Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 19:22:14 (122)

1998-10-05 19:22:14# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[19:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sönnu hárrétt hjá hæstv. félmrh. að við eigum eftir að taka einhverjar rispur um samfylkinguna og þá pólitík sem hún mun fara fram með. En á einu skulum við standa alveg klárir, það verður ekkert í líkingu við það sem við erum að ræða hér, þ.e. þær áherslur í pólitík sem finna má í þessu fjárlagafrv. Þar kveður við annan tón.

Ég þakka svörin um Íbúðalánasjóðinn og heyri það á hæstv. ráðherra að hann er fullur vilja til þess að reyna að fá í þetta skýrar línur eins fljótt og nokkur kostur er og það er mjög mikilvægt. Þarna erum við að eiga viðskipti við fólk og þurfum að ganga þannig um dyr að allir geti komið þar standandi niður og með reisn.

Varðandi skuldir heimilanna, þá eru þetta svona almennar vangaveltur sem hæstv. félmrh. fer hér með líkt og ég gerði áðan. Því miður gerum við okkur ekki nógu glögga og heillega grein fyrir því hvað hér er á ferðinni. Þetta er sambland af mörgu. Ég veit að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur hjálpað mörgum. Ég hef lesið ágætt viðtal við forstöðumann þeirrar stofnunar um að sá skjólstæðingahópur sem þangað sækir hefur breyst. En það er ekki nema lítill hluti af því sem hér um ræðir. Þetta getur farið í báðar áttir. Hæstv. ráðherra bendir á að kaupmáttur hafi vaxið. En er það þá sjálfsögð fylgni að skuldirnar vaxi að sama skapi? Erum við að gefa okkur það að með auknum tekjum missi fólk tök á fjármálum sínum og fari að eyða og spenna? Er ekki alveg eins hægt að álykta sem svo að fólk eigi að nota þessa peninga og noti það flest til þess að greiða niður skuldir? Myndin er ákaflega óskýr. Ég vænti þess að hæstv. félmrh. reyni með einhverjum leiðum að skýra hana því að svona getur þetta ekkert gengið, að tugir milljarðar á hverju ári séu til hækkunar á skuldum heimilanna. Það endar með ósköpum.