Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 14:18:07 (135)

1998-10-06 14:18:07# 123. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. sem hér hafa rætt og undirstrika þann skilning minn að hér sé um þýðingarmikið mál að ræða, hér sé fjallað um réttindamál sem eru þýðingarmikil fyrir tiltekinn hóp í þjóðfélaginu til að gera honum kleift og fært að standa, þrátt fyrir tiltekna hömlun, sem næst jafnfætis þeim sem ekki búa við slíka hömlun. Það er örugglega ríkur vilji til þess hjá þingheimi að gera sitt ýtrasta til að brúa það bil. Við höfum stigið jákvæð skref í þá veru á undanförnum árum. Þau hafa bætt hér úr en engu að síður er það rétt sem þetta frv. byggir á að þar skortir enn töluvert.

Ég tel mikilvægt að menn leiti með jákvæðum huga lausna í þeim anda sem frv. byggir á. Jafnframt þurfum við að hafa það fullkomlega ljóst með hvaða hætti það yrði útfært, áður en endanleg ákvörðun er tekin, hvaða kostnaður þarf að falla til og hvort menn séu tilbúnir að leggja hann fram í allra næstu framtíð. Menn geta ekki leyft sér þann munað að ákveða eingöngu rammann án þess að gera sér grein fyrir útgjöldunum. Ég held reyndar ekki að það búi að baki hjá flm. Hann er hér að leggja drög að bættri réttarstöðu sem ég held að við öll eigum að geta sameinast um að finna flöt á.