Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 12:40:02 (42)

1998-10-05 12:40:02# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[12:40]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Fjárlagafrv. fyrir árið 1999 er nú komið til 1. umr. á öðrum degi Alþingis þetta haust. Þetta er nokkuð fyrr en verið hefur og er það vel. Þótt gott samkomulag hafi verið um það í fjárln. að vinna í tengslum við frv. hefjist áður en það komi til nefndarinnar með formlegum hætti er eðlilegt að þær ábendingar og áherslur sem koma fram við 1. umr. berist nefndinni áður en vinna hefst við frv. af fullum krafti.

Frv. til fjárlaga er mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og kemur þar margt til. Það markar rammann um umsvif og aðgerðir ríkisvaldsins. Það er mikilvægur hluti efnahagsstefnunnar á hverjum tíma og það stjórntæki í efnahagsmálum sem ríkisvaldið hefur í sínum höndum. Það markar útgjöld til hinna ýmsu málaflokka og þar með umsvif ríkisstofnana. Það hefur einnig áhrif á lífskjör þjóðarinnar og markar þær tekjur sem ríkisvaldið tekur til sín þó að þær séu niðurnegldar í frv. um skattamál á hverjum tíma. Það markar velferðarkerfinu ramma og þeim tryggingabótum sem ríkisvaldið hyggst greiða þeim sem þurfa á þeim að halda.

Það er ekki óeðlilegt að spyrja þegar fjárlög eru til umræðu hvert hlutverk ríkisvaldsins sé á hverjum tíma. Þetta er eitt af þeim grundvallaratriðum sem til umræðu eru í stjórnmálum samtímans, bæði hér og annars staðar. Þau ríki Austur-Evrópu sem bjuggu við kommúnisma, sósíalisma og alræði ríkisvaldsins berjast nú við að losa þessi tök af efnahagslífinu.

Í vestrænum ríkjum snýst umræðan um það hve mikil þessi afskipti eiga að vera og hvaða þætti samfélagsins ríkið eigi að tryggja. Flokksþing Framsóknarflokksins árið 1996 ályktaði um þessi efni þar sem stefnan er mörkuð. Þar segir eftirfarandi:

,,Rekstur samkeppnisfyrirtækja er best komin í höndum einstaklinga og samtaka þeirra. Hlutverk ríkisvaldsins er þá fyrst og fremst að tryggja heilbrigt rekstrarumhverfi fyrir atvinnulífið þar sem samkeppni er næg og fyrirtæki geta vaxið og dafnað. Ríkinu ber að draga sig úr þeim rekstri sem einstaklingar og samtök þeirra geta sinnt með góðu móti, en nýta sér kosti markaðarins eftir því sem hægt er, nema þar sem markaðsbrestir kalla á ríkisafskipti eða ríkisrekstur. Vinna ber gegn hvers konar hringamyndun og fákeppni sem leiðir til óhóflegrar auðsöfnunar eigenda og verðhækkana fyrir almenning. Ríkisvaldinu ber að stuðla að og leggja fjármuni til þeirrar starfsemi þar sem markaðurinn er ófullkominn.``

Ég nefni þetta stefnuskráratriði í þessari umræðu vegna þess að það hefur verið unnið í anda þess síðustu tvö árin. Í fjárlögum ársins í ár og í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir umtalsverðri sölu ríkiseigna. Tilgangurinn er tvenns konar: Að ríkið dragi sig út úr samkeppnisrekstri og andvirði eignanna sé notað til að greiða niður skuldir.

Þegar sala ríkiseigna er áformuð ber brýna nauðsyn til að búa svo um hnútana að almenningur fái sannvirði fyrir þessar eignir. Í ljósi þessa markmiðs ber t.d. ekki nauðsyn til að hraða sölu ríkisbankanna. Þeir hafa verið að styrkja sig í batnandi efnahagsástandi og það er eftirspurn eftir hlutabréfum í þeim eins og nýlegt hlutafjárútboð sýnir og það styrkir stöðu þeirra enn frekar. Sama gildir um Landssíma Íslands. Fyrirtækið er að koma sér fyrir í breyttu markaðsumhverfi. Þar eru miklar eignir sem þjóðin á og það skiptir miklu máli þar hvernig á er haldið. Það má ekki gleyma því að Landssími Íslands og Ríkisútvarpið eru hluti af öryggiskerfi landsmanna. Það er sérstök ástæða til að hafa það í huga þótt umhverfi þessara stofnana hafi breyst mjög á síðari árum í samkeppnisátt. Af þessum ástæðum viljum við framsóknarmenn að Ríkisútvarpið sé áfram í eigu og undir stjórn ríkisvaldsins.

Fjárlagafrv. nú einkennist af batnandi efnahagsástandi. Fyrir fjórum árum var vaxandi atvinnuleysi í landinu sem var framar öðru félagslegt og fjárhagslegt vandamál fyrir þá einstaklinga sem lentu í hremmingum þess en einnig fjárhagslegt vandamál fyrir ríkissjóð. Atvinnuleysið stafaði m.a. af því að fjárfestingar voru þá í lágmarki frá stríðslokum. Í raun ríkti kyrrstaða í þessum málum. Það var eitt höfuðmarkmið núv. ríkisstjórnar að fá hjólin til að snúast og minnka atvinnuleysið. Árangurinn blasir við í dag. Fjárfestingar hafa vaxið, atvinnuleysið hefur minnkað meira en um helming í prósentum talið og er nú eftirspurn umfram framboð eftir vinnuafli á mörgum sviðum. Erlendir fjárfestar hafa nú trú á íslensku efnahagslífi og jafnframt hefur bjartsýni vaxið hjá innlendum aðilum og fjölmörg fyrirtæki hafa verið að fara inn á nýja starfsemi og bæta við sig. Þetta er eitt lykilatriðið hvað varðar afkomu ríkissjóðs eins og ég kem að síðar.

[12:45]

Við Íslendingar höfum nú búið áratug við lága verðbólgu. Þjóðarsáttin árið 1989 lagði grunn að þessum árangri eftir mikla verðbólgu í lok uppsveiflunnar í efnahagsmálum árið 1987 og 1988. Þessi staðreynd hefur lagt grunn að stöðugleika í efnahagslífinu og aukið kjark til athafna og framfara. Efnahagskerfi okkar er hluti af efnahagskerfi vestrænna þjóða og verðbólga upp á tugi prósenta mundi rústa samkeppnisstöðu atvinnugreinanna, hún mundi rústa afkomu ríkissjóðs og hún mundi rústa afkomu einstaklinganna í landinu. Hallalaus fjárlög eru það tækifæri sem ríkisvaldið hefur í höndunum framar öðrum úrræðum til þess að halda þessu jarfnvægi.

Ég minnist þess að á fyrstu starfsmánuðum núverandi ríkisstjórnar hélt þingflokkur framsóknarmanna fund á Akureyri þar sem sérfræðingar fóru yfir skuldastöðu þjóðarinnar og horfur næstu ára í því efni. Þar var sú staðreynd undirstrikuð að ef haldið yrði áfram á sömu braut næsta áratug og verið hafði á áratugnum áður í skuldasöfnun, væri raunveruleg hætta á því að Íslendingar mundu missa fjárhagslegt sjálfstæði sitt og sendinefnd frá Alþjóðabankanum eða öðrum lánardrottnum setti hér leikreglur um efnahagsráðstafanir. Mér brá við þessar staðreyndir og ég hef áreiðanlega ekki verið einn um það. Þetta má aldrei gerast. Til þess að koma í veg fyrir það þarf að horfa yfir lengri tíma og láta stundarhagsmuni víkja þegar fjallað er um ríkisfjármál. Til að sporna við að slíkt gerist er tilvinnandi þó að sárt sé oft og tíðum að hafna erindum sem berast til ríkisvaldsins um aukin útgjöld jafnvel þó að þau séu til hinna bestu mála. Til þess að jafnvægi náist þarf að vanda til forgangsröðunar í ríkisfjármálum. Þetta á alveg jafnt við þó árferði sé gott eins og nú er og tekjur séu vaxandi.

Sem betur fer gerir frv., sem við höfum nú í höndum, ráð fyrir að skuldir séu greiddar niður um umtalsverða fjármuni. 30 milljarða skuldaniðurgreiðsla á næstu tveimur árum mun þýða að heildarskuldir ríkissjóðs sem hluti af landsframleiðslu lækka á næstu tveimur árum úr 49% í 34%. Þetta er mikill árangur og það er forgangsmál að ná þessu markmiði og ber að undirstrika það sérstaklega.

Hin jákvæðu teikn efnahagsmálanna blasa alls staðar við um þessar mundir. Atvinnuleysi hefur minnkað og beinn fjárhagslegur sparnaður er af því fyrir ríkissjóð sem nemur 180 millj. kr. á næsta ári þrátt fyrir hækkanir bóta. Verðbólguspáin er núna 1,7% og er lægri en í upphafi árs. Við nálgumst nú meðaltal OECD-ríkja hvað þetta varðar. Landsframleiðsla vex um 5,2% samkvæmt áætlun þessa árs og 4,6% samkvæmt spá um næsta ár. Kaupmáttur ráðstöfunartekna eykst um 9% á yfirstandandi ári samkvæmt nýjustu spám og spáð er áframhaldandi aukningu á næsta ári um 4,6%. Það hefur verið samið á vinnumarkaði fram á árið 2000. Þetta skiptir sköpum um afkomu ríkissjóðs. Því er oft haldið fram að þetta sé eingöngu hagstæðum ytri skilyrðum að þakka en ekki stjórnvöldum. Vissulega er rétt að ytri skilyrði hafa verið hagstæð. Hitt er staðreynd að auðvelt hefur verið að spila út ábatanum í auknum ríkisútgjöldum í enn ríkara mæli en gert hefur verið og ber brýna nauðsyn til að búa atvinnulífið þannig úr garði að það sé samkeppnisfært í alþjóðlegri samkeppni. Það er sú krafa sem gerð til þjóða sem vilja standa á eigin fótum í efnahagslegu tilliti.

Það er ekki leiðin til þess að svo verði að skattleggja atvinnulífið í ríkari mæli en gerist hjá öðrum þjóðum. Ég nefni þetta sérstaklega hér vegna þess að stjórnarandstaðan mun enn sem fyrr stunda þann málflutning að nær væri að taka meiri skatta af atvinnulífinu og verja þeim útgjaldaauka til góðra mála. Aldrei má gleymast að atvinnulífið í landinu verður að vera þess umkomið að borga fólki sínu mannsæmandi laun án þess að fara út í verðlagið, standa sig í samkeppni og hafa fjármuni til þess að þróa starfsemina og sækja inn á nýjar brautir.

Sérstök ástæða er til að nefna þetta nú þegar vinstri flokkarnir hafa það sérstakt stefnuskráratriði að leggja skatt á sjávarútveginn, undirstöðuatvinnuveg landsmanna, sem í upphafi var kallaður auðlindagjald en er í raun skattlagning upp á 5 milljarða kr. sem hafa verið nefndir sem upphafstala. Vissulega er það markmið að atvinnulífið greiði skatta til samfélagsins en þræða verður hinn gullna meðalveg í þeirri skattheimtu.

Framsóknarmenn settu sér það mark fyrir síðustu kosningar að skapa 12 þúsund störf í landinu til aldamóta. Þetta vakti athygli og var jafnvel haft í flimtingum af andstæðingunum í kosningabaráttunni eins og þetta væri ókleift markmið. Nú er útlit fyrir að þetta náist og vel það og með sömu þróun verða ný störf ekki 12 þúsund til aldamóta heldur yfir 14 þúsund. Eins og ég kom að í fyrri ræðu minni hefur þetta tekist með því að halda stöðugleika í atvinnulífinu og með því að vinna markvisst að því að laða að fjárfestingar. Við framsóknarmenn höfum verið ásakaðir fyrir stóriðjustefnu en ég vill fullyrða að stækkun álversins í Straumsvík og fjárfestingar Norðuráls á Grundartanga og þau umsvif sem fylgdu mörkuðu þáttaskil í auknum umsvifum í atvinnulífinu hérlendis. Þau eru nú að skila sér í auknum tekjum almennings og minnkandi atvinnuleysi.

Hins vegar er byggðaþáttur þessara framkvæmda áhyggjuefni og nauðsyn ber til ef samningar takast um frekari stórframkvæmdir þá verði það framkvæmdir á landsbyggðinni eins og ríkisstjórnin hefur reyndar markað stefnu um. Vaxandi fjárfestingar hafa reyndar leitt af sér aukinn viðskiptahalla og vaxandi einkaneysla hefur bætt þar í. Hins vegar er efnahagskerfi okkar smátt og stór viðskipti eins og flugvélakaup og -sölur geta haft merkjanleg áhrif á viðskiptahalla. Eigi að síður er hann eitt af hættumerkjunum í efnahagslífinu. Þversögnin er sú að ríkissjóður nýtur góðs af honum vegna óbeinnar skattlagningar. Við þessar aðstæður verður að ná endum saman í rekstri ríkissjóðs og nauðsyn ber til að huga að ráðstöfunum til að auka valkosti almennings í sparnaði. Þjóðhagslegan sparnað þarf að auka en hann hefur verið of lítill til þessa.

Hlutafjárkaup í álitlegum fyrirtækjum er ein leiðin að þessu marki og vissulega draga vel heppnuð hlutafjárútboð bankanna inn fjármagn sem fer þá ekki í innflutning eða neyslu. Hins vegar er nauðsynlegt að laða fólk til meiri sparnaðar í meira mæli en verið hefur til að koma sér upp húsnæði. Á vegum stjórnarflokkanna er nú unnið að því að kanna leiðir til þess að auka þjóðhagslegan sparnað og sporna gegn auknum viðskiptahalla. Við núverandi aðstæður er þetta eitt af forgangsverkefnum í efnahagsmálum.

Nútíminn einkennist oft af slagorðum og auglýsingum. Við höfum heyrt talað um góðæri, við höfum heyrt talað um sólskinsfjárlög og margt fleira í þeim dúr.

Vissulega eru skilyrði í mörgu hagstæð eins og ég hef rakið hér að undan. Hins vegar vil ég undirstrika það þrátt fyrir þessa orðanotkun að það ber að ganga hægt um gleðinnar dyr. Fyrir mér er fjárlagagerðin erfitt verkefni sem þarf að takast á við. Fjárln. fær um 500 erindi um útgjöld sem hún þarf að taka formlega afstöðu til. Það er ekki auðveldara að fást við þessa vinnu þó að tekjur séu miklar og mikill snúningur á atvinnulífinu í landinu. Margir eru kallaðir til þess að sækja hlut sinn í þeim ávinningi. Hið sama gildir áfram að forgangsraða verkefnum og reyna að nýta opinbert fjármagn sem best og úthluta því á sanngjarnan hátt.

Nokkur atriði hafa verið sett í forgang með þessu fjárlagafrv. Aukið er við fjármagn í heilbrigðiskerfið en þar hafa miklar þarfir kallað á. Við síðustu fjárlagagerð var heilbrrn. eflt með fjármunum til að kosta starfshóp til að fara yfir rekstur sjúkrahúsanna og gera þjónustusamninga við heilbrigðisstofnanir og úthluta safnliðum sem ætlaðir voru til sjúkrahúsanna. Mikil vinna hefur verið innt af hendi í þessu efni þó að enn sé þjónustusamningum ekki lokið. Kjarasamningar kalla einnig á aukin fjárframlög til heilbrigðisstofnana en burt séð frá þeim er komið verulega til móts við vanda þeirra með frv. til fjárlaga og væntanlega einnig í frv. til fjáraukalaga árið 1998 sem er nú til vinnslu. Framlög til heilbrigðismála aukast um 4% að raungildi samkvæmt fjárlagafrv.

Annað forgangsmál eru rannsóknir og þróun en framlög til þessara mála aukast um 520 millj. Það væru 320 millj. tengdar íslenska upplýsingasamfélaginu sem er til að framfylgja þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að fylgja þeirri hraðfara þróun sem er á þessu sviði í nútímasamfélagi og skiptir sköpum um framfarir. Upplýsingar, þekking og rannsóknir eru grundvöllur fyrir öflugum framförum í nútímasamfélagi.

Ég get nefnt það sem dæmi að nýlega áttum við fjárlaganefndarmenn þess kost í ferð okkar um Reykjanes að heimsækja Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi. Þetta öfluga fyrirtæki er glæsilegt dæmi um þekkingu á sérstökum aðstæðum og auðlindum sem nýtt er til að bæta lífskjör fólksins. Við hlið þessa fyrirtækis er Bláa lónið þar sem saman fer ferðaþjónusta og þróun atvinnustarfsemi á sviði efnaiðnaðar.

Ég nefni þetta hér af því að mér er þessi starfsemi ofarlega í huga nú sem byggist á vísindum, rannsóknum og þekkingu. Hægt er að fullyrða að batnandi lífskjör í framtíðinni byggjast ekki síst á þessum atriðum og einnig á því hvernig er hægt að nýta auðlindir í sem mestri sátt við umhverfið. Rannsóknir og þekking eru lykilatriðið til þess að komast fram úr því vandasama verkefni.

Þriðja málið sem ég vil nefna er samgöngumál. Þar er reiknað með að standa við þær áætlanir sem nýlega hafa verið samþykktar í hafna- og vegamálum. Þetta þýðir viðbótarútgjöld upp á um það bil 1 milljarð kr. Ég vil í þessu sambandi undirstrika að tími er til kominn að Alþingi standi við þær áætlanir sem það setur. Þeim á að stilla þannig upp að það sé mögulegt. Svo hefur því miður ekki verið um þær vegáætlanir sem samþykktar hafa verið í gegnum tíðina. Vonandi verður hægt að stýra málum á þann veg að hægt verði að standa við þá áætlun sem nú hefur verið samþykkt í bráð og lengd. Til þess verður að ríkja jafnvægi í efnahagsmálum samfara öflugu atvinnulífi. Þar ber allt að sama brunni.

Sumarið hefur verið viðburðaríkt í stjórnmálum. Það hefur einkennst af viðræðum Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista til að bræða flokkana saman. Það tókst á þann veg að tveir þeirra eru sundraðir. Málefnaflakk hefur séð dagsins ljós, staða þess er ekki fullljós. Það er nefnt framtíðarsýn, kosningastefnuskrá eða stjórnarsáttmáli flokkanna, allt eftir því hvað við á í fjölmiðlaumfjöllun á hverjum tíma. Hv. 4. þm. Norðurl. e. kallaði plaggið mórauðan læk. Það sér ekki til botns í mórauðum lækjum. Það er hverju orði sannara hvað varðar ríkisfjármál í þessari stefnuskrá. Ekki er gerð tilraun til að meta hvaða áhrif þessi samsetningur hefur á afkomu ríkissjóðs hvorki í bráð né lengd.

Ég efast ekki um að stefnuskráratriði um að leggja fram fjármagn úr ríkissjóði eins og þarf, eins og það er orðað í stefnuskránni, séu gerðar af góðum hug en hlutirnir eru bara ekki svona einfaldir. Til þess að halda vöku sinni í ríkisfjármálum þarf stöðugt að reyna að nýta fjármuni sem best og hafa ríkt í huga að afla þarf hvers einasta eyris sem eytt er frá almenningi í landinu eða atvinnulífinu í landinu.

Það mun verða lykilatriði í málflutningi stjórnarandstöðunnar og hefur verið í umræðunni að hagsmunir aldraðra og öryrkja séu fyrir borð bornir í fjárlagafrv. sem liggur fyrir. Þó hafa framlög til þessara mála hækkað um 17,7% frá því sem birtist í ríkisreikningi 1997. Með þessu er ég langt í frá að halda því fram að hér sé of í lagt eða að kjör þessara hópa séu of rúm. Þetta er mikilvægur málaflokkur og bótaþegum hefur fjölgað hlutfallslega. Hins vegar er langt í frá að ýmis stóryrði sem höfð hafa verið upp í þessu máli séu sanngjörn. Það er grundvallaratriði að halda þannig á málum að þeir fjármunir sem lagðir eru til tryggingamála nýtist og hægt sé að tryggja fjármuni til þeirra til frambúðar. Það verður best gert með því að halda stöðugleikanum og greiða niður skuldir og losa um fjármuni sem ella færu til þess að borga skuldavexti til erlendra lánardrottna.

Það hefur þótt mikið þjóðráð hingað til að tekjutengja og allir kannast við umræðuna um það. Allir flokkar hafa tekið þátt í því. Hins vegar heyrast nú þær raddir að slíkt sé óhæfa. Mér finnst eðlilegt að tekin sé upp alvarleg umræða um réttmæti þessa og hvar mörkin eigi að vera í tekjutengingu. Sjálfsagt er að leggja í það vinnu. Það er í sjálfu sér líka eðlilegt að viðmiðanir í þessu efni séu ávallt í endurskoðun. Hins vegar finnst mér eðlilegt að takmarka og tekjutengja bætur í samfélaginu til hátekjufólks. Eðlilegt er þó að bætur gangi til hins venjulega launamanns. Þar á ég t.d. við barnabæturnar. Því hefur m.a. verið lýst yfir af hálfu heilbrrh. að endurskoðun standi yfir á skerðingarákvæðum örorkubóta. Þessi mál munu vissulega koma til nánari umræðu við vinnslu fjárlagafrv. og sjálfsagt er að stuðla að því að upplýsa þau sem best í þeirri framhaldsvinnu.

Herra forseti. Fjárlagafrv. kemur nú til vinnslu í fjárln. Þar mun að venju verða farið yfir forsendurnar og hlýtt á áherslur þeirra sem eiga erindi við nefndina. Að því loknu fer fram endurmat á tekjum og gjöldum. Ég hef haldið mig nú við 1. umr. frv. við hinar breiðu pólitísku línur en ekki grafið mig niður í talnaverk þess. Til þess gefst mér tækifæri þegar frv. kemur til 2. umr. að lokinni skoðun nefndarinnar.

Hinar pólitísku línur eru skýrar. Þær einkennast af upplausn á vinstri vængnum og tillögum til að blanda ólíkum lífsviðhorfum fólks sem myndaði þá flokka sem þar eru saman í stefnuskrár sem verður fyrir bragðið eins og mórauður lækur. Í þessu umróti eru nokkur atriði sem við framsóknarmenn verðum að halda til haga sem miðjuflokkur. Þau eru að atvinnuleyfi verður að vera þess umkomið að greiða mannsæmandi laun. Það er forgangsverkefni. Atvinnulífið verður að hafa afkomu sem gerir því kleift að leggja hluta af ágóða sínum til samfélagsins. Af því má ekki missa sjónar. Ríkisvaldið á að mynda öryggisnet um þá sem minna mega sín í samfélaginu og það á að stilla þjónustugjöldum fyrir þjónustu í velferðarkerfinu í hóf og auka þau ekki. Í þessum anda verðum við að vinna og í þessum anda er það frv. sem er hér til 1. umr.