Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:16:36 (85)

1998-10-05 17:16:36# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að fjárln. velji sér ekki sveitarstjórnarmenn til viðræðna. Hv. fjárln. sendir sveitarstjórnarmönnum bréf þar sem hún býður þeim á fund sinn. Það gerðu þeir þegar þeir skrifuðu borgarstjóranum og borgarfulltrúum hér í Reykjavík, bréf þann 8. september sl. Þeir buðu þeim að koma á fund sinn 21.--24. september. Þeir hjá Reykjavíkurborg hafa hins vegar ákveðið síðan að skila inn greinargerð og segja umbúðalaust hvað þeim finnst um þau vinnubrögð sem þar eru viðhöfð. Ef menn eru ekki sáttir við það þá verða þeir auðvitað að ræða það við viðkomandi borgarfulltrúa eða sveitarstjórnarmenn.

Eins og ég sagði í andsvari mínu er vísað til þess í bréfinu að ef greinargerðin sem send er frá borgarstjórn í Reykjavík nægji ekki þá séu þeir tilbúnir að koma á fund nefndarinnar til að gera frekari grein fyrir málefnum borgarinnar. Svo einfalt er þetta mál og það að láta þetta fara fyrir brjóstið á sér er bara með ólíkindum.