Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:11:22 (82)

1998-10-05 17:11:22# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:11]

Árni Johnsen (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig tekur sárt að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, vinur minn, skuli vera að fara á taugum út af borgarstjóranum í Reykjavík og ætti kannski hv. þm. að líta sér nær. En hv. þm. þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að ég kunni ekki að lesa úr bréfum og það er ekki til neitt sambærilegt bréf í bréfasafni fjárln. í líkingu við það sem hér hefur verið rætt um og hv. samflokksþingmaður Guðmundar Árna Stefánssonar vakti máls á í ræðu fyrr í dag. Það þýðir ekkert að vera að koma upp í ræðustól og segja: Ég hugsa að ég muni rétt, það kunni að vera, uss og pú og kannski og sei, sei. Staðreyndir málsins eru aðrar.

Varðandi málflutning minn tengdan Reykjavíkurflugvelli þá fór ég með rétt mál vegna þess að borgarskipulagið sem er auðvitað undir stjórn Reykjavíkurborgar hefur ekki haft vilja í sér til þess að ljúka þeirri vinnu sem þarf að gera til þess að uppbygging Reykjavíkurflugvallar geti hafist. Meðan borgaryfirvöld sjálf draga lappirnar, að vísu á mismunandi forsendum, m.a. vegna þess að ákveðnir borgarfulltrúar eru andsnúnir Reykjavíkurflugvelli í Reykjavík, tefur það framgang málsins. Reykjavíkurflugvöllur er kominn inn á flugmálaáætlun. (GÁS: Hvar eru tekjurnar?) Það er reiknað með ákveðnum hlut í þeim efnum sem munu ganga hratt fyrir sig þegar Reykjavíkurborg hefur lokið heimavinnu sinni. Hv. þm. getur augljóslega óskað eftir því að fá réttar upplýsingar. Þær upplýsingar sem ég hef sagt eru staðfestar í flugráði og Flugmálastjórn.