Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 19:11:08 (118)

1998-10-05 19:11:08# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[19:11]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað lyfjaverðið varðar þá fagna ég því að hæstv. ráðherra er loksins farin að átta sig á því að þessi lyfjalög sem hún lagðist mjög eindregið gegn hafa sannað gildi sitt. Hún ætlar að spara hér 120 milljónir á þessu ári án þess að leggja það á fjölskyldur í landinu vegna samkeppninnar. Þannig er það bara.

Í öðru lagi varðandi barnaspítalann. Ég er ekki að gera sérstakar athugasemdir við það, þetta tekur auðvitað allt sinn tíma. Ég vil hins vegar halda því til haga að hefðu menn farið þá leið sem ég lagði upp með á sínum tíma, að fara á alútboð, þá hefði verið hægt að ráðast í það verk mun fyrr og spítalinn væri sennilega upp kominn í dag. Í staðinn var sett á þunglamaleg nefnd sem hefur teiknað þetta fram og til baka, það tekur alltaf sinn tíma. Burt séð frá því fagna ég að loksins sjái fyrir endann á því máli, við sjáum a.m.k. fyrir endann á byrjuninni.

Hamingjan, hvar er hún? Ég þekki ekki þetta blessaða fólk sem ég las um í Morgunblaðinu. Ég er bara eins og hver annar lesandi. Þar var rætt við fjórar fjölskyldur. Hjá öllum þeim stóð það sama upp úr. Ég þekki ekki þessa gömlu konu sem hæstv. ráðherra talaði sérstaklega um. Vissulega veit ég að það eru ákveðnar reglur varðandi forgangsröðun í Danmörku. Þær eru umdeildar og við höfum ekki viljað taka þær upp. Auðvitað er þetta ekkert svart hvít mynd sem ég er að draga hér upp. Ég vek athygli á því --- það er stundum sagt að fólk kjósi með fótunum --- að þetta fólk hefur aldeilis kosið með fótunum. Það er bara farið til Danmerkur. Það er ekki vegna þess að við í stjórnarandstöðunni séum að segja því að fara. Ekki vegna þess að einhver sé að gylla þetta úti. Þetta fólk er í fiskvinnslu, það er í verkamannavinnu. Það aflar sér ekki milljóna á mánuði. Þetta er fólk sem berst í bökkum eins og þúsundir og tugþúsundir Íslendinga. Það sagði að þetta væri ekkert sældarlíf. Það sagði hins vegar að það væri mun einfaldara að láta enda ná saman þar heldur en hér heima. Það er bara sá veruleiki sem við okkur blasir.

Virðulegi forseti. Ég get ekkert gert að þessu. Þetta er bara svona.