Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:19:49 (87)

1998-10-05 17:19:49# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:19]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Af því að ég átti ekki kost á því í andsvörum áðan að svara síðasta andsvari síðasta ræðumanns þá vil ég geta þess, talandi um flokka, að ég vona að við munum eygja nýjan flokk fyrir aldamót, stóran jafnaðarmannaflokk. Ég ætla mér að vera hluti af þeim flokki og það get ég fullvissað hv. þm. um.

Þegar við ræðum fjárlagafrv. þá erum við auðvitað að ræða um hverjir muni njóta þess góðæris sem ríkt hefur undanfarið. Menn tala um að nauðsynlegt sé að greiða niður skuldir þegar góðæri ríkir og ég get alveg tekið undir það. Við getum aftur á móti ekki sætt okkur við að fólk í samfélagi okkar líði skort á meðan góðæri ríkir. Það getum við ekki sætt okkur við en því miður höfum við fengið margar staðfestingar um að í góðærinu líði fjöldi fólks skort í samfélaginu og ætla ég að koma aðeins að því á eftir.

Þar sem hæstv. heilbrrh. situr við umræðuna og hefur setið hér við, þá langar mig að ræða aðeins um heilbrigðismálin og sjúkrahúsin. Eins og menn þekkja hefur vandi heilbrigðiskerfisins verið mjög stór. Maður sér það á biðlistunum og maður sér það á fréttum af þjónustunni í heilbrigðiskerfinu. Því miður virðist, miðað við fjárlagafrv., að á næsta ári muni enn verða allmikill fjárskortur í rekstri sjúkrahúsanna. Ég verð þó að segja að það er jákvætt að þær 100 millj. til Sjúkrahúss Reykjavíkur og framlagið til Ríkisspítalanna sem fengust úr potti heilbrrh. virðist eiga að haldast inni sem aukalegt framlag á næsta ári. Það er jákvætt. Ef við skoðum Sjúkrahús Reykjavíkur þá koma þar til 160 millj. til viðbótar við upphæðina sem var á síðasta ári. En því miður dugar það alls ekki. Miðað við upplýsingarnar sem fram koma í fjárlagafrv. verður hallinn á Sjúkrahúsi Reykjavíkur áfram a.m.k. 150 millj. kr.

Samkvæmt úttekt endurskoðanda nam bráðafjárvöntun við síðustu áramót, þ.e. 1. janúar á þessu ári, ríflega 300 millj. kr. Það vantaði 300 millj. kr. á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Halli fyrra árs fluttist yfir á yfirstandandi ár, og við þann hala leggst síðan halli þessa árs sem eftir 100 millj. kr. úr potti heilbrrh., nemur um 314 millj. kr. Því mun hallinn sem Sjúkrahús Reykjavíkur mun dragast með inn á næsta ár verða ríflega 600 millj. kr. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann hyggst gera í þessum málum, hvað hann hyggst gera vegna þessa 600 millj. kr. halla sem Sjúkrahús Reykjavíkur mun dragnast með fram á næsta ár.

Eins og fram hefur komið í ræðunum í dag er vandi sjúkrahúsanna mjög stór. Eitt langar mig til að nefna. Á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hefur verið vitað að mjög brýnt er að stækka og endurnýja húsnæði til gjörgæslunnar. Ráðherra var búinn að gefa vilyrði um það opinberlega að það væri forgangsverkefni. Þetta er verkefni upp á tugi milljóna. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Hvar sér þessa verkefnis stað í fjárlagafrv.? Ég get ekki séð að það sé í því fjárlagafrv. sem við erum með fyrir framan okkur þannig að ég mundi gjarnan vilja að hæstv. ráðherra svaraði því hvernig hún hyggst kosta þetta forgangsverkefni.

Því miður hafa sjúkrahúsin verið rekin í fjársvelti og eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum ekki alls fyrir löngu þá er það ekki í sátt við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Fólk er tilbúið að greiða hærri skatta gegn því að búa við góða heilbrigðisþjónustu, til að hafa góða velferðarþjónustu og því miður hafa margir Íslendingar misst trúna á að við búum við mjög góða þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Eins og hæstv. heilbrrh. þekkir, herra forseti, er erfitt og varla hægt að stjórna heilbrigðiskerfinu, t.d. hversu mikla þjónustu sjúkrahúsin þurfi að veita. Sjúklingarnir skapa þá þörf. Þegar sjúklingarnir koma inn á sjúkrahúsin verður að sjálfsögðu að sinna þeim og það kostar peninga. Það kostar peninga að notast við hátækni á sjúkrahúsunum. Það kostar peninga að vera með vel menntað fólk. Það kostar peninga að halda heilsunni. Við Íslendingar erum fámenn þjóð og við viljum hugsa hvert um annað. Við viljum öfluga samhjálp og erum tilbúin að borga fyrir hana.

Ég minntist á að í góðærinu gætum við ekki sætt okkur við að skortur væri í samfélaginu. Þess vegna vil ég koma hér aðeins inn á kjör þeirra sem minnst hafa, þeirra sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi skuggahópinn í sólskinsfjárlögunum. Það er ekki tómt sólskin í þessum fjárlögum. Það skiptast á skin og skúrir. Skuggahópurinn er m.a. margir sjúkir, stór hópur lífeyrisþega, bæði aldraðir og öryrkjar sem býr við mjög kröpp kjör. Fjöldi fólks er með langt undir lágmarkslaunum til framfærslu. Það er vart boðlegt á uppgangstímum að fólk búi við þessi kjör. Það gladdi mig þegar hæstv. ráðherra heilbrigðismála talaði um að hún hygðist minnka jaðarskattana, minnka tekjutengingu við laun maka. Það er mál sem ég hef margoft talað um á þingi og tel mjög brýnt að verði leiðrétt. Þess vegna fagna ég því að þessi barátta okkar í stjórnarandstöðunni hafi náð eyrum ráðherrans og hún sé tilbúin til að leiðrétta það ranglæti.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það hefur lengi verið svo að tekjur maka skerði bætur öryrkja og lífeyrisþega. En eins og hæstv. ráðherra hefur margoft bent á þá hafa aðrir heilbrrh. ekki gert neitt í málinu. Mig langar að benda á að þessi regla, skerðingarregla við tekjur maka, stangast á við mannréttindasáttmála sem við höfum skrifað undir, bæði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Það var ekki fyrr en 1995, herra forseti, sem við Íslendingar tókum þetta inn í stjórnarskrána og stjórnsýslulögin 1993. Því er mun meiri ástæða til þess nú að við leiðréttum þetta en nokkrun tíma áður. Það er komið inn í íslensk lög í dag að við megum ekki mismuna fólki og við erum þarna að mismuna fólki eftir því hvort það er í sambúð, hjónabandi eða býr eitt. Þetta er mikið ranglæti sem mjög brýnt er að leiðrétta.

[17:30]

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir minntist á upplýsingar sem komu fram á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins um það hversu öryrkjum fjölgar á Íslandi og að menn hafi verið að velta því fyrir sér hvers vegna svo sé. Ég er alveg sannfærð um að ein af ástæðunum fyrir því hvers vegna öryrkjum fjölgar er sú hversu sjúkradagpeningar á Íslandi eru lágir. Ég tel að við þyrftum að taka inn í fjárlögin það atriði að hækka sjúkradagpeninga þannig að fólk sem missir heilsuna tímabundið fái sjúkradagpeninga sem eru hærri en örorkugreiðslur og þá fer fólk frekar út af almannatryggingagreiðslunum aftur.

Það hefur verið tilhneiging til þess, og maður tekur eftir því sérstaklega þegar maður vinnur við þetta kerfi, að þegar menn eru einu sinni komnir á örorkubætur þá haldi þeir áfram á örorkulífeyri. Þó svo það sé ekki algilt er sú tilhneiging ríkari og þess vegna þyrftu sjúkradagpeningar að vera mun hærri eins og þeir eru á Norðurlöndum en ekki þessar smánarbætur sem þeir eru í dag þar sem þær eru undir 20 þús. kr. á mánuði. Fáir fara einnig á sjúkradagpeningagreiðslur vegna þess hve smánarlega lágar þær eru. Það er alveg ljóst að enginn óvinnufær sjúklingur lifir á 20 þús. kr. á mánuði. Ég leyfi mér að halda því fram að þeir haldi og nái ekki einu sinni heilsu.

Við jafnaðarmenn höfum gagnrýnt það að ekki ríki jöfnuður í samfélaginu þegar svo stór hópur hefur verið látinn sitja eftir sem lífeyrisþegarnir og það hefur verið rakið í ræðum hér á undan. En ég verð að segja eins og er að ég hrökk í kút þegar ég heyrði formann annars stjórnarflokkanna tala úr ræðustóli Alþingis við umræðuna um stefnuræðuna þegar hann talaði um það að margir ættu bágt. Ég ætla að fá að vitna í þetta, herra forseti, þ.e. ummæli hæstv. utanrrh. í umræðunum um stefnuræðuna. Það kom fram í hádegisfréttum daginn eftir ræðuna en þar sagði hann, með leyfi forseta:

,,Auðvitað eru margir sem eiga bágt. Auðvitað eru það margir sem þurfa að hafa það betra og auðvitað eru margir sem vilja hafa það betra. Hefur það ekki alltaf verið þannig og mun það ekki alltaf verða þannig?``

Þetta er foringinn sem fór fram fyrir síðustu kosningar undir kjörorðinu ,,fólk í fyrirrúmi`` og hann er tilbúinn að samþykkja það og segja það hér að það muni alltaf vera þannig að alltaf verði einhverjir sem búi við fátækt. Ég get ekki sætt mig við þessa hugsun. Ég get ekki sætt mig við það að í samfélaginu verði alltaf einhverjir sem líði skort. Við eigum auðvitað að vinna að því að svo verði ekki. Þess vegna er mikilvægt að þessi fjárlög verði skoðuð í því ljósi að þeir sem hafa orðið út undan í góðærinu fái sinn skerf. Við sættum okkur ekki við að það verði alltaf þannig að einhverjir verði undir, að einhverjir líði skort. Við verðum að sjá til þess að kjör þessa hóps verði bætt og þar á meðal er stór hópur, öryrkjarnir, sem einmitt stóð hér fyrir utan við upphaf umræðunnar um stefnuræðu forsrh. Sá hópur mun ekki sætta sig við að þetta góðæri fari fram hjá án þess að hann fái sinn hlut af því.

Ég vil í lokin vegna umræðunnar um jaðarskattana spyrja --- reyndar hefur þessi spurning komið hér fyrr fram í dag --- hvernig hæstv. heilbrrh., herra forseti, hyggst standa að því að minnka jaðarskattana á öryrkjana. Hvenær munu taka gildi reglur sem gera það að verkum að tekjur maka skerða ekki lífeyrisgreiðslur öryrkja og lífeyrisþega? Hvað á það að kosta og hvar er gert ráð fyrir kostnaði við það í fjárlagafrv.? Ég hef ekki rekist á það í yfirlestri yfir fjárlagafrv. að nokkurs staðar séu fjármunir til þess, a.m.k. kom ég kom ekki auga á það. Ég vil því gjarnan fá það uppgefið hjá hæstv. ráðherra hversu mikið það muni kosta, hvenær þetta muni taka gildi og hvar þessi fjárveiting sé í fjárlagafrv.