Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 14:04:48 (60)

1998-10-05 14:04:48# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[14:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. fjmrh. lýsir því yfir að hugsanlega verði gerðar breytingar á fjármagnstekjuskattinum í sanngirnisátt. En það sem hann lýsti í sinni stuttu ræðu áðan var í Bandaríkjunum kallað Reaganomics. Léttum sköttum af fyrirtækjum þannig að þau fái svigrúm til að baka sín stóru brauð og þá muni hrjóta molar til annarra í samfélaginu.

Staðreyndin er sú að fyrirtækin hafa ekki skilað efnahagsbatanum sem þau hafa notið góðs af til samneyslunnar. Framlag fyrirtækjanna vegna tekjuskatts hefur staðið nánast í stað undanfarin þrjú ár og hér erum við komin að forgangsröðuninni. Á sama tíma og fátækt fólk á Íslandi er að leita til hjálparstofnana vegna þess að það er matarþurfi og getur ekki keypt sér klæði og á ekki fyrir húsnæði sínu þá er ríkisstjórnin að undirbúa veisluhöld árið 2000. Mér finnst alltaf skemmtilegt að menn geri sér glaðan dag. En á næsta ári ætlar þessi ríkisstjórn að verja 260 millj. kr. til undirbúnings veisluhaldanna á sama tíma og hún vísar fátæku fólki út á gaddinn og það er hneyksli.