning að hátíðahöldunum og hinu stóra samkvæmi árið 2000. (Gripið fram í: Það þarf aldeilis að hita upp.) Það þarf aldeilis að hita upp. (Gripið fram í: Það er þúsundkall á mann.) Á sama tíma treysta menn sér ekki til að koma til móts við sanngjarnar kröfur öryrkja og aldraðra og á sama tíma er verið að skera niður við barnafólk um rúman hálfan milljarð á einu ári.

Það er margt harla óljóst í þessu frv. Það er t.d. talað um að gera þjónustusamninga við sjúkrahúsin án þess að nokkuð komi fram hvað felist í þessu. Þetta er fræg leið sem menn hafa víða farið til að ýta vandanum áfram, koma honum af eigin herðum yfir á aðra, láta menn fá tilteknar upphæðir og svo bítast innbyrðis um hvernig eigi að skipta þeim inni á sjúkrahúsunum og stofnunum. Þetta er þekkt leið. Þetta er hin nýsjálenska leið, þeir gerðu þetta svona. En hvað felst í þessu? Á að koma meira fjármagn til sögunnar? Hvað er verið að tala um? Hvað eiga menn við þegar þeir tala um að spara 360 millj., held ég, í lyfjakostnaði. Ég held að það hafi verið talað um 360 millj. og þar er talað um breytingar á reglugerðum. Hvað er átt við með því? Það er að vísu talað um samkeppni og markaðinn, en það er líka talað um breytingar á reglugerðum án þess að það komi fram hvað þar er átt við. Það er því margt mjög óljóst í þessu.

En einu vil ég koma að áður en ég hverf frá einstökum efnisþáttum en það eru lífeyrisskuldbindingar sem hér hafa verið til umfjöllunar. Reyndar er það svo að mér finnst framsetningin á þeim lið ekki alveg ljós að öllu leyti. Hún er eilítið misvísandi og ruglingsleg. Ég er ekki að segja að hún sé röng, alls ekki, en það er að mörgu leyti erfitt að átta sig á henni. En það er talað um lífeyrisskuldbindingar upp á rúma 9 milljarða á þessu ári, 9,2 milljarða. Þar af eigi 1,3 milljarðar að fara á reikninga einstakra stofnana en hitt eru áfallnar og uppsafnaðar skuldbindingar. Það sem ég vildi segja í þessum efnum er að vara menn við einhverjum miklum og þungum dómum vegna þess að hér er margt að gerast í senn. Hér áður fyrr var iðgjaldið greitt inn í lífeyrissjóðinn, 10% af föstum launum. Síðan fór það eftir verðbólgunni hverju sinni hvernig tækist til um verðbótaþáttinn. Iðulega var hann ekki að finna í reikningum. Nú er verið að skuldfæra þetta allt inn í reikninga sem er hið besta mál og þetta eru peningar sem koma ekki til útborgunar fyrr en síðar en um er að ræða annan uppsetningarmáta á reikningshaldinu.

Hitt hafa menn rætt að þarna komi til miklar skuldbindingar vegna launakerfisbreytinga og það er alveg rétt. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst það mjög jákvætt að lífeyrisþegar fái hlutdeild í þeim breytingum sem til góðs kunna að horfa í launakerfinu. Mér finnst það jákvætt, mér finnst það mjög gott og ég fagna því. Að sjálfsögðu á ekki að hlunnfara eldra fólk að þessu leyti. Að sjálfsögðu á ekki að gera það. Hitt er annað mál að ég hef af því áhyggjur ef ég horfi á málin frá þessari hlið, frá þessu sjónarhorni, að hér sé um kúf að ræða. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að því miður var það svo að með þessum launakerfisbreytingum er byggð inn í launakerfið launalækkun. Hvernig stendur á því? Vegna þess að það var numin úr gildi ákveðin sjálfvirkni í launakerfinu og þegar talað er um sjálfvirkni er verið að tala um starfsaldurshækkanir t.d. Þessi hækkun gat numið upp í 25% á starfsævinni. Frá því að einstaklingurinn byrjaði og þar til hann lauk störfum gátu launin hækkað um 25%. Þetta er að verulegu leyti tekið út úr launakerfinu. Þess vegna er það þannig að þótt enginn lækki núna í launum við þessar launakerfisbreytingar, þá er að finna þarna launalækkun til framtíðar, óttast ég. Ég óttast það en hið jákvæða fyrir ríkisreikningana er að lífeyrisskuldbindingarnar núna eru að öllum líkindum kúfur sem er ekki til framtíðar. Á þetta vildi ég benda.

Hver er þá niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að þótt skuldir ríkisins séu á niðurleið eru skuldir þjóðarinnar í heild á uppleið og verða samkvæmt spá ríkisstjórnarinnar hærra hlutfall af landsframleiðslu eftir fimm ár en þær eru nú. Hagur ríkissjóðs er að vænkast, m.a. á kostnað sveitarfélaga. Og vegna þess hve ríkisstjórninni hafa verið mislagðar hendur í skattlagningu hefur skapast hér hættulega mikill viðskiptahalli og stefnir í að hann nálgist 40 milljarða eða 6,6% af landsframleiðslu og er það miklu meira en nokkru sinni síðan 1982 þegar viðskiptahallinn nálgaðist 8% af landsframleiðslu.

Auðvitað eru það skelfileg mistök að lækka skatta á fyrirtæki um 20 prósentustig á örfáum árum með þeim afleiðingum að fyrirtækin taka engan þátt í að leggja sinn skerf af efnahagsuppsveiflunni til þjóðarbúsins. Barnafólki er ætlað rúmum hálfum milljarði minna en á síðasta ári vegna þess að tekjuviðmiðun er ekki breytt í kerfinu, og á sama tíma er öryrkjum skammtað úr hnefa eins og fyrri daginn. Á sama tíma og á þriðja hundrað millj. er ætlað til undirbúnings hátíðahöldum árið 2000 --- ég bið menn um að taka eftir þessu --- á næsta ári er áætlað að verja á þriðja hundrað millj., 260 millj., í undirbúning að veisluhöldum ríkis og kirkju. Á sama tíma verður öryrkjum áfram vísað til Rauða krossins og Hjálparstofnunar kirkjunnar. Hvers konar kristni er þetta, með leyfi? Er ekki ástæða til að ræða þetta í kirkjum landsins? En úr þessu fáum við að öllum líkindum ekki bætt fyrr en í kjörklefanum næsta vor.