Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 16:48:38 (77)

1998-10-05 16:48:38# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[16:48]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessi svör. Mér fannst afar athyglisvert að sjá þessar tölur í frv. og ég hygg að þetta mál, þ.e. gjafsóknir, sé einmitt eitt af því sem endurspeglar ástandið í samfélaginu og því væri afar forvitnilegt að fá greiningu á því hvað býr þarna að baki.

En hvað varðar aðgerðir gegn heimilisofbeldi eða til að draga úr heimilisofbeldi þá skil ég hæstv. ráðherra sem svo að verið sé að vinna að málunum í ráðuneytinu og við munum þá væntanlega á næstu vikum sjá frv. til laga um nauðsynlegar ráðstafanir sem þessu fylgja og ég vona að þær komist í gegn á þessu þingi og það fylgi með það fjármagn sem til þarf því að þetta er afar brýnt málefni og reyndar á fleiri sviðum ofbeldismála, t.d. það sem snýr að börnum.