Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:58:35 (90)

1998-10-05 17:58:35# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki skilið gagnrýni mína. Þingmenn stjórnarliðsins hafa komið fram í fjölmiðlum, barið sér á brjóst og sagt: Sjá, þetta er hið góða sem við gerum hvað varðar hjúkrunarrými fyrir aldraða. Það er mikilvægt að byggja 120 hjúkrunarrými og það er mikilvægt að biðtíminn fer niður í 90 daga og þótt fyrr hefði verið. En ég var að lesa upp úr greinargerð og benda á að framlag úr ríkissjóði er minna en þær 245 millj. kr. sem skornar eru af Framkvæmdasjóði fatlaðra. 84,4 millj. til viðbótar eru millifærðar af lífeyristryggingum vegna fækkunar dvalarrýma sem verða vegna fjölgunar hjúkrunarrýma. Þetta er ekki inni í útgjöldum úr ríkiskassanum. Það sem ég er að benda á er að þetta er viðkvæmur málaflokkur, málaflokkur fatlaðra. Hann geldur stefnu ríkisstjórnarinnar. Helmingur lögbundins tekjustofns Framkvæmdasjóðs fatlaðra er skorinn niður og um það bil sömu fjárhæð er veitt til að fjölga hjúkrunarrúmum. Auðvitað fagna ég fjölgun hjúkrunarrúma en ég spyr ríkisstjórnina: Er bara hægt að gera gott í einhverjum málaflokki með því að gera minna í öðrum þýðingarmiklum málaflokki? Þetta er gagnrýni mín, herra forseti.