Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 13:58:18 (129)

1998-10-06 13:58:18# 123. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er þriðja þingið í röð sem við ræðum þetta brýna mál og ég er afskaplega ánægð með að við ræðum þessa till. til þál. um að íslenska táknmálið verði viðurkennt móðurmál heyrnarlausra fyrst mála í dag vegna þess að við erum að taka fyrir fyrsta þingmannamálið, fyrsta almenna málið á eftir fjárlögum ríkisins sem voru á dagskrá í gær. Það fer vel á því að fyrsta þingmannamálið sem við ræðum sé réttindamál og réttindamál þess hóps sem hefur gengið svo illa að fá áheyrn sinna mála hjá stjórnvöldum á liðnum árum.

Ég styð þessa tillögu. Ég hef stutt hana frá því að hún kom fram og vil leggja mitt af mörkum til þess að það sé hægt að efla réttindi heyrnarlausra. Því ætla ég að koma aðeins inn á hvað þarf að fylgja með eins og flutningsmaður gat réttilega um áðan.

Í fyrsta lagi þarf að setja í lög að íslenska táknmálið sé viðurkennt móðurmál heyrnarlausra. Í öðru lagi verður að tryggja fjármuni til þess að þau lög verði virk og í þriðja lagi þarf að tryggja lágmarksfjölda táknmálstúlka og táknmálskennara til að fullnægja þessum þætti þannig að rétturinn sé tryggður. Allt þetta þarf að koma til til þess að sómi sé að því fyrir okkur að setja lög um réttindi heyrnarlausra.

[14:00]

Herra forseti. Þegar við ræddum þetta mál í fyrra fengum við sérstök viðbrögð frá menntmrh. og það eru þau sem ég ætla að gera að umtalsefni. Ég var að vona að hann yrði með okkur við þessa umræðu þannig að ég gæti beint til hans spurningum. En í umræðunni í fyrra sagði menntmrh. að það væri mikið álitamál hvort rétt væri að vísa tillögu eins og þessari til menntmrh. sérstaklega af því hér væri um að ræða ákvörðun um að viðurkenna táknmál sem móðurmál og það væri miklu víðtækara en svo að hún félli einvörðungu undir verksvið menntmrh. Ráðherrann lagði mikla áherslu á að samskiptamiðstöðin væri á vettvangi hans, að verkaskipting væri milli einstakra ráðuneyta og sá þáttur táknmálsins sem lyti að framkvæmd grunnskólalaga, framhaldsskólalaga og táknmál á háskólastigi félli undir verksvið hans en álitamál væri um annað. Ráðherrann benti á nefnd sem þá hafði nýlega verið sett á laggirnar sem sú er hér stendur á sæti í og er undir stjórn Sigríðar Önnu Þórðardóttur og er að fjalla um flutning félagslegra verkefna á heilbrigðissviði sem þyrfti að flytja af því sviði, t.d. yfir á félmrn. eða hugsanlega menntmrn. Forsrh. skipaði nefndina og fól þeirri nefnd m.a. að skoða önnur atriði er varða fatlaða sem menntmrh. óskaði að væru skoðuð. Nefndinni var líka falið að skoða framtíðarskipan túlkaþjónustu. Hin almenna túlkaþjónusta sem er utan við réttinn í skólunum og á sjúkrahúsunum er í molum. Um nokkurra ára skeið hefur verið veitt 2 millj. kr. til þessarar almennu túlkaþjónustu. Hin síðari ár hefur þurft með eftirgangsmunum að sækja þessar 2 millj. og því sakna ég menntmrh. að ég get ekki séð það í fjárlögunum að þar sé þessar 2 millj. að finna og tel að það eigi eftir að útkljá það af hálfu ríkisstjórnarinnar hvort einnig í ár verði settar 2 millj. til almennrar túlkaþjónustu. Þetta hangir saman við málið sem hér er flutt vegna þess að ekki væri nægilegt hjá Alþingi Íslendinga að lögbinda íslenska táknmálið ef aðrir þættir eru ekki tryggðir og fjármagn til þeirra.

Fram kom í máli menntmrh. í fyrra að nefnd sú er ég sit í, eigi að gera tillögur um framtíðarskipan, líka þess að lögfesta móðurmálið. En ég tek undir það með flm., ég tel að Alþingi eigi að taka afstöðu til þessa máls, líka þess vegna er mikilvægt að það sé flutt á fyrsta degi þingsins því að þá er erfitt að hamla gegn því að málið sé afgreitt frá Alþingi. Ef það er svo að það muni standa framgangi þessa máls fyrir þrifum að því hefur verið vísað til nefndar er ég sannfærð um að formaður þeirrar nefndar sem hér um ræðir mun flýta því að afgreiða þennan sérstaka þátt í starfi nefndarinnar. Það er ég sannfærð um og mun styðja hana í því.

Herra forseti. Flutningsmaður gat um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra sem var afskaplega mikilvægt mál þegar hún var sett á laggirnar og mikilvægt að henni sé tryggt fjármagn til starfseminnar. Í fyrra var fjármagn til samskiptamiðstöðvar lækkað. Það var lækkað um 3,4 millj. og sagt að það væri vegna þess að það drægi úr framlagi til náms táknmálstúlka vegna þess að þörf væri að verða fullnægt. Nú eru í fjárlögum ársins 16,6 millj. til þessa þáttar, 1,4 millj. meira en í fyrra. Samhliða þeim lið er nám táknmálstúlka sem fær 5,2 millj. samtals 21,8 millj. En þar segir að rekstrargjöldin hækki vegna aukinnar táknmálstúlkunar fyrir framhaldsskólanemendur. Ég vek athygli á því að ef af þessari fjárhæð er verið að leggja til 4 millj. vegna aukinnar táknmálstúlkunar fyrir framhaldsskólanemendur er hætt við að fjármagn skorti til annarra mikilvægra þátta sem samskiptamiðstöðin hefur á sinni könnu.

Herra forseti. Ég óska þess að forsrh., sem heiðrar okkur með nærveru sinni, og mér finnst mjög mikilvægt að hann sé viðstaddur þessa umræðu, ekki síst vegna þess að nefndin sem ég vísaði til er á verksviði hans, upplýsi okkur um það hvort þær 2 millj., sem hafa komið sem aukafjárveiting eða sérstök fjárveiting til almennrar táknmálstúlkunar, verði veittar í ár. Svo beini ég þeirri spurningu til flm. hvort e.t.v. eigi að vísa þessari tillögu til þeirrar nefndar sem fer með mál á verksviði forsrh. úr því að menntmrh. vék málinu af höndum sér í umræðunni hér í fyrra og þar sem nefnd forsrh. hefur fengið verkefnið sem ég hef gert að umtalsefni.