Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:18:00 (86)

1998-10-05 17:18:00# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:18]

Árni Johnsen (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað verður að reikna með misjöfnu siðferði á vorri jörð. Það verður líka að taka tillit til þess að þeir sem hafa reynslu af því að flakka á milli flokka hafa svolítið svigrúm í vinnureglum. (RG: Viðkomandi á ekki kost á að svara ræðumanninum.) Viðkomandi á kost á því að fara í nýjan flokk og ekki er nú öll nótt úti enn.

Ætli það þætti ekki svolítið kynlegt í sambandi við eðlilegt boð fjárln. til sveitarstjórna ef t.d. sveitarstjórnin í Þórshöfn á Langanesi mundi svara þessu hefðbundna boði og segja: ,,Ef þið viljið tala við mig, þá kem ég.`` Það eru bara ekki vinnureglurnar og það er óeðlilegt. Það er tímasóun að vinna á þeim nótum. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmenn sem hafa fjallað um þetta að reyna að réttlæta þetta bréf borgarstjórans í Reykjavík. Það eru leið mistök og ber að harma.