Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 18:39:59 (115)

1998-10-05 18:39:59# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[18:39]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það eru ein tvö atriði sem ég vildi bæta inn í þessa umræðu, en efni hennar mun síðan verða tekið til athugunar í starfi fjárln. í framhaldinu. Það var minnst hér á hina svokölluðu biðlistanefnd sem er að störfum í félmrn. Ég fékk reyndar óvænta stöðuhækkun hér hjá hæstv. félmrh. Ég er ekki formaður nefndarinnar og sækist ekki eftir því starfi. Það er Sturlaugur Tómasson sem er formaður hennar en ég á sæti í nefndinni. (Félmrh.: Ég biðst afsökunar.) Nefndin hefur safnað að sér miklu efni og störf hennar eru í miðjum klíðum. Það er ljóst að vandinn á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi er mikill í málefnum fatlaðra og m.a. hafa sveitarstjórnarmenn á Reykjanesi, flestir eða allir, ítrekað þennan vanda og lýst honum í viðræðum við nefndina. Vandinn er af þeirri stærðargráðu að ég hef ekki trú á að hann verði leystur á einu ári en nefndin hefur ekki enn þá skilað tillögum til ráðherra um hvað hún leggur til. Vissulega er þarna um mikinn vanda að ræða sem stafar m.a. af því að hér er mikil samþjöppun á fólki. Það er mikil mannfjölgun á þessu svæði, t.d. á Reykjanesi. Vandamál fylgja því og þau aukast að sama skapi þannig að þarna verður að vanda vel til og gera sér glögga grein fyrir því hvaða úrræði koma að sem mestu gagni í þessum vandamálum.

Hér í dag hefur bréf borgarstjórans í Reykjavík til fjárln. verið töluvert til umræðu og vinna fjárln. í því sambandi og viðræður fjárln. við sveitarstjórnarmenn. Það er rétt sem fram hefur komið að fjárln. hefur boðið sveitarstjórnum til viðræðu við nefndina um sameiginleg mál ríkis og sveitarfélaga og önnur þau mál sem sveitarstjórnir vilja bera upp. Forsvarsmönnum Reykjavíkurborgar var boðið til þessara viðræðna og þeir hafa komið til viðræðna við okkur undanfarin ár eða síðan R-listinn tók þar við stjórnartaumunum. Það var ekki gert áður. Að þessu sinni sendi borgarstjórinn til okkar skriflega greinargerð um málefni Reykjavíkurborgar, í fyrsta lagi um fjárhagsleg samskipti, í öðru lagi fræðslumál, í þriðja lagi samgöngur, í fjórða lagi undirbúning að yfirfærslu á þjónustu fatlaðra, í fimmta lagi fasteignaviðskipti borgar og ríkis, í sjötta lagi sameiningu Reykjavíkur og Kjalarneshrepps og í sjöunda lagi heilsugæslu í Reykjavík.

Þetta er í rauninni það sama og aðrar sveitarstjórnir gera nema þær hafa komið og fylgt þessum greinargerðum eftir, þær eru misjafnlega ítarlegar, og rakið efni þeirra. Hins vegar er hér þessi setning: ,,Það er skemmst frá því að segja að þar hafa sjónarmið forustumanna borgarinnar í viðræðum við okkur mætt takmörkuðum skilningi og viðræðurnar lítinn árangur borið.`` Það er þetta sem hefur farið fyrir brjóstið á mönnum og ég verð að segja um þetta að mér finnst þetta auðvitað leitt. En þetta verður hver að meta fyrir sig. Reykjavíkurborg hefur vissulega ekki fengið allar sínar óskir uppfylltar fremur en önnur sveitarfélög sem koma til okkar en það verður auðvitað hver fyrir sig að meta hvernig erindum er fylgt eftir.

[18:45]

Síðan segir hér í bréfinu eftirfarandi:

,,Umfjöllunin er af augljósum ástæðum takmörkuð um þessi mál sem send eru sem greinargerð. En ég tel reynsluna hafa leitt í ljós að eigi hugur að fylgja máli þurfi viðræður forsvarsmanna borgar og fjárveitingavalds að fara fram við upphaf fjárlagagerðar en ekki lok hennar.``

Þarna tel ég að sé örlítill misskilningur á ferðinni að fjárln. fái fjárlagafrv. í hendurnar þegar þingið kemur saman að hausti. Auðvitað hefur það verið lengi í undirbúningi á vegum framkvæmdarvaldsins og á vegum ríkisstjórnarinnar og það er ekki á valdi nefndarinnar að ræða við sveitarstjórnarmenn þegar undirbúningur fjárlaga er að byrja vegna þess að þá er það einfaldlega ekki komið til okkar. Að vísu er ekkert því til fyrirstöðu fyrir Reykjavíkurborg að leita eftir viðræðum við ríkisvaldið um sameiginleg mál og það er auðvitað opin leið til þess að leita eftir viðræðum fyrr á árinu en þær viðræður þurfa þá að fara fram við framkvæmdarvaldið.

Það hefur reyndar verið siður á síðari árum, a.m.k. síðan ég kynntist störfum í fjárln., að viðræður hafa farið fram milli forsvarsmanna Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisvaldsins á meðan fjárlagagerð stendur yfir um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og niðurstöður af þeim viðræðum og þær tillögur sem ríkisstjórnin gerir í framhaldi af því samkomulagi koma oft inn á borð fjárln. Það hefur verið svo undanfarin ár.

Ég vildi rekja þetta af því að þetta hefur komið til umræðu í dag. Auðvitað finnst mér leitt ef borgarstjórinn í Reykjavík telur ekki svara kostnaði að tala við okkur en það verður hver að meta fyrir sig. Við munum að sjálfsögðu taka þá greinargerð sem kom frá borginni út af þessum málaflokkum sem ég hef nefnt til umræðu og ef ástæða er til leita eftir nánari upplýsingum. Þetta vildi ég láta koma fram í lok umræðunnar en eins og ég sagði í upphafi munum við fara yfir þær ábendingar sem hér hafa fram komið við 1. umr. málsins.