Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 19:15:54 (121)

1998-10-05 19:15:54# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[19:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er alveg rétt eftir tekið hjá hv. 9. þm. Reykn. að ég minntist ekkert á skuldir heimilanna í þeim fáu orðum sem ég sagði áðan. Við skulum athuga þetta aðeins með þessa skuggalegu tölu sem hv. þm. fór með um skuldirnar.

Kaupmátturinn vex frá 1995--1999 um 23--25%. Viðskiptahallinn skýrist að töluverðu leyti af því að kaupmátturinn vex og fólk kaupir meira og eyðir meiru. Aðgengi að lánsfé er sífellt greiðara og menn eiga kost á margvíslegum lánum sem mönnum hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum. Menn geta farið í bifreiðaumboð og farið þaðan út með fínustu bíla án þess að borga krónu, t.d. Þetta er slæm þróun. Ég viðurkenni það.

Eitt er þó jákvætt og það er að skilin við lánastofnanir stórbatna, t.d. við Húsnæðisstofnun. Ég veit að hv. þm. hefur tekið eftir því. Fólki gengur miklu betur að standa í skilum en áður var.

Það er reyndar annað sem er dálítið merkilegt í þessu. Við settum upp ráðgjafarstofu í Lækjargötu 4 um fjármál heimilanna. Fólkið sem kom þangað til að byrja með var yfirleitt fólk með lágar tekjur, fólk sem hafði orðið fyrir einhverjum áföllum og misst vald á fjármálum sínum. Gerð hefur verið athugun á þeim sem fengu þar ráðleggingar fyrsta árið. Árangurinn er feiknarlega góður. Milli 60 og 70% hafa farið eftir ráðleggingunum og telja sig hafa náð valdi á fjármálum sínum.

Þeir sem eru hins vegar að koma núna á ráðgjafarstofuna, er yfirleitt fólk með háar tekjur, fólk með háar tekjur sem hefur skuldsett sig um of og ræður svo einn góðan veðurdag ekkert við skuldirnar sínar. Það er áhyggjuefni því að það kemur í ljós að ýmsir lifa um efni fram þrátt fyrir góðar tekjur.

Varðandi Íbúðalánasjóðinn þá skýrist það á næstu vikum hverjir verða ráðnir af starfsmönnum Húsnæðisstofnunar til hins nýja sjóðs. Ég ætla ekki að gefa forskrift um það hvaða menn það verða sem ráðnir verða. Ég veit um nokkra sem ekki munu óska eftir ráðningu hjá hinni nýju stofnun af núverandi starfsmönnum Húsnæðisstofnunar. En ég ætla ekki að gefa neina forskrift um það hverja eigi að ráða. Það er annarra að gera það. Það verður gengið í það alveg á næstu vikum að ganga frá ráðningum. Það er mjög nauðsynlegt að gera það því það er ekki viðunandi að menn séu í lausu lofti fram á síðasta dag. Ég vænti þess að gengið verði frá ráðningum alveg á allra næstu vikum.

Ég veit ekki hvort við eigum að fara að taka tíma í að tala um fólkið sem fann hamingjuna í Hanstholm. Sem betur fer hafa sumir fundið hamingjuna þar svo sem sést á viðtölum í Morgunblaðinu. Sumir fundu hana ekki og eru komnir til baka og ekki mjög vel settir allir, því miður, verð ég að segja, því að ég þekki sumt af þessu fólki sem fór til Hanstholm og er komið til baka. Það sótti ekki þangað gull eða græna skóga. Þetta fólk fór út með reynsluna frá fyrra kjörtímabili fyrst og fremst. Það hefur ekki verið mikill landflótti eftir að þessi ríkisstjórn tók við nema rétt á fyrstu mánuðunum. Ég hef enga trú á því að þó að bræðingurinn, eins og hv. þm. kallaði samfylkingu sína og Alþb., kæmist hér til valda að þá væri glæsilegra fyrir þetta fólk að koma heim. Ef hv. þm. les málefnaskrána sem þeir kynntu fyrir örfáum vikum síðan með pompi og pragt þá sér hann það sjálfur að hún er ákaflega dýr. Nú skal ég ekki fullyrða að hún kosti akkúrat 60 milljarða. Það má kenna forsrh. þá tölu. Ég svaraði því til að hún mundi kosta marga tugi milljarða þegar ég var beðinn að leggja mat á hana. En ég er ekki frá því að þessi áætlun hjá forsrh. sé nærri lagi enda er bræðingurinn önnum kafinn við að segja að hún hafi verið ómark og er reyna að éta hana ofan í sig og vill helst gleyma henni. En við höfum veturinn fyrir okkur til að ræða þessi atriði. Ég veit ekki hvort við eigum beint að vera að taka tíma í það núna í kvöld.