Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 13:03:55 (43)

1998-10-05 13:03:55# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[13:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þennan hluta umræðunnar um fjárlagafrv. Ég tel að hér hafi farið fram málefnalegar og skýrar umræður sem varpa betra ljósi á eðli þeirra mála sem eru til umfjöllunar. Þannig á það líka að vera. Hér á fólk að ræða þessa hluti á málefnalegum forsendum og gera grein fyrir mismunandi viðhorfum sínum.

Ég mun nú reyna að svara í nokkru þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Þær eru auðvitað margar og sumar yfirgripsmiklar. Ég mun hins vegar ekki reyna að andmæla öllum þeim skoðunum sem hér hafa komið fram vegna þess að ég tel að menn hafi fullan rétt á því að lýsa skoðunum sínum á þessu frv. eða almennum viðhorfum sínum í stjórnmálum eða skattamálum o.s.frv. við umræðu sem þessa. En ég tel það ekki hlutverk mitt að gera athugasemdir við það á þessu stigi.

Ég hygg að það megi skipta umræðunni hér í dag í tvennt. Annars vegar hafa menn verið að velta vöngum, skiljanlega, yfir hinum efnahagslega þætti þessa frv. Það tel ég reyndar vera aðalatriðið á þessu stigi málsins við 1. umr. En síðan hafa menn að öðru leyti einni vikið nokkuð að einstökum þáttum í frv. og komið á framfæri athugasemdum sínum um þá eða fyrirspurnum. Allt er það eðlilegt og mun ég reyna að koma að þeim þáttum hér á eftir.

Að því er varðar hina efnahagslegu hlið frv. hafa þeir sem hér hafa talað, nánast allir að ég hygg, lýst áhyggjum sínum vegna viðskiptahallans. Það gerði ég líka í ræðu minni. Þeir sem hafa hlustað grannt á hana hafa væntanlega tekið eftir því að ég varði löngu máli í að fjalla um viðskiptahallann, útskýra hann og vara við því til hvers hann getur leitt ef menn gæta sín ekki. Það er ánægjulegt að flestir þeir sem hafa tekið þátt í umræðunni virðast gera sér grein fyrir þessum vanda. Viðskiptahallinn er ekki bara ein tala eins og fram hefur komið, 36 milljarðar eða þar um bil. Hann er samsettur úr mörgum þáttum. Sumt af því hefur verið nefnt hérna og sumt af því eru tímabundnir þættir. Það er sveifla upp á 6 milljarða kr. milli ára í viðskiptajöfnuði bara vegna þess að Flugleiðir fluttu út flugvél á síðasta ári en fluttu inn flugvél á þessu ári. Það er tímabundin sveifla.

Það eru líka miklar sveiflur í viðskiptahallanum vegna þess að það hafa verið miklar fjárfestingar í sambandi við stóriðjuframkvæmdir og virkjanir sem fer senn að ljúka og sjá fyrir endann á. Eins og ég gat um í ræðu minni eru það framkvæmdir sem munu skila gjaldeyri síðar meir. Hitt er svo annað mál að eftir stendur halli sem ég nefndi reyndar sérstaklega í ræðu minni og stafar af auknum almennum neysluinnflutningi, innflutningi bifreiða, heimilistækja o.s.frv. Það er sá hluti sem við þurfum að hafa áhyggjur af.

Eigi að síður má ekki gera of mikið úr þessum vanda. Við höfum t.d. ekki lent í vandræðum með að fjármagna þennan halla að því er varðar gjaldeyrishliðina. Það er vegna þess að nú erum við með opinn fjármagnsmarkað og opnar heimildir fyrir aðila til að taka sér lán í útlöndum eða flytja á annan hátt erlendan gjaldeyri inn í landið sem ekki var áður. Það hefur auðvitað hjálpað okkur að fjármagna þennan halla jafnvel þó svo að ríkissjóður hafi borgað upp hvorki meira né minna en 10 milljarða í erlendum lánum og sent þar með þann gjaldeyri úr landi. Hitt er annað mál að langvinnur viðskiptahalli skapar vandamál og hann tengist auðvitað því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi í sambandi við skuldir þjóðarbúsins því meðan það er viðskiptahalli þá safnar þjóðarbúið skuldum. Hins vegar eru það skuldir sem í þessu tilfelli skrifast á reikning einkaaðilanna og lánastofnananna en ekki hins opinbera vegna þess að ríkið er að borga skuldir sínar í miklum mæli niður bæði innan lands en þó einkum í útlöndum. Skuldir þjóðarbúsins, eins og ég gat um í ræðu minni, fara hins vegar vaxandi á meðan viðskiptahalli er.

Það er spursmál hversu miklar áhyggjur menn eiga að hafa af því að fyrirtækin í landinu taki erlend lán eða jafnvel einstaklingar ef þau á annað borð hafa til þess lánstraust og telja sig hafa getu til þess að standa í skilum. Hins vegar er því ekkert að leyna að það má vel vera að einstakir aðilar í þjóðfélaginu, bankastofnanir og aðrir, hafi farið fullglannalega í að flytja inn erlent fjármagn á lágum hagstæðum kjörum, lágum vöxtum, til endurlána hér innan lands vegna þess að eins og margir hafa bent á í umræðunni vitum við að ástandið á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum getur verið brothætt og þar er vissulega heilmikil óvissa að því er varðar þróun gengismála á næstunni.

Ég tel ekki að það sé vandamál að skuldir ríkissjóðs lækki á árunum fram til 2003 ofan í 20% jafnvel þó að aðrar skuldir í þjóðfélaginu aukist. Það er þvert á móti mjög ánægjulegt ef tekst að draga þannig úr skuldum ríkissjóðs jafnvel þó að aðrar þjóðir skuldi meira en við. Við eigum að ganga á undan ef við mögulega getum við að losa okkur við þessar skuldir enda er það þannig í öðrum löndum að stjórnvöld eru að reyna víðast hvar hvað þau geta að grynnka á skuldahalanum sem þar blasir við.

Svo má ekki gleyma því að í fjárlagafrv. er líka langtímaspá fram í tímann sem er tiltölulega hagstæð að því er varðar viðskiptajöfnuðinn. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn minnki verulega á næsta ári og haldi áfram að minnka á árunum þar á eftir þannig að ekki er allt sem sýnist kannski við fyrstu sýn. Hins vegar vildi ég nefna í þessu sambandi það sem margir hafa gert að umtalsefni og snertir hugmyndir um aukinn þjóðhagslegan sparnað. Það eru þær sem eru kjarni málsins ef menn vilja vinna gegn varanlegri skuldasöfnun í útlöndum og varanlegum viðskiptahalla. Því verðum við að finna leiðir til þess að auka hér þjóðhagslegan sparnað. Viðskiptahallinn er til marks um að hann sé ekki nægjanlega mikill. Það hafa menn fjallað um í umræðunni alveg réttilega og menn hafa spurt: Hvað er á döfinni í þeim efnum?

Ég hef greint frá því að nefnd er að störfum um það hvernig megi reyna að efla sparnað heimilanna í landinu. Þar eru ýmsar hugmyndir í gangi þó ekki sé hægt að segja kannski að þar sé um það að ræða að finna upp hjólið. Það er um það að ræða að velta fyrir sér margs konar möguleikum sem menn þekkja, t.d. í þá veru að reyna að auka lífeyrissparnaðinn í landinu sem er vissulega ein öflugasta og besta uppspretta sparnaðar í landinu. En það er líka hægt að hugsa sér aðra möguleika, framlengingar á sparnaðarmöguleikum sem hafa verið í gangi, t.d. í formi skattaívilnana, jafnvel þó að því megi halda fram að þar sé hætta á að sparnaður flytjist frekar úr einu formi yfir í annað.

Einn þingmanna lét þess getið hér áðan að skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa mundi falla niður um áramótin. Það er ekki rétt. Hann heldur hins vegar áfram að lækka samkvæmt núgildandi lögum, var 60% af nafnverði þess sem keypt var á síðasta ári, fer niður í 40 á þessu ári og mun síðan þrepast niður um 20% á ári þangað til hann fjarar endanlega út miðað við gildandi lög. Þetta er vissulega eitt af því sem kemur til greina að breyta þó svo að framkvæmdin á þessu sé nokkuð flókin og það þyrfti kannski að líta á framkvæmdina og skilyrðin sem þessu fylgja í leiðinni.

Þetta tengist að sjálfsögðu hugmyndum manna og vangaveltum um skuldir ríkissjóðs, viðskiptahallann og skuldir heimilanna. Ég hef ekki jafnmiklar áhyggjur af skuldum heimilanna þó að þær séu að því er sagt var í umræðunni 400 milljarðar kr. Ég hef reyndar ekki þá tölu staðfesta. En það er ekki hægt að slá fram þessari stærð sem einhverju stóru vandamáli nema menn vilji þá banna eða takmarka einhvern veginn möguleika heimilanna til þess að taka lán. Ég býst ekki við að margir hér inni vilji grípa til slíkra beinna ráðstafana. Hins vegar er hægt að bjóða heimilunum upp á aðra hluti til þess að festa sitt fé í, bjóða upp á fjárfestingarkosti, sparnaðarmöguleika og þess háttar. Svo sýna tölur um vanskil reyndar að þau eru minni en verið hefur þannig að fólk virðist ekki vera í eins miklum vandræðum með að standa í skilum með miklar skuldir þó að þær hafi farið vaxandi vegna þess að tekjur hafa vaxið, kaupmáttur hefur aukist og menn eru bjartsýnni á framtíðina.

Spurt var að því hvort hagur ríkissjóðs væri að eflast á kostnað sveitarfélaganna. Það tel ég aldeilis ekki. Ég tel að sveitarfélögin hafi þvert á móti fengið mjög væna hlutdeild í batnandi efnahagsástandi. Útsvarið til sveitarfélaganna hefur stórhækkað í peningum talið og ég held að þau hafi flest hver allar forsendur til þess að skila afgangi í sínum rekstri, kannski ekki öll, kannski ekki jaðarbyggðirnar sem hv. þm. Gísli Einarsson gerði að umtalsefni. En sem heildarstærð í efnahagslífinu ættu þau að geta það og ég sagði í ræðu minni að það væri mjög æskilegt að sveitarfélögin sem sá aðili sem ræður yfir fjórðungi opinberrar þjónustu í landinu reyndu að skila afgangi og grynnka á skuldum sínum miðað við núverandi efnahagsástand.

[13:15]

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi tvennt sem ég vil gera að umtalsefni í þessum hluta ræðu minnar. Það var spurningin um álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ábendingar hans og álit framkvæmdastjórnar Vinnuveitendasambandsins sem kom fram í sumar. Ef ég hef tekið rétt eftir sagði hv. þm. að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins teldu í sinni skýrslu að það ætti að nota allan bata í afkomu ríkissjóðs til þess að bæta stöðu hans og ekki stofna til nýrra útgjalda. Þetta er vissulega alþekkt kenning. Ef menn væru hér ekki í heimi raunveruleikans og þyrftu m.a. að taka tillit til annarra sjónarmiða í þjóðfélaginu, m.a. hér á Alþingi, þá væri einfalt mál að verða við þessu. Þetta er sú stefna sem boðar algert aðhald í ríkisfjármálum, þ.e. eins mikið aðhald og má verða ef nýjar tekjur skapast. Því miður höfum við ekki treyst okkur til að ganga svo langt. Við höfum því miður ekki gert það. En það má gagnrýna frv. út frá þessum forsendum eins og ég heyrði að hv. þm. var í rauninni að gera, þ.e. að of lítið aðhald væri út frá þessum sjónarmiðum. Ég tel hins vegar að aðhaldið í frv. sé í rauninni eins mikið og við má búast við núverandi aðstæður. Hvað halda menn að sagt yrði ef við mundum ekki nota tækifærið núna og greiða niður skuldir og reyna að búa í haginn fyrir framtíðina með því móti? Hvað halda menn að sagt yrði ef við mundum ekkert nota af góðærishagnaðinum til þess að lina þær þjáningar eða þær þrautir sem einna mestar hafa verið og einna mest hefur verið kvartað undan hér í sölum Alþingis á undanförnum árum að því er varðar opinber útgjöld? Auðvitað er erfitt að gera þar upp á milli einstakra þátta og erfitt að velja og hafna og forgangsraða í þeim efnum. En við höfum t.d. ákveðið að setja meira fjármagn í fleiri hjúkrunarrými. Mér heyrist að menn séu almennt hér inni nokkuð ánægðir með það. Við höfum ákveðið að setja meira fjármagn í vegina. Mér heyrist að menn séu nokkuð sáttir við það. Ég heyrði ekki neinn gagnrýna það. Við höfum ákveðið að setja fjármagn í rannsóknar- og þróunarmál, upplýsinga- og umhverfismál, stórfé á nokkrum árum þó að það megi gagnrýna eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir gerði að nokkur ár taki að koma þeirri áætlun í framkvæmd. En við höfum reynt að nota ávinninginn sem ríkið hefur fengið í þessu góðæri til þess að beina markvisst meira fjármagni inn á vissa þætti í frv. Út frá sjónarmiðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins má gagnrýna þetta. Ég tek undir það. En við lifum í heimi raunveruleikans og við lifum í þeim heimi að þurfa að taka tillit til alls kyns pólitískra sjónarmiða sem fram koma m.a. í þessum sal og þess vegna getum við ekki gengið eins langt og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði viljað.

Ég er að fara á fund þangað seinna í dag, eins og hv. þm. nefndi, og kannski fæ ég einhverjar athugasemdir við þetta en ég treysti mér alveg til að svara því að við gengum ekki eins langt og sjóðurinn hefði viljað þó svo ég efist ekki um að ráðleggingar hans og ábendingar eru af heilum hug og byggðar á bestu þekkingu sem fáanleg er, enda eru þetta staðkunnugir menn hér sem koma reglulega og fylgjast vel með öllum atburðum á Íslandi.

Að því er varðar álit framkvæmdastjórnar Vinnuveitendasambandsins um lausatök í efnahagsstjórn, þá vil ég andmæla því sjónarmiði en bendi jafnframt á að af hálfu Vinnuveitendasambandsins hefur komið fram að þetta fjárlagafrv. sé þrátt fyrir allt ekki svo galið og þeir geti bara tekið sæmilega undir þau markmið sem hér er að finna og telja að meginstefnan í þessu frv. sé í góðu lagi. Auðvitað býst ég við að þeir hefðu viljað meira aðhald í þessum efnum alveg eins og ungir sjálfstæðismenn hafa beðið um meira aðhald eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir nefndi. Auðvitað vilja allir meira aðhald ef þeir þurfa ekki sjálfir að bera ábyrgð á því að skera niður útgjöldin og standa gegn útgjaldakröfum. En þeir sem hafa tekið að sér að bera ábyrgð á stjórn landsins þurfa kannski stundum að hlusta á fleiri heldur en slíka aðila sem ekki þurfa að standa frammi fyrir ábyrgðinni sem því fylgir.

Spurt var að því hvort forsendurnar í þessu frv. væru nægilega góðar og traustar. Ég hygg að tveir ræðumanna að minnsta kosti hafi vikið að því að forsendur ársins í ár hafi ekki alveg staðist. Það er alveg rétt en það er hins vegar ekki unnt að gera því skóna að fjmrh. panti sér einhverjar hagstæðar forsendur og leggi síðan út af því máli þannig. Þá hefði verið hægt að hafa þetta allt miklu hagstæðara. En við byggjum hins vegar á þeirri bestu vitneskju sem fáanleg er frá Þjóðhagsstofnum fyrst og fremst sem aftur byggir á gögnum alls kyns annarra aðila um útlit og horfur í þjóðarbúskapnum. Ég held að stóra forsendan sem brást hvað varðar árið í ár hafi verið það sem menn gerðu ráð fyrir í sambandi við lífeyrisskuldbindingarnar. Þar urðu miklu meiri frávik en nokkur maður gat gert sér grein fyrir en ég hygg að skýringarnar á því séu nokkuð ljósar og þær eru fyrst og fremst þær að ekki var ljóst þegar gengið var frá fjárlögum síðasta árs hversu margir aðilar mundu flytja sig á milli deilda í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og þar fyrir utan þrátt fyrir góðar væntingar um annað hafði ekki tekist að ljúka aðlögunarsamningum nema fyrir lítinn hluta opinberra starfsmanna fyrir síðustu áramót þannig að flestir þeirra hafa komið til á þessu ári og þar með var engin leið að segja fyrir um það í desember sl. hvaða áhrif þeir mundu hafa á lífeyrisskuldbindingarnar sem féllu til á árinu í ár.

Ég tek undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði um þetta mál. Hér er verið að vinna mikið þrifaverk að bókfæra lífeyrisskuldbindingarnar hjá ríkinu með þeim hætti sem nú er gert og það var mjög ánægjulegt að hann tók höndum saman við forvera minn um breytingarnar sem gerðar voru í lífeyrismálum. Þetta er líka afleiðing af því sem ákveðið var að því er varðar lögin um fjárreiður ríkisins að taka upp rekstrargrunn og bókfæra samtímis þær skuldbindingar sem falla til. Það er þó verið að leggja til hliðar fyrir þeim sem ekki hefur áður tíðkast. Það er verið að gæta þess þegar þær loks koma til útborgunar og greiðslu að þá verði til peningar til þess að standa í skilum. Upp á þetta hefur mikið vantað á undanförnum áratugum. Það vitum við öll. Ég held að lífeyrisskuldbindingar ríkisins séu yfir 150 milljarðar kr. og það er fyrst núna sem er farið að reyna að fjármagna þetta þannig að það verði til peningar fyrir því þegar þar að kemur. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að komi fram. Ég held að það sé ekki hægt að halda því fram, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði, að þetta stafi af því að eitthvað hafi farið úrskeiðis í kjarasamningamálum opinberra starfsmanna á síðasta ári. Það var verið að ljúka því máli með gerð aðlögunarsamninga. Og það er rétt að ekki stóð til að þeir samningar leiddu til aukins kostnaðar í sambandi við einstakar stofnanir en ég skal ekki fullyrða um hvort það hefur staðist hjá öllum stofnunum. Hins vegar lá fyrir að hugmyndin var sú að flytja aukagreiðslur, eftirvinnugreiðslur og þess háttar inn í dagvinnulaunin og þar með hækkar stofninn sem notaður er til þess að reikna út lífeyrisskuldbindingarnar sem eru að sjálfsögðu dagvinnulaunin eins og kunnugt er.

Ég gat um það að samkvæmt þeim horfum sem kynntar eru í frv. hvað varðar viðskiptahallann þá horfir nokkuð vel með hann þegar fram líða stundir. Sama er að segja um almennar efnahagshorfur næstu ára og þar með talið horfurnar í afkomu ríkissjóðs sem á að geta haldið áfram að lækka sínar skuldir ef vel er á málum haldið á næstu árum. Hins vegar er það rétt sem fram hefur komið að horfur í alþjóðamálum eru óvissar. Það eru ákveðnar blikur á lofti. Það getur margt gerst sem við ráðum ekki við sem getur haft áhrif á okkar búskap á Íslandi og ríkisfjármálin þótt seinna verði. Það er einmitt það sem verið er að ræða vestur í Washington þessa dagana og menn hafa nefnt hér. Hvaða áhrif hefur öldudalurinn sem þjóðir Asíu eru nú að sigla í gegnum? Hvaða áhrif hefur ástandið í Rússlandi til að mynda fyrir markaði okkar? Hvaða áhrif hefur þetta allt saman á ríkisfjármál okkar og afkomu í efnahagsmálum þegar fram í sækir? Það vitum við náttúrlega ekki með vissu. En hitt vitum við að ef við búum ekki í haginn meðan við höfum peninga til þess og reynum að grynnka á skuldum okkar og gera upp ýmsan fortíðarvanda, eins og nú er verið að reyna að gera, þá er okkur miklu hættara við að fara illa út úr slíkum breytingum í framtíðinni ef þær verða á hinn verri veg. Það verður því að nota svigrúmið núna til þess líka að verjast slíkum áföllum í framtíðinni og til að koma okkur út úr ýmsum fortíðarvanda. Þá vil ég nefna það, eins og hv. þm. Jón Kristjánsson, og má segja að það sé miður fyrir þá sem eru að fjalla um þetta mál, að inn í þetta dæmi vantar að sjálfsögðu fjáraukalagafrv. sem verður afgreitt vonandi samhliða þessu eða um líkt leyti í haust, það kemur fram á næstu vikum, því að þar er líka tekið á ákveðnum vandamálum sem hafa verið að skapast. Ég nefni þar ákveðna þætti til að mynda í heilbrigðisþjónustunni, í löggæslunni, hjá kirkjunni og víðar þar sem við höfum ákveðið að nota tækifærið og leysa ýmsan vanda, gera upp gamla skuldahala og þess háttar þegar og þar sem séð hefur verið að búið er að koma rekstrinum á lífvænlegan grundvöll, búið að afmarka umfang hans og búið að tryggja að stjórnendur geri sér grein fyrir því með hvaða hætti þeir geti starfað innan þess ramma sem er verið að fjalla um. Þetta munu menn sjá að því er varðar til að mynda heilbrigðisstofnanirnar úti á landi sem hér hafa verið nefndar í umræðunni. Þar er gert ráð fyrir að þjónustusamningar verði gerðir, ekki til þess að pína stofnanirnar heldur til þess að allir átti sig á réttindum sínum og skyldum í þessu efni.

Ég vík þá að nokkrum einstökum atriðum sem nefnd hafa verið í umræðunni án þess að vilja fara út í smáatriði í því sambandi. Það var t.d. spurt um hvað gert væri ráð fyrir miklum tekjum af sölu 25% í Sementsverksmiðjunni. Því get ég því miður ekki svarað. Sú tala er ekki á takteinum, enda vitum við ekki hvernig matið verður á fyrirtækinu. En við gerum ráð fyrir að nettótekjur af sölu fyrirtækja skili 2,4 milljörðum kr. á næsta ári, þ.e. umfram það sem matsverð þessara eigna er í dag, sem kemur fyrir neðan strik sem kallað er, og kemur þá á móti skuldum, þ.e. 2,4 milljarðar sem við gerum ráð fyrir í tekjum af helmingshlutnum í Fjárfestingarbankanum, af því sem eftir verður af Aðalverktökum og svo þessum 25% í Sementsverksmiðjunni.

Það var líka nefnt að vel væri í lagt varðandi veisluhöld fyrir árið 2000 í sambandi við kirkjuna. Það er reyndar eitthvað málum blandið. Nefndin fær 27 millj. kr. á næsta ári til að undirbúa sín hátíðahöld en það er hins vegar fleira í bígerð. Landafundanefndin fær mikla peninga og svo hefur verið ákveðið að gera samning við Reykjavíkurborg vegna verkefnisins Reykjavík -- menningarborg árið 2000. Í það fara 50 millj. samkvæmt frv. á næsta ári og það er gert ráð fyrir veglegri og mjög myndarlegri þátttöku ríkisins í því máli. Það er hins vegar nýtt. Það var ekki gert ráð fyrir því í byrjun en borgin hefur óskað eftir að ríkið komi þarna inn og það er óhjákvæmilegt, m.a. vegna þeirra ríkisstofnana sem starfa á menningarsviðinu, t.d. Sinfóníuhljómsveitarinnar, Þjóðleikhússins, Ríkisútvarpsins o.s.frv. Eftir nokkra daga verður undirritaður sérstakur samningur á milli ríkis og Reykjavíkurborgar um það mál.

Það var líka vitnað í bréf frá Reykjavíkurborg til fjárln. um samskipti ríkis og Reykjavíkurborgar. Ég verð reyndar að segja það af því að það mál bar hér á góma að mér fannst heldur ósæmandi sá tónn sem var í því bréfi. En ég nefni þennan nýja samning um aðild ríkisins að máli sem Reykjavíkurborg tekur upp á sitt eigið frumkvæði og ber auðvitað fjárhagslega ábyrgð á sem dæmi um hvernig hægt er að ná saman um góð mál milli ríkis og borgar ef vilji er fyrir hendi á báða bóga. Mér fannst því tónninn í bréfi borgarstjórans til fjárln. ómaklegur.

Annað mál sem er á döfinni í sambandi við samskipti ríkis og borgar er nýr samningur um lóðamál barnaspítalans á Landspítalalóðinni sem væntanlega verður hægt að ljúka á næstu dögum eða vikum og þar er um að ræða málefni sem borgin hefur lagt mikla áherslu á með tilliti til umferðarþunga á þessu svæði og nauðsynjar þess að flytja Hringbrautina spölkorn frá núverandi legu sunnar í Vatnsmýrina. Það bréf er því ekki til fyrirmyndar að mínum dómi.

[13:30]

Ég hef hlaupið á helstu atriðum sem hér hafa komið fram. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson spurði reyndar hvort hætt væri við byggðatillöguna og byggðaáætlunina vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir fjármagni í hana. Það er ekki svo. Hún er hins vegar ekki sett inn í fjárlagafrv. með neinu fjármagni vegna þess að ekki er búið að samþykkja hana. Ekki er búið að afgreiða hana svoleiðis að við munum auðvitað taka tillit til þess þegar sú tillaga liggur fyrir sem ályktun Alþingis. En það hefði verið óeðlilegt að taka það mál inn í frv. miðað við á hvaða stigi það mál er.

Það er rétt hjá hv. þm. Gísla S. Einarssyni að ekki er gert ráð fyrir því að ráðast í miklar framkvæmdir á Bröttubrekku í þessu frv. en hún er á vegáætlun. Ég geri þá ráð fyrir því að sú staðreynd að það takist að fjármagna núna vegáætlunina óskerta í fyrsta sinn í manna minnum flýti fyrir því að framkvæmdir eins og Brattabrekka og aðrar einstakar vegaframkvæmdir sem hafa verið aftar í röðinni komist að. Þess vegna veit ég að hv. þm. er ánægður með það að gert skuli ráð fyrir svo miklu fjármagni til vegamála og það hentar reyndar ágætlega inn í hinn efnahagslega ramma vegna þess að við sjáum fram á að aðrar framkvæmdir og fjárfestingar eru að minnka á næsta ári. Þess vegna er efnahagslega skynsamlegt að leggja heldur meira fé til vegamálanna en áður hefur verið og áður var gert ráð fyrir.

Ég hyggst ljúka máli mínu. Vel má vera að mér hafi ekki tekist að svara nákvæmlega öllu sem menn nefndu. Ég hef þó reynt að gera það eftir bestu getu. Ég vil láta þess getið að endingu að þetta er að sjálfsögðu frv. sem við erum að ræða. Þetta frv. er ekki orðið að lögum og eins og formaður fjárln. gat um á þetta frv. eftir að fá umfjöllun í fjárln. Eflaust verða gerðar á því einhverjar breytingar, mér dettur ekki annað í hug. Meðal annars eigum við eftir að fá endurskoðaða tekjuáætlun. Ég vil benda á eitt í því sambandi að ekki liggur enn fyrir hver tekjuskattur fyrirtækja á þessu ári verður vegna þess að álagningu á fyrirtæki lýkur ekki fyrr en núna um mánaðamótin og því ómögulegt að spá fyrir um hvort fyrirtækin muni skila meiru í ríkissjóð á þessu ári en gert var ráð fyrir. Þó er margt sem bendir til þess og það mun auðvitað gefa færi á að endurskoða áætlunina fyrir næsta ár að sama skapi og verður vonandi þannig að hinn góði hagur flestra fyrirtækja í landinu skili sér þannig til ríkissjóðs.

Vafalaust á eftir að endurskoða ýmislegt fleira í frv. samkvæmt venju. Ég óska eftir því að eiga gott samstarf við fjárln. og fjárlaganefndarmenn, bæði stjórn og stjórnarandstöðu, um þá vinnu sem fram undan er og treysti því að svo verði eins og jafnan. Ég geri ráð fyrir því að starfsmenn fjmrn. verði nefndarmönnum innan handar með þá vinnu sem þeir taka að sér í þessu máli og óska eftir góðu samstarfi við alla aðila um það.

Ég vil að endingu, herra forseti, þakka þingmönnum og sérstaklega fjárlaganefndarmönnum og stjórnarandstæðingum í fjárln. fyrir það samkomulag sem hefur verið gert um þessa umræðu, forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna, vegna sérstakra aðstæðna hjá mér þar sem ég þarf að fara á þann fund sem ég áður gat um og treysti því að þetta góða samkomulag sé upphafið að góðu samstarfi um þingstarfið á komandi vetri.