Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 14:12:11 (133)

1998-10-06 14:12:11# 123. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[14:12]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis láta í ljós stuðning við málið og þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að flytja það í þriðja sinn. Það kom skýrt fram á ráðstefnu um síðustu helgi og fjölmiðlaumræðu um hana að hér er um mjög mikilvægt mannréttindamál að ræða og það hafa átt sér stað umræður á vettvangi mannréttindamála sem styðja mjög að þessi tillaga fái raunverulegan framgang núna. Ég hef átt sæti í menntmn. undanfarin ár þegar þessi tillaga hefur komið til umfjöllunar og sama málsmeðferðin hefur verið á henni og öðrum stjórnarandstöðutillögum, að þær eru sendar út til umsagnar og þar við situr. Yfirleitt fá stjórnarandstöðumál mjög litla umfjöllun í menntmn. og málið hefur satt best að segja aldrei komist á umræðustig í þeirri nefnd. Mér finnst því mjög athyglisverð sú umræða sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir bryddaði upp á áðan að hæstv. menntmrh. hafi allt að því hafnað málinu í þingsal í fyrra, eða bent á að hugsanlega sé það betur komið hjá forsrh. Ég tel og mun beita mér fyrir því að í menntmn. verði málið ekki bara sent út heldur muni einnig verða aflað upplýsinga frá Svíþjóð en táknmál er viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra í Svíþjóð og ég mun beita mér fyrir því að afla upplýsinga þaðan til að átta okkur kannski betur á hvað þetta þýðir í reynd. Mér er t.d. ekki ljóst hver kostnaður verður af þessu eða hvort málið sé betur komið á forræði forsrh. eða menntmrh. Mér finnst að hvort tveggja geti komið til greina eins og er og ég hef heyrt tölur á bilinu 10 til 200 millj. Væntanlega fer það allt eftir útfærslu og hversu víðtæk þjónustan verður en ég held að allar forsendur séu til að ætla að við verðum að taka þessa kröfu alvarlega. Ekki er hægt að ætlast til þess, hvort sem heyrnarlausir einstaklingar eru 200 eða fleiri, að þeir geti búið í þessu þjóðfélagi og við lyftum ekki litla fingri til að hjálpa þeim að verða alvöruþátttakendur í því.

Ég vil sem sagt, herra forseti, taka undir þessa kröfu og mun gera mitt til þess að málið fái alvörumeðferð í menntmn.