Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 13:56:28 (55)

1998-10-05 13:56:28# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[13:56]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vakti athygli á mjög undarlegu bréfi sem borgarstjórinn í Reykjavík skrifaði fjárln. þar sem borgarstjórinn hafnaði því að eiga fund með fjárln. og ræða um sameiginleg málefni ríkis og borgarinnar. Þetta vakti mikla athygli á sínum tíma. En hæstv. ráðherra nefndi einnig að í undirbúningi væri að gera samning við Reykjavíkurborg um þátt hennar í menningarborgaverkefninu árið 2000 sem er hið besta mál. Ég fagna svo sannarlega því samstarfi. Það er mjög mikilvægt að Reykjavíkurborg fái öflugan stuðning af landinu öllu til að takast á við þetta verkefni. En ég vildi af þessu tilefni spyrja hæstv. fjmrh. vegna þess að byggingar framhaldsskóla eru sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga og við vitum að framhaldsskólinn er í uppbyggingu, þ.e. Menntaskólinn í Reykjavík og svo aftur Menntaskólinn við Hamrahlíð: Hvar standa samningar milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um þátt borgarinnar í uppbyggingu framhaldsskólanna í Reykjavík?