Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 13:45:28 (49)

1998-10-05 13:45:28# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eindregið undir nauðsyn þess að menn hafi báða fætur á jörðinni og haldi sig við það sem raunsæjast er í mati á framtíðarhorfum. Ég hef einmitt sérstaklega varað menn við því að gera ráð fyrir að ekki geti brugðið til óvæntra tíðinda. Ég hef sérstaklega varað við því í báðum ræðum mínum hér. Hins vegar getum við ekki annað en byggt á þeim upplýsingum sem best er vitað um af hálfu þeirra fagstofnana sem við þessi mál vinna hér á Íslandi. Þjóðhagsstofnun hefur lagt fyrir okkur þessar upplýsingar um horfurnar á næstu árum og við sjáum að sem betur fer eru horfur á því að viðskiptahallinn minnki á næsta ári, úr þessum 36 eða 38 milljörðum sem horfur eru á að hann verði í ár, niður í um það bil 24 milljarða, minnir mig, sem er náttúrlega miklu lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu en er í ár, þó ekkert jafnist þetta nú á við árið 1982 eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson rifjaði upp hér áðan. Hins vegar er það þannig að við getum náttúrlega ekkert fullyrt um þetta, hvorki ég né hv. fyrirspyrjandi, Steingrímur J. Sigfússon, vegna þess að við vitum ekkert um það. En við getum hins vegar reynt að búa þannig í haginn að við séum betur undir óvænt áföll búin en ella væri. Það gerum við með því að greiða upp okkar lán, minnka vaxtabyrðina o.s.frv. og gera upp gömul vandamál. En það gerum við ekki með því að auka ríkisútgjöldin með stórfelldum hætti eins og ýmsir vilja að manni skilst.

Að því er varðar til að mynda álmarkað og þess háttar þá hefur hann verið í mikilli lægð að undanförnu. Það verður vonandi ekki framhald á því en það vitum við ekki. Það er viss óvissa út af því vegna ástandsins í Asíu fyrst og fremst. Ég held því við hljótum að vera sammála um að byggja á þeim upplýsingum sem bestar liggja fyrir en hafa samt borð fyrir báru í öllum okkar útreikningum að þessu leyti til.