Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 14:02:29 (59)

1998-10-05 14:02:29# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[14:02]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er spurningin um að vera á milli steins og sleggju. Sá á kvölina sem á völina. Vissulega snúast þessar umræður um mismunandi pólitísk sjónarmið í raun. Það er alveg hárrétt að hv. þm. Ögmundur Jónasson vill fara allt aðrar leiðir í skattamálum en núv. ríkisstjórn. Ég bendi þó á að þrátt fyrir að tekist hafi að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 50% í 32% á þessu ári og 30% á næsta ári þá skila fyrirtækin betri afkomu, betri hagnaði og hærri sköttum í ríkissjóð af þeim sökum.

Það má ekki gleyma því að fyrirtæki eru ekki fólk. Hverjir njóta ávinningsins af því að fyrirtækin ganga vel? Annaðhvort starfsmenn þeirra sem fá þá væntanlega hærri tekjur og geta borgað hærri skatta, viðskiptavinir þeirra sem fá þá betri kjör á vörum sínum sem viðkomandi fyrirtæki framleiða eða eigendurnir sem fá þá meira fyrir sitt áhættufé sem lagt hefur verið í þessi fyrirtæki og skila á endanum meiru í ríkissjóð. Þannig er þetta. Ég hygg að afkoma fyrirtækja í landinu eins og álagning mun væntanlega sýna í haust sé þannig að þau muni skila dágóðum tekjum í skatta fyrir ríkissjóð og vonandi þá einnig á næsta ári.

Hv. þm. hefur orðið tíðrætt um að frítekjumörk eða skattfrelsismörk í fjármagnstekjuskatti séu 233 þús. Það er rétt svo langt sem það nær. En hvað voru þau áður en fjármagnstekjuskatturinn var lagður á? Óendanleg því að þá var enginn skattur á fjármagnstekjur. Þá gátu menn haft nákvæmlega allar tekjur sem þeir vildu af þeim vettvangi skattfrjálsar. En það má ekki gleyma því að hér hefur líka orðið viss breyting. Svona samanburður verður að vera sanngjarn þótt auðvitað megi fallast á það hjá hv. þm. að þarna megi kannski gera einhverja bragarbót. Ég skal ekki segja um það. Það er eitt af því sem við munum auðvitað líta á í sambandi við breytingar á skattkerfinu á næstu mánuðum.