Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 16:05:04 (74)

1998-10-05 16:05:04# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[16:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið góður dagur í lífi fjmrh. Hann hefur flutt fjárlagaræðu sína, jómfrúrræðu sína í fjárlögum, og stjórnarandstaðan hefur komið til móts við ráðherra í vandasömum tímasetningum og haft skilning á því að ráðherra hefur skyldum að gegna á erlendum vettvangi. En á sama tíma og stjórnarandstaðan kom til móts við stjórnarflokkana varðandi þetta og ákvað að fallast á að vera með fjárlagaumræðuna í dag og fallast á það að ráðherra hyrfi á brott um þrjúleytið var alveg ljóst af okkar hálfu að við mundum óska eftir því að forustumenn stjórnarflokkanna og jafnframt fagráðherrar yrðu viðstaddir umræðuna þegar fjmrh. hyrfi á braut.

Herra forseti. Um leið og ég lýsi yfir fullum skilningi á stöðu fjmrh. vil ég leyfa mér að vera með ólund vegna þess að það er ekki fyrr en við erum komin til fundar í þessum sal í dag að ég fæ upplýsingar um það að utanrrh. verður ekkert hér, hann er líka farinn til útlanda. Þó að það breyti engu hvenær maður fær slíkar fréttir hefði ég talið að miðað við lipurð okkar hefði verið bragur að því að láta okkur vita að því miður væri ekki hægt að verða við þeirri ósk að forustumenn stjórnarflokkanna yrðu við umræðuna.

Ég er mjög ánægð með það að félmrh. og heilbrrh. eru mættir og ætla væntanlega að sitja þessa umræðu og hlusta á athugasemdir og ég hefði talið að það væri eðlilegasti hlutur í heimi að hér sæti jafnframt forsrh. þar sem hann er fjmrh. í dag. Þó við fáum oft að heyra að hann sé að hlýða á umræðuna í öðru herbergi þá er bragur að því að sá sem þingmenn tala til sé í salnum.

Herra forseti. Þetta var ólundin í mér í dag. Ætla ég þá að víkja að öðru leyti að fjárlagaumræðunni. Það sem ég gat um eru umbúðir umræðunnar en annað er innihaldið og það er það sem við ræðum.

Virðulegi forseti. Það er nú svo að stjórnmál eru ekki bara hagfræði þó að stundum mætti ætla það af stjórnmálaumræðu liðinna ára þar sem allt hefur snúist um efnahagsmál og aðgerðir í efnahagsmálum, ekki síst á tímum þegar samdráttur og erfiðleikar voru í atvinnulífinu. En auðvitað setur ríkisstjórn sér efnahagsleg markmið og ríkisstjórn setur sér jafnframt þjóðfélagsleg markmið. Hún ákveður hverju skuli kosta til til að ná betri afkomu ríkissjóðs, hún ákveður í hvaða vasa skuli seilst, hún ákveður hvernig nýta á árangur, hvernig skuli jafna kjör og gæta aðstöðu ólíkra hópa. Þetta eru hin eiginlegu stjórnmál. Þetta eru stjórnmál dagsins í dag. Hvernig náum við efnahagslegum markmiðum, hvernig skýrum við stöðu ríkissjóðs, hvernig deilum við góðum efnahagsbata út til allra.

Það er í því verkefni sem við í stjórnarandstöðunni gagnrýnum ríkisstjórnina harðlega. Okkur þykir hún ekki nýta efnahagsbatann til að skila honum til þeirra sem lögðu sitt af mörkum á sínum tíma. Okkur þykir hún of upptekin af hagfræði efnahagsmálanna og hún veit ekki af fólkinu sem er ekki í nánasta umgengnishópi hennar.

Ég ætla að leyfa mér að víkja aðeins út úr þessum sal og vísa til orða annarra sem eru að fjalla um þessi mál og ég er hér með, virðulegi forseti, í höndunum viðtal sem heitir Gátan um góðærið. Þar er viðtal við Helga Seljan og Sigurð B. Stefánsson. Það er athyglisvert að þessir einstaklingar, sem starfa á ólíkum vettvangi úti í þjóðfélaginu, eru nokkuð sammála um hverjar séu forsendur efnahagsbatans og góðrar stöðu ríkissjóðs um þessar mundir. Báðir nefna framleiðsluna í landinu, góð markaðsskilyrði og með afbrigðum góð aflabrögð. Sigurður B. Stefánsson nefnir til viðbótar viðskiptafrelsi sem hafi verið að aukast með ráðstöfunum á liðnum árum, og hlýt ég þá að minna á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem samið var um aðild okkar að á síðasta kjörtímabili og sem á sinn þátt í því hversu mjög efldist hagur fyrirtækja, hvaða möguleikar urðu til með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu varðandi útflutning og alla framleiðslu hér.

Það verður að líta á málin í heild sinni og skoða hvernig við búum í haginn og hvaða umhverfi við sköpum bæði með þessu viðskiptafrelsi, aðgangi að mörkuðum og öðrum aðgerðum sem við grípum til.

Það er athyglisvert að Sigurður Stefánsson nefndi líka að þetta umhverfi hefur verið að skapast í öðrum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, og að Bandaríkjamenn væru núna á sínu áttunda ári síðan hagvaxtarskeið þeirra hófst en verðbólga hjá þeim væri enn að lækka. Það sama ætti við í Mið-Evrópulöndunum þó skemmra væri liðið síðan uppsveifla hófst þar.

Mér finnst ástæða til þess fyrir okkur að staldra við þetta og að líta til beggja átta, til Evrópu og vestur um haf og skoða hvað hefur verið að gerast í efnahagsumhverfinu á sama tíma og ríkisstjórnin er svo gífurlega upptekin af því, eins og hér hefur komið fram, að þakka sér góðærið eins og stjórn hennar og seta á ráðherrastólum ráði öllu um hvernig til hafi tekist. Af því að ég er að nefna þá þætti sem þeir félagar voru sammála um ætla ég að bæta við einum í viðbót og ekki þeim þýðingarminnsta frá eigin brjósti, og það er þjóðarsátt um bætt kjör. Þjóðarsátt um bætt kjör.

Það hefur ekki farið mikið fyrir umræðunni um þann þátt hjá stjórnarflokkunum í umfjöllun þeirra um góðærið og tilurð þess. En hvað gerðist ekki fyrir fáum árum þegar menn sameinuðust um að frysta laun og vera á þessum lágu launum um margra ára skeið til þess að ná niður og vinna bug á verðbólgu, til þess að ná hagvexti og skapa þau skilyrði að launafólk gæti raunverulega farið að fá afrakstur vinnu sinnar metinn til fjár?

En það er þegar kemur að efnahagsbatanum, þegar kemur að góðærinu átta menn sig á því að því er afskaplega misskipt hvað skilar sér til þeirra sem sköpuðu stöðugleikann með þjóðarsátt um bætt kjör. Ágætu félagar, við skulum halda því til haga í þessari umræðu að það var þjóðarsáttin sem fyrst og fremst varð til þess að við náðum þessum árangri, algjörlega óháð því hverjir sátu eða sitja í ráðherrastólunum.

Herra forseti. Það kom fram hjá fjmrh. að það er mikil breyting á fjárlagafrv. frá því það er sett fram og þar til í desember að við afgreiðum það. Það gerir umræðuna um fjárlögin frekar veika. Við vitum að ýmislegt hefur ekki hefur komið fram og við vitum líka að mikilvægir þættir eiga eftir að koma inn í þessi fjárlög og ég vil halda því til haga.

Sólskinsfjárlög, segir íhaldið og beinir sjónum að ríkiskassanum. En eins og á aðra sólskinsbletti falla skuggar og bent hefur verið á þá í umræðunni í dag. Það eru dimmir skuggar á sólskinsbletti ríkisstjórnarinnar. Þeim varpa hóparnir sem eiga ekki upp á pallborðið hjá ríkisstjórninni. En við skulum skoða sólskinshópana.

Það er eignafólkið í landinu, það er fólk með skuldlausar eignir og háar tekjur. Það er fólkið á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðnum. Þetta fólk er ánægt og því líður vel, það finnur fyrir góðærinu og það veit að góðærið mun skila sér í buddu þess.

[16:15]

Og fyrirtækin eru líka í sólskinshópnum. Búið hefur verið í haginn fyrir þau í kreppunni, skattar lækkaðir og viðskiptaumhverfi bætt. En þegar kemur að því að þau eiga líka að skila sínu til samneyslunnar bregður öðru við. Fjárlögin sýna að tekjuskattur fyrirtækja hækkar ekki meðan tekjuskattur einstaklinga hækkar um 2 milljarða kr. Fjármagnstekjuskattur skilar engu meiri tekjum á næsta ári en á þessu ári. Í stað þess að fjármagnseigendur greiði sama skatt af fjármagnstekjum sínum og fólkið í landinu greiðir af launatekjum sínum ákváðu stjórnarflokkarnir í fyrra að lækka skatt af arði úr um 42% og niður í 10%. Þessi breyting var kærkomin fyrir sólskinshópinn sem fékk þannig umtalsverðan aukinn arð til eigin nota, til eigin ráðstöfunar, til eigin fjárfestingar. Þessi hópur sleppur við að leggja áfram á sama hátt til samneyslunnar og kemur ekki inn í samneysluna á jafnréttisgrundvelli á við launamanninn.

Síðustu þrjú ár var hagnaður fyrirtækja 100 milljarðar. Þetta hefur komið fram í dag og ástæða er til að hamra á því aftur og aftur. Hagnaður 100 milljarðar en tekjuskattur fyrirtækjanna aðeins 16 milljarðar. Þetta eru góðar tölur. Vegna hvers? Það er svo auðvelt og blasir svo skýrt við að vekja athygli á því hver er þá raunskattur fyrirtækjanna að meðaltali. Ég segi að meðaltali vegna þess að öll umræða stjórnarflokkanna um fjárlögin hefur verið meðaltalsumræða. Allir hafa það gott að meðaltali. Þangað inn er seilst líka með öryrkjana. Að meðaltali er raunskattur fyrirtækjanna því 16% ef það hafa verið greiddir 16 milljarðar af 100 milljarða hagnaði.

Á sama tíma greiddu einstaklingar 80 milljarða í tekjuskatt, fimmfalt meira en fyrirtækin í landinu. Fjölskyldurnar í landinu greiða núna 39% skatt. Ég ætla að segja, virðulegi forseti: Það er fagnaðarefni að það á að lækka um 1% og niður í 38%. Það er fagnaðarefni og við eigum auðvitað að taka undir þau fáu viðleitniskref sem eru í átt til hagsældar launafólks sem koma fram í fjárlagafrv. En það er ekki nógu gott að lækka tekjuskatt um 1% ef sú gjörð er tekin til baka með hinni hendinni eins og það sem snýr að barnafólki að á sama tíma og verið er að lækka tekjuskattana eru barnabæturnar lækkaðar á móti þannig að staða barnafólks verður engu betri.

Skuldir heimilanna eru meira en 400 milljarðar og hafa aldrei verið meiri. Ég minnist þeirra hörðu radda sem hljómuðu frá stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili við mjög erfiðar aðstæður þegar verið var að tala um auknar skuldir heimilanna og kallað var eftir því hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera varðandi auknar skuldir heimilanna. Það voru utandagskrárumræður, það voru upphlaup í þinginu: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Ég spyr á móti: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í góðærinu? Af hverju gerir ríkisstjórnin ekkert í góðærinu þegar skuldir heimilanna aukast sífellt og eru nú komnar yfir 400 milljarða? Hvar eru nú raddirnar frá síðasta kjörtímabili? Við hljótum að spyrja okkur: Hverjir skulda? Hvaða hópar skulda? Um það er ekki rætt. Það er bara talað um meðaltalið, ekki er reynt að skilgreina á nokkurn hátt hverjir það eru sem skulda og hverjir það eru sem skapa viðskiptahallann.

Talað er um það í þessari umræðu hve gífurleg neysla eigi sér stað í þjóðfélaginu og forustumenn stjórnarflokkanna tala nákvæmlega eins og allir, allir hafa þau góðu ráð að vera að kaupa og fjárfesta. Þannig er umræða stjórnarflokkanna. Nú er ekki reynt að spyrja: Hverjir eru það sem eru með 400 milljarða skuldapakka? Og hverjir eru það sem hafa til ráðstöfunar fé til þess að búa til 40 milljarða viðskiptahalla, hverjir eru það sem eru á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði?

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þeir sem eru á þeim markaði sé m.a. sólskinshópur stjórnarflokkanna, sólskinshópur stjórnarflokkanna sem er á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði og er með í að búa til þensluna með 40 milljarða viðskiptahalla. Þá spyrjum við: Er ekki vitlaust skipt? Hvað er oft spurt í þessum sal: Er ekki vitlaust skipt? Fara ekki saman skyldur og ábyrgð hjá öllum? Og um það er nefnilega deilt.

Á meðan ríkisstjórnin heldur því fram að góðærið nái til allra svo að segja, a.m.k. að meðaltali, þá segjum við að ríkisstjórnin hafi brugðist skyldu sinni. Hún gætir ekki að hag allra þegnanna. Hún einblínir á þá sem velmegunin lýsir af. Í umræðunni um stefnuræðu forsrh. gagnrýndi utanrrh. stjórnarandstöðuna fyrir að vera ekki ánægð með meðaltalsgóðærið og sagði eitthvað sem svo: Auðvitað eru margir sem eiga bágt. Auðvitað eru margir sem þurfa að hafa það betra og auðvitað eru það margir sem vilja hafa það betra. Hefur það ekki alltaf verið þannig og mun það ekki alltaf verða þannig? Ég hef hugsað um þessi orð síðan: Mun það ekki alltaf verða þannig? Á eitthvað að hafa áhyggjur af því þó sumir hafi það verra?

Virðulegi forseti. Ég hef verið í stjórnmálum í 20 ár og hef litið á það sem höfuðverkefni stjórnmálamanna að jafna kjör. Að það sé ekki sjálfgefið að það eigi alltaf einhverjir að hafa það skítt. Fráleitt væri að halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekki gert eitthvað gott, m.a. lækkað þessa skatta. En áhugasvið hennar nær ekki til fjöldans. Hún er ekki að skilgreina hópa og hún er ekki að skoða hverjir það eru sem fá ekki hlutdeild í meðaltalsgóðærinu.

Ég er búin að átta mig á því að þessir herrar skilja ekkert hvað við erum að tala um þegar við tölum um jöfnuð. Þeir skilja ekki hvað við erum að tala um þegar við tölum um jöfnuð. Þeir sem leyfa sér að orða það sem svo: Hefur það ekki alltaf verið þannig og mun það ekki alltaf verða þannig? skilja ekki hvað við erum að tala um þegar við tölum um jöfnuð og að nýta góðærið, tekjur ríkissjóðs, til að jafna kjör þegnanna.

Við fáum bréf frá öldruðum þar sem þeir lýsa afkomu sinni, skerðingu á réttindum og biðja um leiðréttingu. Þeir biðja um skrifleg svör þingmannanna til að þeir geti áttað sig á hvort við meinum eitthvað með því sem við segjum. Ég veit ekki hvort þeir skrifa ráðherrunum eða hvort þeir fá yfirleitt svör. Við komum til Alþingis til að ræða stefnuræðu forsrh. þar sem boðskapurinn er: Allt er nú harla gott í góðærinu. En fyrir utan, meðfram Kirkjustrætinu fylkir sér hljóður hópur öryrkja til að minna á sig og kjör sín. Þögull vitnisburður um misskiptingu gæðanna, skuggahópur sólskinsfjárlaganna og sólskinssamfélagsins. Og, herra forseti, ég ætla að grípa örlítið niður í viðtalið við Helga Seljan og Sigurð B. Stefánsson einmitt í umræðunni um þetta: Af hverju hafa öryrkjar dregist aftur úr? Hvað gerðist 1995?

Þá var m.a. gerður samningur, krónutölusamningur, og menn hugðu gott til glóðarinnar að bæta kjör öryrkja. Fengu þeir krónutöluhækkunina? Nei. Þeir fengu hana ekki. Hún hefði skilað þeim yfir 7% en það sem þeir fengu voru 4,8%. Áramótin næstu á eftir var mat þeirra að það hefði átt að hækka örorkugreiðslurnar um 5% en það komu bara 3,5%. Þess vegna er það að þegar skoðaðar eru prósentuhækkanir síðan þá hefur alltaf komið örlítið minna í hlut öryrkjanna en átti að vera í raun. Það er þess vegna sem þeir dragast aftur úr.

Virðulegi forseti. Hvaða aðrir hópar eru það sem tilheyra ekki sólskinshópi ríkisstjórnarinnar? Hvar sem menn líta í kringum sig í stórfjölskyldunni er ungt fólk að basla og nær ekki utan um verkefnin sín. Líka þar hefur verið litið til hópsins, barnabætur lækka þannig eins og ég sagði áðan á sama tíma og verið er að lækka tekjuskattinn þá eru lækkaðar barnabæturnar.

Herra forseti. Ég hlýt að spyrja: Hvar eru góðu yfirlýsingarnar um það að reyna að komast hjá jaðarskattinum og rétta af þann hlut? Ég hlýt að spyrja um það.