Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 14:13:05 (66)

1998-10-05 14:13:05# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[14:13]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að óska fjmrh. til hamingju með fyrstu fjárlagaræðu sína og óska honum velfarnaðar í vandasömu starfi. Jafnframt óska ég eftir að eiga gott samstarf við hann eins og ég reyndar er sannfærður um að verður.

Fjárlög hvers árs marka samfélaginu ákveðinn ramma og varða alla landsmenn beint eða óbeint.

Það er því mikilvægt að á Alþingi eigi sér stað vandaðar umræður og rækileg yfirferð á frumvarpi til fjárlaga. Í samræmi við stjórnskipun okkar leggur fjármálaráðherra fyrir Alþingi frumvarp til fjárlaga sem eru tillögur ríkisstjórnarinnar. Áður hafa stjórnarflokkarnir fjallað um meginlínurnar og standa að frv. Það er síðan hlutverk okkar alþingismanna í fjárlaganefndinni að fjalla um frumvarpið og ná samkomulagi um að gera breytingar á því eftir atvikum.

[14:15]

Sú umfjöllun sem nú er að hefjast er við mjög breyttar aðstæður frá því sem verið hefur. Bæði form frumvarpsins og efnahagsumhverfi hefur tekið miklum breytingum og mjög til hins betra. Umfangsmikil nýskipan í ríkisrekstrinum hefur náð til formsins, þ.e. uppsetningu á fjárlögum og ríkisreikningi, í samræmi við löggjöf um fjárreiður ríkisins sem sett var á síðasta ári eftir margra ára aðdraganda. Allar þær breytingar miða að því að gera fjárreiður ríkisins aðgengilegri sem stjórntæki í ríkisrekstrinum og ættu að verða til þess að auðvelda alla áætlanagerð.

Meginstefnan, sem frumvarpið felur í sér og hv. fjármálaráðherra hefur kynnt, er að skuldir ríkisins skuli lækka. Þeirri stefnu verður að halda í meðförum fjárlaganefndar. Með lækkun skulda er slegið á óæskileg áhrif viðskiptahalla á efnahagslífið og svigrúm aukið í framtíðinni með því að vextir af skuldum ríkisins lækka. Minni umsvif ríkisins á lánamarkaði auka svigrúm atvinnulífs og heimila og draga úr þrýstingi á vaxtahækkun. Eins og fram hefur komið er frumvarpið byggt á nýrri löggjöf um fjárreiður ríkisins sem var samþykkt hér á hinu háa Alþingi 1997.

Þrátt fyrir að formið eigi ekki að ráða miklu um framvindu hinna efnislegu þátta í ríkisrekstrinum leyfi ég mér að fullyrða að löggjöfin um fjárreiður ríkisins hefur nú þegar haft afgerandi áhrif á framvindu ríkisfjármála.

Ríkisfjármálin geta haft afgerandi áhrif á þróun efnahagsmála í landinu. Það hefur komið rækilega í ljós hin síðari ár þegar okkur hefur tekist að snúa vörn í sókn. Í dag er rætt um efnahagslegt góðæri af mannavöldum. Þrátt fyrir efasemdir stjórnarandstöðunnar verður það viðurkennt þegar hagsaga okkar Íslendinga verður skoðuð, tímabil fyrir tímabil. Því verður ekki á móti mælt að mikill árangur hefur orðið af traustri meðferð ríkisfjármála og ábyrgri umfjöllun í fjárlaganefnd og hér á Alþingi.

Með afgreiðslu fjárlaga á rekstrargrunni skapast mikilvægt aðhald sem herðir mjög á því að ráðuneytin sjái til þess að stofnanir haldi sig innan fjárlaga og það verði til umfjöllunar í fjárlaganefnd og á Alþingi ef auka þarf fjárveitingar til einhverra þátta í ríkisrekstrinum. Þetta er ekki til þess að stöðva mikilvæg og eðlileg útgjaldatilefni heldur til þess að nauðsynleg umfjöllun eigi sér stað þar sem lagt er mat á hlutina í réttu ljósi.

Sem fyrr er meginmarkmið efnahagsstefnu frumvarpsins að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir hagvöxt og batnandi lífskjör. Allar mælingar á efnahagslífinu bera þeirri stefnu vitni sem fylgt hefur verið undir forsæti Davíðs Oddssonar. Stefnan hefur ekki síst falist í að hafa traust tök á ríkisfjármálum, leggja áherslu á aukna ábyrgð atvinnulífsins á eigin málum, að lækka skatta, stefna að einkavæðingu lánastofnana, sölu ríkisfyrirtækja og skýrum kröfum um ábyrgan rekstur stofnana sem njóta framlaga af fjárlögum.

Áhrifin af stefnunni eru vaxandi kaupmáttur, eins og fram kemur í þjóðhagsáætlun. Um leið skiptir það miklu máli að atvinnuleysi er minnkandi samhliða aukinni atvinnuþátttöku, sem bendir til þess að störfum í þjóðfélaginu sé að fjölga. En slíkt gerist ekki á einni nóttu.

Áhrif mikilvægustu efnahagsumbóta koma að sjálfsögðu ekki fram strax enda er sígandi lukka best í þeim efnum sem öðrum. Styrk staða ríkisfjármála hefur hins vegar mikil áhrif og skapar þá umgjörð sem þarf til þess að atvinnulífið megi dafna um land allt.

Vissulega eru viðfangsefnin mörg sem taka þarf á. Eitt þeirra er óæskileg þróun byggðarinnar í landinu. Þar eru alvarleg teikn á lofti sem fyrr. Þau þarf að ræða í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Vandinn snýr ekki einungis að fækkun fólks á landsbyggðinni heldur og ekki síður að þeim vanda sem mikil fjölgun á höfuðborgarsvæðinu getur valdið. Í því ljósi þarf að bregðast við á landsbyggðinni og einnig á höfuðborgarsvæðinu.

En hvað er til ráða, svo snúa megi þróuninni við og nýta auðlindir okkar landsmönnum öllum til hagsbóta? Mikilvægast er auðvitað að skapa atvinnuvegunum skilyrði til þess að eflast svo atvinnuöryggi sé tryggt. Það sem einkum hefur hrakið fólk af landsbyggðinni í gegnum tíðina er annars vegar sveiflukennt atvinnuástand og einhæft og síðan takmörkuð þjónusta, sérstaklega hvað varðar menntun, og auk þess óöryggi vegna samgangna og heilbrigðisþjónustu. Á þessu hefur orðið mikil breyting og jafnframt hafa kröfurnar aukist. Það skýrir þróun byggðarinnar að einhverju leyti.

Alvarlegasta atlagan að byggðunum, og þá einkum sjávarbyggðunum, væri ef vinstri bræðingurinn kæmist til valda og setti sjávarútveginn í uppnám með þeim skattlagningarhugmyndum sem þeir boða, með auðlindaskatti á sjávarbyggðirnar. Gegn því verðum við að berjast með öllum ráðum.

Þegar fjallað er um fjárlög fyrir árið 1999 og framtíðaráform er eðlilegt að taka til afgreiðslu þá áætlun sem forsætisráðherra mun leggja fram um stefnumótun í byggðamálum. Vegna málþófs stjórnarandstöðunnar sl. vor náðist ekki að afgreiða þá tillögu eins og mikilvægt hefði verið. Það hefði gefið okkur betra færi á því að vinna að þeim tillögum sem þar eru fram settar. Með þeirri tillögu er tekist á við byggðamálin á nýjum og markvissum forsendum. Þess er að vænta að fluttar verði breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið til samræmis við tillöguna þegar hún hefur verið afgreidd. Augljóst er að henni fylgir kostnaður sem mun hins vegar, þegar litið er til lengri tíma, verða borinn uppi með öflugra atvinnulífi á landsbyggðinni og betri búsetuskilyrðum og nýtingu þeirrar fjárfestingu sem til staðar er og þeirra auðlinda sem eru til lands og sjávar.

Höfuðvandi landsbyggðarinnar, og um leið landsins alls, er að vel menntað ungt fólk snýr ekki aftur til starfa á landsbyggðinni að loknu námi. Það skortir ,,aðdráttarafl`` í atvinnulífinu á landsbyggðinni þar sem ungt, vel menntað fólk getur hafið störf.

Svæðisbundnar byggðaáætlanir eru mikilvægar og geta verið áhrifaríkt stjórntæki í nútíma áætlanagerð þar sem tekið er á uppbyggingu í atvinnulífinu, samgöngum, menntun, menningarstarfsemi og hvers konar þjónustu.

Í samstarfi Byggðastofnunar og aðila í landshlutunum hefur verið leitast við að efla atvinnuþróunarstarf. Leggja þarf aukna áherslu á svæðisbundna áætlanagerð eins og ég nefndi í samstarfi við atvinnuþróunarfélög sem beiti bestu aðferðum við að aðstoða starfandi atvinnufyrirtæki við að fjölga vel launuðum störfum fyrir áhugasamt og vel menntað fólk.

Veita þarf atvinnuþróunarfélögum stuðning til þátttöku í eignarhaldsfélögum svo þau geti veitt verkefninu forustu, en auðvitað munu aðilar atvinnulífsins þurfa að vera leiðandi afl í því verkefni að snúa óæskilegri þróun við. Byggðastofnun verður að hafa svigrúm til þess að takast á við erfitt en mikilvægt hlutverk sitt. Núverandi stjórn Byggðastofnunar hefur breytt um kúrs og leggur nú aukna áherslu á atvinnuráðgjafarhlutverkið í landshlutunum í samstarfi við heimamenn, og er ekki að efa að það er rétta leiðin.

Ég hef áður gert það að umræðuefni við afgreiðslu fjárlaga hversu mikilvægt það sé að efla framhaldsskólastigið, ekki síður en grunnskóla og háskólastigið. Nú þegar grunnskólinn er kominn í öruggar hendur sveitarfélaganna og mikil gróska er á háskólastiginu er komið að því að gera verulegt átak á sviði framhaldsskólanna og væntanlega verkmenntunar þá um leið. Ástæða er til að vekja athygli á því að gert er ráð fyrir 260 miljónum króna auknum útgjöldum til að fylgja eftir áætlun um nýja skólastefnu.

Þegar unglingar komast á framhaldsskólaaldurinn losnar oft um fjölskyldur ef senda þarf unglinga til skóla í öðrum héruðum. Það getur með öðru raskað hag fjölskyldna og leitt til þess að þær flytja í önnur héruð og þá mest hingað á höfuðborgarsvæðið.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til samgönguráðuneytis til þess að efla markaðssókn í ferðamennsku. Því ber að fagna enda er ferðaþjónusta mikilvægur þáttur í eflingu atvinnu en þessi grein er engu að síður á miklum brauðfótum enn sem komið er. Því er mikilvægt að beita þeim aðgerðum sem hægt er til þess að standa við bakið á þeim frumkvöðlum sem byggt hafa upp ferðaþjónustuna. Hluti þess að efla ferðaþjónustu er að koma upp menningarstofnunum svo sem söfnum sem kynna menningararf okkar og standa fyrir rannsóknum á menningarminjum. Við meðferð frumvarpsins er óhjákvæmilegt að líta til þeirra þátta og stuðla að eflingu menningarstofnana sem reistar hafa verið eða verið er að koma á fót á okkar helstu sögustöðum.

Í fjárlagafrumvarpinu er lögð sérstök áhersla á framlög til samgöngumála. Til grundvallar eru lagðar þær samgönguáætlanir sem samþykktar voru á Alþingi. Ber að fagna því sérstaklega og þess er að vænta að mikilsverðir áfangar náist í samgöngubótum á næstu árum ef sömu stefnu verður fylgt.

Framþróun vega-, hafna- og flugmála skiptir miklu um þróun byggðar í landinu. Ekki einungis fyrir hinar dreifðu byggðir heldur ekki síður fyrir suðurhluta landsins. Við mat á framlögum til þessara þátta er nauðsynlegt að greina ávinning atvinnulífsins og áhrifin sem bættar samgöngur og lækkandi flutningakostnaður hefur fyrir það. Með samgönguáætlunum eru sett markmið sem verður að endurmeta í ljósi fjárlaga hverju sinni. En fjárlögin getur með sama hætti þurft að endurmeta í ljósi þeirra mikilvægu markmiða sem samgönguáætlanir fela í sér vegna þróunar sem fyrirsjáanleg er.

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir verulegum hækkunum á útgjöldum til heilbrigðismála. Umrótið í heilbrigðismálum að undanförnu hefur valdið margs konar óvissu. Það verður að viðurkennast að áform um hagræðingu og bætt skipulag hafa ekki öll gengið fram. Engu að síður hefur orðið margvíslegur árangur. Vandinn liggur eftir sem áður víða en einkum í rekstri stóru sjúkrahúsanna og þar er talið nauðsynlegt að auka samstarf og eða samruna sem gæti leitt til sparnaðar og meiri skilvirkni á öllum sviðum. Þá hefur verið á það bent að fjárfesting í sjúkrahúsunum sé ekki nýtt en læknarnir efni til fjárfestinga út í bæ í aðgerðastofum í stað þess að nýta fullbúnar aðstæður í sjúkrahúnum til svokallaðra ferliverka.

Þess er að vænta að í meðförum fjárlaganefndar komi betur í ljós hver staða einstakra sjúkrastofnana er og er við búið að útgjöld til heilbrigðismálanna verði skoðuð rækilega þegar fyrir liggur niðurstaða af gerð þjónustusamninga við einstakar stofnanir.

Stjórnarandstaðan hefur haft á orði að góðærið hafi ekki birst öllum landsmönnum. Í því sambandi er bent á bætur almannatrygginga. Við háttvirta þingmenn Alþýðuflokksins vil ég segja að staða lífeyrisþega hefur stórlega batnað frá því sem var í tíð ráðherra Alþýðuflokksins á stóli heilbrigðis- og tryggingaráðherra.

Ef litið er á þróunina frá 1995 hvað varðar tryggingabætur og elli- og örorkubætur þá hefur hækkunin, miðað við fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir núna, orðið 27% eða 16--17% kaupmáttarauki. Á þetta mál verður að líta í þessu ljósi.

Umræður hafa hins vegar spunnist um bætur til örorkulífeyrirþega og tekjutengingu bóta. Hér er um að ræða viðkvæman málaflokk sem skoða verður í heild sinni. Fyrsta skrefið í því efni er að taka til endurskoðunar viðkomandi löggjöf. Verði gerð breyting á lögunum og tekjutengingu breytt yrði tekið tillit til þess við afgreiðslu fjárlaga. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að ræða almennt um tekjutengingu bóta. Þess er að vænta að það mál verði til umræðu hér í þinginu og ásættanleg niðurstaða náist örorkulífeyrisþegum til hagsbóta.

Á síðustu árum hefur verið unnið að úrbótum og skipulagsbreytingum í ríkiskerfinu. Ég hef áður gert það að umræðuefni að gera þurfi grundvallarbreytingar í ríkisrekstrinum. Þær fela í sér þá hugsun að koma að sem víðast kaupanda/seljanda hugsuninni, gera samninga um tiltekna þjónustu sem veitt verði fyrir ákveðna umsamda þóknun. Þar sem fært væri mundi vikið frá því að ráða og skipa ríkisstarfsmenn en þess í stað að nýta einkaframtakið er sinni þjónustu í nafni ríkins með þjónustusamningum. Slíkir samningar væru byggðir á heimild í lögum um fjárreiður ríkisins þar sem fjallað er um gerð þjónustusamninga. Þannig yrði þjónusta hins opinbera í stöðugri endurskoðun með það að markmiði að gera hana skilvirka og hagkvæma með þeim aðferðum sem bestar eru hverju sinni.

Í fjárlagafrumvarpinu er, svo sem kveðið er á um í lögum um fjárreiður ríkisins, sett fram spá um þróun og horfur í fjármálum ríkisins nokkur næstu árin. Slík spá er mjög mikilvæg og ætti í raun að taka meira rúm við umfjöllum um fjárlagafrumvarpið hér á Alþingi. Samkvæmt framreikningi bendir allt til þess að hagur ríkissjóðs geti styrkst ef fram fer sem horfir og áform um lækkun skulda ná fram að ganga. Engu að síður er réttilega á það bent að fylgja þurfi aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálunum ef ná eigi því takmarki að lækka skuldirnar verulega og ná þannig fram markmiðum sem leitt gætu til þess að hækka mætti bætur til þeira sem á þeim þurfa að halda og gera þjóðfélag okkar enn öflugra, þar sem vinnufúsar hendur fá störf við sitt hæfi og geta staðið undir hinu mikilvæga velferðarkerfinu.

Ég vil í nokkrum orðum fara yfir helstu kennitölur frumvarpsins. Í fyrstu grein frumvarpsins er gerð grein fyrir tekjujöfnuði sem nú er jákvæður á rekstrargrunni um tæpa 2 milljarða króna. Það markmið að afgreiða fjárlög með afgangi er mjög mikilvægt miðað við núverandi aðstæður í hagkerfinu. Við þurfum að minnast þess að stutt er síðan við börðumst við kreppu, við atvinnuleysi og erfiðleika og vorum í miklum vanda með afkomu ríkissjóðs. Okkur hefur tekist á skemmri tíma en ýmsir þorðu að vona að styrkja stöðu okkar svo um munar. Þennan mikilvæga árangur þarf að varðveita.

Í 2. gr. frumvarpsins kemur fram árangur þar sem áætlað er að sjóðstreymi sýni 15 milljarða afgang til þess að lækka skuldir ríkissjóðs. Þau áform eru skýr skilaboð inn á lánamarkaðinn. Ríkissjóður mun draga úr umsvifum sínum þar með þeim afleiðingum að vextir ættu að geta lækkað á lánsfjármarkaði. Þau áhrif geta skilað sér inn á hvert einasta heimili í landinu og bætt hag ungra húsbyggjenda og kaupenda sem hafa þunga greiðslubyrði.

Fjárreiður ríkisfyrirtækja B-hluta eru sýndar í 3. gr. frumvarpsins. Rekstur þeirra skiptir miklu máli fyrir ríkissjóð vegna þeirra tekna sem sum þeirra veita í ríkissjóð í formi arðs. Hann nemur 3,4 milljörðum kr. Arðurinn kemur frá Fríhöfninni, ÁTVR og Rarik samkvæmt sérstökum samningi. Samkvæmt frumvarpinu er Rarik gert að greiða arð að upphæð 194 milljónir króna. Á móti kemur hins vegar hlutdeild í kostnaði við dreifikerfi í sveitum. Ég tel að forsendur þessara arðgreiðslna séu brostnar og taka verði upp samninginn milli Rariks og ríkissjóðs.

[14:30]

Gagnstætt því sem gerst hefur í símaþjónustu hefur okkur ekki enn tekist að jafna raforkukostnaðinn í landinu. Í því ljósi vil ég gera að umtalsefni stöðu Rafmagnsveitna ríkisins. Rarik gegnir því viðamikla hlutverki að dreifa raforku um stærstan hluta af mesta dreifbýli landsins þar sem fiskvinnslan og landbúnaðarframleiðslan fer fram auk nokkurs iðnaðar. Staða fyrirtækisins hefur verið fremur veik og það hefur orðið að selja raforku til almennra notenda á hærra verði en gerist hjá öðrum dreifiveitum. Á vegum fyrirtækisins hefur verið unnið að hagræðingu og endurskipulagningu sem hefur skilað sér í betri afkomu, þrátt fyrir erfitt rekstrarsvæði. Staða Rariks gagnvart Landsvirkjun er þannig að Rarik greiðir 42% af tekjum Landsvirkjunar af sölu til almenningsrafveitna en íbúar á Rarik-svæðunum, sem kaupa þessa orku, eru einungis 17% landsmanna. Þannig hafa þeir íbúar átt hlutfallslega mestan þátt í þeirri eignamyndun sem orðið hefur hjá Landsvirkjun.

Í því ljósi og vegna þess að rekstur Rariks er þungur væri eðlilegt að endurskoða samninga við fyrirtækið um hinar svokölluðu félagslegu framkvæmdir dreifikerfisins auk þess að leita leiða til þess að auka arðsemi fyrirtækisins. Það mætti m.a. gera með því að heimila Rarik að virkja hagkvæmar virkjanir og skapa þannig skilyrði til lækkunar orkuverðs og arðgreiðslna til ríkisins á breyttum forsendum. Tel ég eðlilegt að iðnn. kanni hvernig styrkja megi stöðu Rariks á markaði svo bætt afkoma komi notendum til góða en ríkissjóði einnig. Vel kann að vera að það verði að gerast með því að taka upp samninga við Landsvirkjun um orkukaup. Verðlagning Landsvirkjunar byggist á því að greitt er verð fyrir orku er nemur nærri 50% yfir langtímajaðarkostnaði sem er talið mikið álag og er gagnrýnt harðlega af forsvarsmönnum dreifiveitna í landinu.

Ég leyfi mér að gera þetta að umræðuefni hér því að áætlun um arðgreiðslur frá Rarik sker í augu á sama tíma og fyrirtækið er rekið með halla.

Í 7. gr. eru heimildarákvæði þar sem fjármálaráðherra er veitt heimild til ýmissa ráðstafana innan marka 160 milljóna samkvæmt frumvarpinu.

Í fjárlögum þessa árs kom inn heimildarákvæði að tillögu meiri hluta fjárlaganefndar þar sem veitt var heimild til þess að ráðstafa 80 millj. kr. eftir tillögu iðnaðarráðherra til atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu, einkum á þeim landsvæðum sem njóta ekki góðs af orku- og stóriðjuuppbyggingu. Ekki er gert ráð fyrir þessari fjárhæð í frumvarpinu. Er þess að vænta að iðnaðarráðherra gefi skýringar á því hvernig til hafi tekist og hvers vegna fallið er frá þessum styrkjum. Ég tel að við afgreiðslu fjárlaganefndar þurfi að taka þetta mál upp en jafnframt að leggja línur um hvernig úthluta skuli svo nýtist sem best ef heimildin verður endurvakin.

Virðulegi forseti. Viðfangsefni okkar á Alþingi er að bæta búsetuskilyrði okkar í landinu að því marki sem það verður gert með löggjöf. Það er von mín að afgreiðsla fjárlaga ársins 1999 marki öflugt framhald þeirra umbóta sem við sjálfstæðismenn höfum staðið fyrir í góðu samstarfi stjórnarflokkana það sem af er þessu kjörtímabili.

Fjárlagafrumvarpið bendir ótvírætt til þess að hagur landsmanna verði betri í lok þessa kjörtímabils en áður hefur þekkst. Við getum því með sanni sagt að á Íslandi geti ríkt velsæld og bjartsýni við aldamót.