Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 18:15:29 (104)

1998-10-05 18:15:29# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[18:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það má segja um þessa umræðu að það séu fastir liðir eins og venjulega. Þessari umræðu svipar mjög til 1. umr. fjárlaga á undanförnum árum, það eru sömu athugasemdirnar sem maður heyrir, sömu gagnrýnisatriðin og sömu staðhæfingarnar. Mig langar nú samt til að gera nokkrar athugasemdir í þessu samhengi.

Ríkisstjórnin er einbeitt í því, og stjórnarflokkarnir eins og þeir hafa verið allt þetta kjörtímabil, að sýna ábyrgð í fjármálum ríkisins. Við leggjum höfuðkapp á að greiða niður skuldir og við höfum náð verulegum árangri þar. Við erum ekki að kasta fram ábyrgðarlausum áætlunum, eins og vandræðabandalagið gerði. Það mundi kosta 60 milljarða árlega ef allar þær óskir sem þar fóru á blað væru teknar inn í fjárlög. Við reynum að setja fram raunhæf fjárlög sem við ráðum við, að reka ríkissjóð hallalausan og að greiða niður skuldir, sem voru orðnar hættulega miklar.

Framkvæmdasjóður fatlaðra, það fé sem til hans rennur nú, er eins og undanfarin tvö ár notað til framkvæmda. Rekstrarhlutinn af erfðafjárskattinum --- og það var ekki ég sem fann upp á erfðafjárskattinn til að reka stofnanir fatlaðra --- rennur í gegnum ríkissjóð eins og eðlilegt er að hann geri. Eins og í undangengnum fjárlögum hafa málefni fatlaðra haft algjöran forgang hjá okkur í félmrn., fram yfir aðra málaflokka. Þar er svigrúmið notað og framlögin til málefna fatlaðra hækka um 208,8 millj. á milli ára. 88,8 millj. af þeirri upphæð eru að vísu vegna launa og verðlagsbóta, ný úrræði í málaflokknum eru dagvistarstofnanir í Reykjavík og á Reykjanesi.

Að öðru leyti skiptast þessar 120 millj. sem bættust við í málaflokkinn þannig að til ýmissa verkefna fara 15,5 millj. Af því hefur 8,5 millj. verið ráðstafað með samningi við Múlalund og á döfinni er samningur við Öryrkjabandalagið um rekstur verndaðra vinnustaða. Svæðisskrifstofa Reykjavíkur fær 20 millj. til nýrrar dagvistarstofnunar. Svæðisskrifstofa Reykjaness fær samtals 28,4 millj., þ.e. 20 millj. til nýrrar dagvistarstofnunar og 8,4 millj. til heilsársreksturs sambýlis sem fékk rekstrarfjárveitingu frá miðju þessu ári. Svæðisskrifstofa Vesturlands fær 8,6 millj. til heilsársrekstur sambýlis á Akranesi sem fékk rekstrarfjárveitingu frá miðju þessu ári og væntanlega verður tekið í notkun nýtt sambýli á Akranesi fyrir árslok. Svæðisskrifstofa Norðurlands vestra fær 3 millj. til heilsársreksturs sambýlis á Sauðárkróki sem fékk rekstrarfjárveitingu frá miðju þessu ári.

Samningar við sveitarfélög eru 7,5 millj., þ.e. 6 millj. vegna samnings við Akureyri og 1,5 millj. vegna samnings við Höfn í Hornafirði. Greiningarstöðin fær til viðbótar 7 millj. vegna ráðningar læknis, þ.e. sérfræðings í fötlun barna og sérfræðings í teymi fyrir einhverfa. Framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra hækkar um 30 millj. milli ára og verður 235 millj. á næsta ári.

Varðandi málefni barna og unglinga þá er það rétt sem hér kom fram að til að fullnægja þeirri þörf sem hlýst af hækkun sjálfræðisaldurs þá þyrftum við 90 millj. kr. Við höfum bara ekki efni á því að gera þetta í einu skrefi. Næstu áramót bætist við meðferðarúrræði í Háholti í Skagafirði. Það er hugsað fyrir erfiðustu unglingana á þessum aldri. Í þessum fjárlögum er það sú framkvæmd sem kemur til móts við þær þarfir. Mér er það alveg ljóst að það er hægt að nota miklu meiri peninga í þennan málaflokk en við höfum bara ekki efni á að gera meira að svo komnu máli. Ég vænti þess að síðan verði haldið áfram þangað til fullnægt er þeirri þörf sem hlýst af hækkun sjálfræðisaldurs.

Komið hafa fram spurningar um Íbúðalánasjóðinn. Undirbúningi miðar mjög vel og allar horfur eru á að allt verði tilbúið um áramót. Skipuritið er nær frágengið, reglugerðarvinnan er langt komin eða á lokastigi. Um 40 starfsmenn Húsnæðisstofnunar verða endurráðnir. Eins og ég marglýsti yfir í umræðum um það mál, um húsnæðismálalöggjöfina í fyrravor, fór ég fram á það við undirbúningsnefndina að ráða starfsmennina úr hópi starfsmanna Húsnæðisstofnunar og þeir ganga fyrir í þau störf sem laus verða hjá Íbúðalánasjóði. Þetta loforð tel ég að bindi Íbúðalánasjóð í Reykjavík.

Komið hafa eindregnar óskir frá Húsvíkingum um að Íbúðalánasjóður verði staðsettur þar og víst hefði verið gaman að því. En það er of seint í rassinn gripið. Ég tel að það væru brigð við núverandi starfsmenn Húsnæðisstofnunar ef þess yrði krafist eftir á að þeir flyttu búferlum til Húsavíkur. Hins vegar er hægt að vinna ýmis af þeim störfum sem Íbúðalánasjóður þarf að láta vinna úti á landi. Það er sjálfsagt að huga að því hvort sem það yrði á Húsavík eða annars staðar. Því miður sé ég ekki að unnt sé að staðsetja aðalstövar Íbúðalánasjóðs á Húsavík. Reyndar er komin fram fyrirspurn um þetta hér í þinginu frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur og okkur gefst tækifæri til að ræða það nánar þegar ég svara þeirri fyrirspurn.

Hér var spurt um jafnréttisáætlunina sem við samþykktum í vor. Í jafnréttisáætluninni eru tilgreind verkefni hinna einstöku ráðuneyta og ég geri ráð fyrir því að hugsað sé fyrir því í fjárhagsáætlunum einstakra ráðuneyta, a.m.k. er það þannig hjá okkur í félmrn. Jafnréttislögin eru í endurskoðun. Ég vonast eftir að leggja hér fram frv. á næstu vikum og vonast eftir að fá það afgreitt í vetur.

Ég endurtek að ég tel mjög mikilvægt fyrir þjóðina að stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin sýni siðferðisþrek, jafnvel þó á kosningaári sé, til að gæta hófs í útgjöldum og afgreiða ábyrg fjárlög og láta það sitja fyrir eftir því sem unnt er að greiða niður skuldir.