Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 14:43:02 (71)

1998-10-05 14:43:02# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Svokölluð sólskinsfjárlög ríkisstjórnarinnar einkennast af misskiptingu góðærisins eða uppsveiflunnar. Þessi uppsveifla sem ráðherra gumar af er þó fyrst og fremst vegna aukinnar einkaneyslu sem er fjármögnuð með auknum skuldum. Þannig hafa skuldir heimilanna hækkað mjög mikið í valdatíð Davíðs Oddssonar og hafa aldrei verið hærri.

Skuldir heimilanna voru 407 milljarðar kr. um mitt þetta ár og höfðu aukist um 43 milljarða frá sama tíma í fyrra eða mun meira en árið á undan. Þetta er þeim mun alvarlegra þegar haft er í huga að tekjuaukningin í samfélaginu er veruleg þó henni sé misskipt. Samt sem áður eykur fólk við skuldir sínar. Þetta er orsökin fyrir hinum mikla hagvexti sem við búum við núna og ríkisstjórnin er að þakka sér.

Skuldasöfnunin getur leitt til þess að samhliða innlendri eftirspurn aukist viðskiptahallinn enn meira sem aftur hefur áhrif á gengið sem getur leitt til þess að verðbólga fari aftur af stað. Þessum ofþenslueinkennum í hagkerfinu sem eru til staðar lítur ríkisstjórnin algerlega fram hjá.

[14:45]

Til viðbótar við auknar skuldir heimilanna hafa sveitarfélögin einnig aukið skuldir sínar á þessu og síðasta ári, í miðju góðærinu. Góðæristal ríkisstjórnarinnar er því fyrst og fremst vegna aukinnar skuldasöfnunar og góðra ytri skilyrða. Ríkisstjórnin nefnir hins vegar ekki að erlendar skuldir munu hækka á næstu árum. Erlendar skuldir munu fara úr 45% af landsframleiðslu upp í tæp 49% árið 2000 eða hækka um rúmlega 20 milljarða á næstu árum. Erlendar skuldir sem eru aðalhættuefni íslensks samfélags munu aukast á næsta ári og þarnæsta. Við greiðum nú þegar tæpa 20 milljarða í vexti til útlanda. Þetta er nú allur árangurinn af efnhagsstjórninni.

Skuldir hins opinbera í árslok síðasta árs 1997 voru 200 milljarðar kr. Það er Íslandsmet. Skuldir hins opinbera hér á landi hafa aldrei verið jafnmiklar og í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Gengisþróunin hefur hins vegar verið þessari ríkisstjórn hagstæð þannig að tekist hefur að halda niðri verðbólgu með hækkandi raungengi sem aftur hefur þrengt að iðnaði. Aukin samkeppni, sérstaklega á smásölumarkaði, hefur einnig stuðlað að því að halda niðri verðhækkunum.

Hins vegar er það einkenni ríkisstjórnarinnar að slá vörð um fákeppnisfyrirtæki sem við höfum víða. Við sjáum þau í samgöngumálum, olíusölu, tryggingamálum, fjarskiptamálum og á fjármagnsmarkaði. En ytri skilyrði hafa verið landsmönnum og ríkisstjórninni einstaklega hagstæð. Verðlag á sjávarafurðum hefur hækkað um meira en 20% sl. þrjú ár. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ekkert með verðlag á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum að gera.

Viðbótarhappdrættisvinningur fyrir samfélagið og ríkisstjórnina er að við búum nú við lægsta olíuverð í tólf ár. Við verðum að flytja inn allt eldsneyti þannig að vitaskuld hefur þetta gífurlega mikil áhrif á hagkerfið. Menn gætu rétt ímyndað sér hvernig staðan væri í samfélaginu ef við byggjum við hefðbundið olíuverð og verðlagshækkanir hefðu ekki orðið á sjávarafurðum umfram önnur matvæli erlendis. Þá værum við einfaldlega að upplifa kreppu í samfélaginu. Þetta, herra forseti, gleymist í umræðunni.

Meginástæðan fyrir hinni hagstæðu verðlagsþróun er að mati Þjóðhagsstofnunar hækkun á gengi krónunnar. Sjávarútvegurinn hefur getað borið það uppi vegna verðlags á erlendum mörkuðum en það þarf lítið út af að bregða til að það snúist við hérlendis. Ríkisstjórnin spáir því að verðbólga verði meiri hér á næsta ári en á þessu og það er spáð 3% verðlagshækkunum sem þýðir að við verðum aftur komin upp fyrir nágrannalöndin. Það þýðir að við erum ekki að bæta samkeppnisstöðu okkar. Viðskiptakjörin sem bæta stöðuna í hagkerfinu um sem nemur 2% af landsframleiðslu eru ekki ríkisstjórninni að þakka heldur ytri skilyrðum. Sérstaklega hagstæð viðskiptakjör þessa árs munu samkvæmt áætlunum þessarar sömu ríkisstjórnar versna á næsta ári.

Alvarlegasta vandamálið er þó það sem hér hefur verið nefnt, viðskiptahallinn sem stefnir í 40 milljarða eða 7% af landsframleiðslu. Það er mesti viðskiptahalli í 16 ár. Það þarf að fara aftur til ársins 1982 til að finna sambærilegan halla á viðskiptum við útlönd. Í fjárlagafrv. sem nú er unnið eftir spáði ríkisstjórnin því að viðskiptahallinn yrði 19 milljarðar. Það skakkar þannig 21 milljarði á því sem ríkisstjórnin áætlaði fyrir ári frá því sem í reynd varð. Hún áætlar að á næsta ári verði viðskiptahallinn 25 milljarðar og það er enginn kominn til með að segja að þeim geti ekki skjátlast nákvæmlega jafnmikið og á þessu ári. En, herra forseti, 65 milljarða viðskiptahalla á tveimur árum höfum við aldrei upplifað í hagsögu okkar. Þetta sýnir betur en margt annað hvernig lausatök og of slök áætlunargerð býr að baki þessu fjárlagafrv. ríkisstjórnar.

Það eru engar tillögur í fjárlagafrv. um endurbætur á skattkerfinu. Þar er víða ranglæti, háir jaðarskattar, sérstaklega hjá millitekjufólki og öldruðum og öryrkjum. Öryrkjar og barnafólk kemur illa út úr skattkerfinu. Fjármagnstekjuskatturinn er einstaklega ranglátur og hyglir fyrst og fremst stórum hlutafjáreigendum. Ekki er lögð nein sérstök áhersla á aukna innheimtu og baráttu gegn skattsvikum en talið er að yfir tíu milljarðar tapist vegna þeirra árlega. Engar tillögur eru gerðar til auðlindagjaldtöku eða mengunargjalda en benda má á að hvort tveggja er í stefnu samfylkingu okkar stjórnarandstæðinga.

Auknar tekjur ríkissjóðs á þessu ári umfram áætlanir eru 9 milljarðar. Þar af eru 6 milljarðar vegna aukins innflutnings. Þannig hefur viðskiptahallinn, sem borinn er uppi af erlendum lánum, verið undirstaðan fyrir tekjuaukningu ríkissjóðs á þessu ári.

Ef bornar eru saman tekjur frumvarpanna árin 1998 og 1999 þá hækka tekjurnar um 10% að meðaltali. Tekjuskattur einstaklinga hækkar um 12%. Tekjuskattur fyrirtækja hækkar ekki um neitt, um 0%. Tryggingagjöld og launaskattar sem fyrirtæki greiða hækka um 8%, eru undir meðaltali. Virðisaukaskattur sem einstaklingar greiða að mestu hækkar um 15%. Eignarskatturinn hækkar hins vegar um 4% eða langt undir meðaltali. Þannig er, herra forseti, augljóst hverjum er hlíft í þessu fjárlagafrv., þ.e. fyrirtækjunum og eignafólkinu. Almennt launafólk er hins vegar krafið um hærri hlutdeild til ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

Athygli vekur að meðal útgjalda á næsta ári er 4 milljarða kr. afskrift á sköttum. Þar væri verkefni fyrir hinn nýja fjmrh. að skoða í skúffur ráðuneytisins og skýra þau mál betur.

Í stefnu ríkisstjórnarinnar kemur fram að áfram verði haldið á braut vaxtahækkana. Almenningur hefur greitt fyrir óhagkvæmt bankakerfi með hærri vöxtum og hærri þjónustugjöldum en í nágrannalöndunum. Engar endurbætur eru boðaðar á þessu sviði. Bent hefur verið á að fjárlagafrv. geri núna ráð fyrir 2 milljarða kr. afgangi. Síðasta fjárlagafrv. átti einnig að vera gert upp á núllinu. Reyndin varð 3 milljarða kr. halli. Þannig að enginn kemur til með að segja að hæstv. fjmrh. geti ekki staðið í sömu stöðu og sá fyrrv., að leggja fram frv. sem hann kallar hallalaust en standa síðan uppi með halla að ári.

Tekjuaukning milli frumvarpanna árin 1998 og 1999 leiðir í ljós að tekjuskattur einstaklinga mun hækka á næsta ári um 4 milljarða kr., 4 þús. millj. Tekjuskattur fyrirtækja mun hins vegar hækka um 7 millj. eða nær ekkert. Hér er greinilegt að fjárlagafrv. er fjármagnað með tekjuskattshækkun einstaklinga á sama tíma og fyrirtækin sleppa eina ferðina enn. Þetta er e.t.v. það sem einna áhugaverðast er í fjárlagafrv. og endurspeglar betur en margt annað hina raunverulegu stefnu ríkisstjórnarinnar.

Engar kerfisbreytingar eru í þessu frv. Landbúnaðarstefnan er óbreytt í því og til búvörusamninga, mjólkur- og sauðfjársamninga og til sjóða landbúnaðarins, er varið 7 milljörðum á næsta ári. Það er sama fjárhæð og ríkið ver í alla framhaldsskóla landsins.

Þjóðhagslegur sparnaður er orðinn hættulega lítill í samfélagi okkar. Fjárfestingarnar námu á þessu ári 22--23% en sparnaður er einungis 6--7%. Engar aðgerðir eru boðaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar til að auka þjóðhagslegan sparnað þótt nefnd sé nú að störfum. Athyglisvert er að skoða í þjóðhagsáætluninni hlutdeild einstakra atvinnugreina í hagvexti vegna þess að það er nýmæli í framsetningu. Þar kemur m.a. fram að uppsprettan í hagvexti atvinnulífsins er fyrst og fremst vegna byggingarstarfsemi og verslunar. Þar verður hagvöxturinn til þetta árið. Hann myndast ekki í sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði, heldur þar sem þensla myndast fyrst í hagkerfinu. Þetta segir okkur að að ýmsu leyti er byggt á veikum grunni.

Hagnaður fyrirtækja hérlendis á þessu ári er áætlaður 36 milljarðar. Hvað skyldu nú fyrirtækin greiða mikinn tekjuskatt af þessu til samfélagsins? Jú, 7 milljarða. Af 36 milljarða kr. hagnaði greiða fyrirtækin einungis 7 milljarða. Hins vegar er enn þá athyglisverðara að skoða hagnað fyrirtækja sl. þrjú ár, en hreinn hagnaður þeirra á þessum þremur árum, sem eru valdatími núv. ríkisstjórnar, er 100 milljarðar kr. Tekjuskattur fyrirtækjanna á þessu tímabili nam 16 milljörðum kr. Fyrirtækin í landinu höfðu þannig 84 milljarða eftir tekjuskattsgreiðslu og fólkinu í landinu þætti nú sjálfsagt gott að borga ekki hærra hlutfall af tekjum eða hagnaði í skatt. Á sama tíma, þ.e. á þremur síðustu árum, meðan fyrirtækin greiddu 16 milljarða í tekjuskatt þá greiddu einstaklingar þessa lands um 80 milljarða eða fimm sinnum meira. Það sést vel á þessu, herra forseti, hver raunverulega ber byrðarnar.

Vitaskuld er það gott að fyrirtæki hagnist hér á landi en þá eiga þau líka að greiða eðlilega til samfélagsins. Ef við létum fyrirtæki landsins greiða svipað og gert er í nágrannalöndunum þá gætum við leyst öll okkar vandamál í heilbrigðiskerfinu gagnvart öryrkjum og öldruðum, endurbætt allt menntakerfið og gert það eins vel úr garði og er í nágrannalöndunum. Stefna ríkisstjórnarinnar er hins vegar að snerta ekki við hagnaði fyrirtækjanna eins og sést best á þessum tölum.

Við sjáum áframhald hins gífurlega vanda í heilbrigðismálum í þessu fjárlagafrv. Vandinn hefur einkennst af löngum biðlistum, örvæntingu og slakri stöðu öryrkja. Áfram verður stórkostleg fjárvöntun á Ríkisspítölunum og á Sjúkrahúsi Reykjavíkur því að aukin fjárframlög í frv. rétt duga til að greiða halla yfirstandandi árs. Vandi næsta árs, miðað við óbreytta starfsemi, verður óleystur. Þarna stefnir í fjárvöntun sem líklega verður meira en hálfur milljarður á næsta ári.

Það er enginn metnaður, herra forseti, í menntamálakafla frv. Hækkanir eru að langmestu leyti vegna verðlags- og launabreytinga en raunhækkanir sáralitlar. Við í stjórnarandstöðunni höfum þarna allt aðra áherslu og viljum auka framlög til þessa málaflokks um 2 milljarða á næsta ári. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar.

Rannsóknir og þróunarstarfsemi hér á landi er mjög bágborin í samanburði við útlönd og það kemur skýrt fram í fjárlagafrv. hve langt við erum á eftir. Þó fjárframlögin hafi eitthvað aukist upp á síðkastið er langt frá því að við höfum sambærilega stöðu og aðrar þjóðir. Þetta er alvarlegt vegna þess að rannsóknir og þróun eru undirstaða fyrir lífskjarabata í framtíðinni.

Metnaðarleysi í menntamálum kemur glöggt fram í því að tölvukennslan í Háskóla Íslands er í molum vegna tækjaskorts. Háskólasamfélagið ætlar því að fara með betlistafinn um þjóðfélagið til að ná sér í tölvur. Þetta er menntastefna Björns Bjarnasonar í hnotskurn, niðurlæging á niðurlægingu ofan. Framlagið til Þjóðarbókhlöðunnar er og nær óbreytt þrátt fyrir ófremdarástand.

[15:00]

Kvikmyndasjóður fær vesæla 10 millj. kr. aukningu þrátt fyrir að kvikmyndir skili yfir hálfum milljarði í ríkissjóð umfram framlög ríkisins, samanber nýja skýrslu Aflvaka um kvikmyndaiðnað.

Fjárfestingar eru í eðlilegum farvegi á þessu ári miðað við útlönd en einkenni þeirra er fyrst og fremst stóriðjufjárfestingarnar. Við ættum miklu frekar að leggja áherslu á möguleika innan þekkingar- og upplýsingasamfélagsins og ferðaþjónustu. Við í stjórnarandstöðunni höfum bent á þetta, en sama skoðun kom fram í viðtali við æðsta embættismann Bandaríkjanna á sviði alþjóðlegra umhverfismála í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar bendir hann á að með breyttum áherslum gætum við vel uppfyllt skilyrði Kyoto-bókunarinnar en það er einmitt málaflokkur sem við höfum lagt áherslu á og reyndar fylgt eftir með sérstöku þingmáli. Áherslur ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum eru einfaldlega rangar. Þær eru gamaldags og hafa ekki sýn til framtíðar.

Í fjárlagafrv. er ríkisstjórninni heimilt með samþykki fjárln. að leggja niður tímabundið eða til lengri tíma starfsemi ríkisstofnana. Þetta er ótrúlega víð heimild og virðist engu skipta hvort lög gildi um viðkomandi stofnun. Þetta er ekki skýrt í grg. með frv. nema sagt er að þetta skýri sig sjálft. Það er ekkert sagt um hvernig ætlunin er að nota þessar heimildir á næsta ári. Jafnframt er í fjárlagafrv. lögð til mjög rúm heimild til að stofna ný félög á sviði iðnrn. Með þeirri heimild virðist vera að hægt sé að endurskipuleggja allan orkugeirann án þess að um það sé fjallað á Alþingi.

Einnig kemur fram í fjárlagafrv. að framkvæmdir á Bessastöðum kostuðu yfir einn milljarð kr. Það er sama upphæð og nýi barnaspítalinn á að kosta. Þetta er óstjórnleg upphæð sem þessar endurbætur hafa kostað. Þetta þarf sérstakrar skoðunar við og ég vona að það verði gert. Það er grátlegt að horfa upp á að þrátt fyrir smávægilega aukningu á framlagi til þróunarmála erum við enn langt á eftir nágrannalöndunum á þessu sviði. Það er skammarlegt að í miðju góðærinu sjáum við einungis á eftir einum tíunda hluta þess sem aðrar þjóðir veita til þessa hluta.

Sólskinsfjárlög þessarar ríkisstjórnar einkennast af misskiptingu og lausatökum. Öryrkjar og aldraðir bera skarðan hlut frá borði og tekjuaukningin hefur dreifst mjög misjafnlega. Það er ekki, herra forseti, brugðist við þenslueinkennum og hvorki er sókn né kerfisbreytingar að finna í þessu fjárlagafrv.