Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 14:36:57 (68)

1998-10-05 14:36:57# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Um þessa ræðu mætti segja að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Hv. þm. Svavar Gestsson kvartaði undan því að ég hefði vakið athygli á þeim tímaskorti sem við lentum í nú í vor. Hvers vegna var það? Það var vegna þess að haldnar voru ræður klukkutímum og tugum klukkutíma saman fyrir hvern ræðumann. Þess vegna tókst ekki að ljúka öllum þeim mikilvægu málum sem voru á dagskrá og þar á meðal áætlun um stefnu í byggðamálum. Hv. þm. getur því ekki vikið sér undan því að við lentum í miklum tímaskorti í vor vegna þess hversu mikinn tíma stjórnarandstaðan tók í að ræða einstök mál. Þetta er staðreynd sem verður ekki vikist undan og auðvitað sá forsrh. að það yrði að gefa sér góðan tíma til þess að ræða byggðamálin. En sá tími var ekki fyrir hendi sem við þurftum til þess að ræða þann mikilvæga málaflokk.

Varðandi það atriði að við séum að hæla okkur af góðum árangri held ég að það sé ansi mikið ofsagt þar sem hv. þm. sagði að við værum að hæla okkur. Við erum að draga fram staðreyndir um stöðu ríkisfjármála og fróðlegt verður að fá upplýst hjá hv. þm. Svavari Gestssyni hvort lífeyrisskuldbindingar hefðu á fyrri árum verið færðar með þeim hætti inn til gjalda hjá ríkissjóði og ef við hefðum ekki staðið þannig að málum að viðurkenna og taka sem staðreynd þær skuldbindingar í lífeyrismálum sem við gerum auðvitað núna með breyttri framsetningu fjárlaga og fjárlagafrv. væri afgangurinn, sem við mundum þá hæla okkur af, miklu meiri en 2 milljarðar. Sá afgangur væri margfaldur og ég held að það sé ofsögum sagt að við séum að hæla okkur af svo góðri stöðu en við vekjum athygli á henni og við viljum nýta hana til að bæta hag landsmanna, bæta stöðu þjóðarinnar til lengri tíma.