Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 18:10:16 (100)

1998-10-05 18:10:16# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[18:10]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og mér fannst þau aðeins vera nær einhverri niðurstöðu í þessu máli að fá fram hvað ráðherrann hugsar. Það er alveg ljóst að ráðherrann segir að fjárhæðin og þá frv. muni liggja fyrir áður en fjárlög verða afgreidd. Ég skil það svo að ráðherrann sé þá að stefna að því að gera þetta frv. að lögum fyrir áramótin og þar með að fá fjármagn í það núna við fjárlagaafgreiðsluna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það liggi fyrir ef ég skil ráðherrann rétt vegna þess að þetta er mjög stórt mál sem snýr að öryrkjum. Ég ætla ekki að þakka hæstv. ráðherra fyrir það fyrr en ég veit hve stórt skref hún ætlar að stíga í þessu máli. Það er mjög brýnt að afnema þetta algerlega og ég vil sjá hve stórt skref ráðherrann ætlar að stíga í þessu áður en ég sé ástæðu til að þakka henni sérstaklega fyrir það. En það er auðvitað mikið framtak ef í þetta verður ráðist.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort fyrir liggi samþykki ríkisstjórnarinnar um að fara í þá breytingu að taka skref í því að afnema tekjutengingu bóta. Hefur þetta mál verið rætt við ríkisstjórnina og hefur ráðherrann ríkisstjórnina bak við sig í þessu máli?