Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 13:49:59 (128)

1998-10-06 13:49:59# 123. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að flytja þessa þáltill. hér í þriðja sinn. Hér er á ferðinni mikið mannréttindamál, að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Við verðum að viðurkenna það að heyrnarlausir og heyrnarskertir eru sérstakur málhópur, minnihlutamálhópur.

Hv. þm. Svavar Gestsson hefur lýst því vel í máli sínu hver staða þessa málhóps er en mig langar til að benda á nokkur atriði til viðbótar. Norðurlandabúi sem kemur hingað og þarf þjónustu í kerfinu er rétthærri til að fá túlkun á máli sínu en Íslendingur sem er heyrnarskertur eða heyrnarlaus. Við höfum gert samninga við Norðurlöndin um að túlkað sé af Norðurlandamálunum. En eins og kom fram áðan þá hefur heyrnarlausum Íslendingi verið vísað frá hjá sýslumanni vegna þess að ekki var unnt að túlka fyrir hann á þeim stað. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar svona staða er uppi og við verðum að rétta þeirra hlut.

Það er skýr vilji heyrnarlausra og heyrnarskertra að fá tungumál sitt, táknmálið, viðurkennt og það var til umræðu á málþingi þeirra á laugardaginn. Þar voru fyrirspurnir til fulltrúa stjórnvalda um þessi mál þar sem fulltrúi úr nefnd menntmrh. sat fyrir svörum og ég gat ekki heyrt að það væri raunverulegur vilji til þess að táknmálið yrði viðurkennt sem móðurmál. Ég hefði gjarnan viljað fá skýringar á því hvers vegna menn eru ekki afgerandi allir á þeirri skoðun að málið verði samþykkt, táknmálið verði viðurkennt. Meðan tungumál heyrnarlausra er ekki viðurkennt þá gengur þeim alls staðar illa að fá þjónustu.

Við getum nefnt sem dæmi að Tryggingastofnun ríkisins greiðir fyrir talþjálfun og talkennslu en hún greiðir ekki fyrir kennslu í táknmáli sem er tungumál þessa hóps. Foreldrar sem eignast heyrnarlaus eða heyrnarskert börn þurfa að læra táknmál til að geta haft samskipti við börn sín og það þurfa aðrir aðstandendur þeirra líka. Auðvitað þyrfti að greiða það eins og aðra þjónustu úr velferðarkerfinu.

Þess má líka geta í umræðu um þetta mál að umboðsmaður barna hefur kallað eftir því að táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál þessa hóps og að það séu skýlaus mannréttindi þeirra barna sem ekki heyra. Við verðum nefnilega að gera okkur grein fyrir því að þetta er hópur sem er fatlaður þangað til réttindi þeirra eru tryggð. Þegar við höfum tryggt réttindi þeirra þá getur þessi hópur tekið virkan þátt í samfélaginu. Þá getur hann farið af greiðslunum frá velferðarkerfinu. Þá getur hann tekið þátt í atvinnulífinu. Þetta er ódýrt fyrir okkur. Það er sparnaður fyrir samfélagið að tryggja þessum hópi þau réttindi sem honum ber því að þar með verður þessi hópur sjálfbjarga og kemst greiðar út í atvinnulífið og menntakerfið. Heyrnarlausir og heyrnarskertir hafa ekki aðgang að þjóðfélagsumræðu t.d. Þó svo að heyrnarlausir greiði hálft gjald fyrir útvarp og sjónvarp þá er alveg ljóst að útvarpið gagnast þeim ekki. En þeir greiða fyrir sjónvarpið og eru aðeins með tíu mínútna þátt á dag í fréttaumfjöllun. Það eru engar fréttaskýringar. Þessi hópur hefur engan aðgang að annarri þjóðfélagsumræðu.

Það hefur komið hér fram að búið er að taka á þessu máli hvað varðar réttindi sjúklinga en það þarf að taka á þessu máli mun víðar því að eins og komið hefur fram þá er verið að brjóta á þessum hópi.

Mig langar til að vitna aðeins í fréttabréf Félags heyrnarlausra sem okkur þingmönnum barst nú á dögunum þar sem ritstjórnarpistillinn fjallar mjög um þetta mál og þetta fréttabréf fjallar einmitt um mannréttindi. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að vitna aðeins í þennan ritstjórapistil í Fréttablaði Félags heyrnarlausra, sem lýsir vel upplifun heyrnarlausra, en þar segir:

,,Þema blaðsins að þessu sinni er um mannréttindi. Mannréttindi eru öllum sjálfsögð, líka heyrnarlausum, sem sagt öllu fólki. En hvað þýða mannréttindi fyrir okkur? Það er spurning sem við þurfum stundum að velta fyrir okkur en nú á dögum er auðvelt að svara henni. Ég mundi segja að mín mannréttindi sem heyrnarlaus einstaklingur séu að ég vilji þekkja mitt þjóðfélag, vera fullgildur meðlimur í þjóðfélaginu. En hef ég tækifæri til þess? Svarið við þessari spurningu kann kannski að vefjast fyrir mörgum en ekki fyrir mér. Mitt svar við þeirri spurningu er: Nei, ég þekki ekki mitt þjóðfélag. Ég fæ ekki að vera með. Fólki kann kannski að finnast það djarft af mér að kasta þessu svona fram blákalt vegna þess að við búum í velferðarþjóðfélagi. Ég mundi segja að við búum ekki í velferðarþjóðfélagi vegna þess að ég fæ ekki að fylgjast með íslensku sjónvarpsefni. Það er ekki textað nema kannski bara á hátíðisdögum. Ég er orðin þreytt á að vera fullgildur þjóðfélagsþegn bara á hátíðisdögum. Ég vil vera það alltaf, alla daga ársins. Með þessum orðum er ég að beina orðum 10--25 þúsund þjóðfélagsþegna til yfirvalda um að hefja strax textun á allt íslenskt sjónvarpsefni.``

Undir þetta ritar Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, ritstjóri Fréttablaðs Félags heyrnarlausra.

Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki hvers vegna Ríkisútvarpið hefur ekki enn tekið upp meiri textun fyrir þennan hóp því að það vita allir sem vilja það vita að þegar fréttir eru lesnar í sjónvarpi þá er búið að texta fréttatextann sem fréttaþulurinn les því að hann les hann af skjá sem rennur fyrir framan hann þegar hann er að flytja fréttirnar fyrir okkur í sjónvarpið. Hvers vegna er ekki hægt að nýta þá textun og láta hana renna fyrir neðan á sjónvarpsskjánum fyrir þann fjölda fólks sem eru heyrnarskertir eða heyrnarlausir? Það er nefnilega mjög stór hópur í samfélaginu, hátt í 25 þúsund manns sem býr við einhver skonar heyrnarleysi eða heyrnarskerðingu og getur ekki nýtt sér sjónvarpið að fullu hér á landi. Ég er alveg sannfærð um það að ef táknmálið yrði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra og það væri farið að taka tillit til þessa hóps sérstaklega þá yrðu þessi mál rétt við. Ég vil geta þess hér að í málefnaskrá samfylkingar A-flokkanna og Kvennalistans er það eitt af baráttumálum okkar að tungumál heyrnarlausra, táknmálið, verði viðurkennt á Íslandi.