Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 14:11:28 (65)

1998-10-05 14:11:28# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[14:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki verið ákveðið hvort og hvernig þessi heimild verður nýtt. Hins vegar er enginn hörgull á fundarsölum eða aðstöðu fyrir samkvæmi og móttökur í borginni. Reyndin er sú að ráðuneyti og ríkisstofnanir hafa í vaxandi mæli flutt slíka atburði út fyrir þessi húsakynni og tekið á leigu aðra fundarsali, t.d. á hótelunum í borginni. Það er allur gangur á því.

Það hefur líka gerst samtímis að ýmsir aðilar sem eru ekki hluti af ríkiskerfinu hafa hagnýtt sér aðstöðuna í Borgartúni 6 og hafa gert það reyndar í mörg ár þannig að hérna er um að ræða bara almenna útleigu á húsnæði. Við vitum að t.d. stjórnmálaflokkarnir halda jafnvel landsfundi sína í þessum húsakynnum og almannasamtök eins og BSRB, samtök opinberra starfsmanna sem reyndar hafa frá upphafi átt þarna greiðan aðgang, hafa haldið fundi sína þarna. Ekkert sérstakt liggur fyrir um þetta mál. Það er engin ástæða til þess heldur að gera mál úr þessu. Hins vegar viljum við hafa þann möguleika opinn að geta gert þarna breytingar ef það verður talið skynsamlegt.