Réttarfarsdómstóll

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 14:34:29 (138)

1998-10-06 14:34:29# 123. lþ. 4.2 fundur 4. mál: #A réttarfarsdómstóll# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki fremur en hv. flm. að leggja mat á það tilefni sem greint er um að hafi leitt til þess að þetta frv. var flutt. Ég ætla þó að minna á eins og hv. flm. gerði einnig að á undanförnum árum hefur í meginatriðum allri löggjöf sem lýtur að meðferð mála fyrir dómstólum og lögregluyfirvöldum verið gerbreytt þannig að ýmislegt af því sem menn hafa fundið með talsverðum rétti að framgangi réttvísinnar á sínum tíma á nú að heyra sögunni til.

Það er rétt sem hv. flm. segir að þær efnisreglur sem lúta að endurupptöku mála snúast um mjög mikilvæg mannréttindi. Að vísu er það meginregla í réttarkerfi okkar og víðast hvar í hinum vestræna heimi að málum er lokið í eitt skipti fyrir öll fyrir dómstólum og mikilvægir hagsmunir eru í því fólgnir, það er meginreglan. En fram hjá hinu verður ekki litið að það kunna að vera mjög veruleg mannréttindi í húfi að geta tekið upp mál þannig að fyrir það sé girt að saklausir menn sitji uppi með dóm sem eru ekki rök fyrir.

Þau atriði sem þarf að hafa í huga að mínu mati eru fyrst og fremst þrjú, þ.e. hvaða almennu skilyrði eiga að vera til þess að unnt sé að taka upp mál, í annan stað hverjir eiga að taka slíkar ákvarðanir og í þriðja lagi hvaða málsmeðferðarreglur eiga að gilda þegar slík mál koma til úrlausnar.

Ég er almennt þeirrar skoðunar að rétt skref hafi verið stigið á sínum tíma að fækka sérdómstólum og reyndar ýta þeim með öllu út úr kerfi okkar. Ég dreg mjög í efa að rétt sé að fara inn á þá braut á nýjan leik og við mat á frv. eins og þessu hljóta menn að fjalla um þau almennu sjónarmið sem liggur að baki þeirri stefnumörkun. Þá er á það að líta hvaða almennu skilyrði eiga að vera fyrir því að unnt sé að taka upp mál. Í fljótu bragði sýnist mér að í þessu frv. sé byggt á svipuðum efnisreglum og eru fyrir hendi í dag. Sums staðar eru þessar efnisreglur rýmri eins og bæði í Danmörku og Noregi þar sem endurmat á sönnun getur komið til álita við endurupptöku máls en þá er á það að líta að þar eru aðstæður með öðrum hætti þar sem sönnunarmat er í höndum leikmanna en ekki löglærðra dómara og það er að einhverju leyti ástæðan fyrir því að í þeim löndum er endurupptakan rýmri að þessu leyti. En hér getur Hæstiréttur einnig tekið með vissum hætti afstöðu til þess sönnunarmats sem fram hefur farið á lægra dómstigi, en þar sem kviðdómur eða leikmenn hafa kveðið upp úrskurð um sönnunarmatið á lægra dómstigi eins og í Danmörku kemur það ekki til mats hæstaréttar. Við slíkar aðstæður, þar sem áfrýjunardómstóllinn tekur ekki afstöðu til atriða eins og þessara, kann að vera eðlilegt að hafa rýmri endurupptökureglur en við höfum stuðst við. En þetta eru þó alltaf atriði sem menn þurfa að hafa í skoðun og er mikilvægt að menn glöggvi sig á á hverjum tíma.

Síðan eru þær reglur sem gilda um það hvernig staðið er að málsmeðferð. Hér er til að mynda ekki alveg ljóst hvað niðurstaða Hæstaréttar í þessum efnum heitir. Síðast þegar slík ákvörðun var tekin var hún kölluð úrlausn ef ég man rétt og er í sjálfu sér einhvers konar úrskurður. Ég held að full ástæða sé til þess að setja gleggri reglur um málsmeðferð og hvers konar athöfn það er þegar mál er endurupptekið og enn fremur að setja skýrari reglur um rétt dómþola sem leggur mál að nýju undir mat dómstóla. Hæstiréttur gerði það í því máli sem hér hefur verið vitnað til að skipa sérstakan talsmann dómþola við ákvörðun um það hvort mál skyldi endurupptekið. Það er ekki skylt að lögum en mér sýnist að það séu mjög gild rök fyrir því að setja alveg sérstakar reglur um slík atriði.

Það er því ljóst að mínu mati að það er ýmislegt varðandi þessar reglur sem ástæða er til að skoða þó að ég hafi vissar efasemdir um það hvort setja eigi á fót sérstakan dómstól í þessu skyni. Réttarfarsnefnd hefur haft fjölmörg mál á sinni könnu. Að undanförnu hefur það verið forgangsmál að ljúka umfjöllun og tillögugerð varðandi nýjar lagareglur að því er varðar brotaþola en næsta stóra verkefni að því loknu er endurskoðun á löggjöfinni um meðferð opinberra mála. Ég hef litið svo á að þær reglur sem lúta að þessum atriðum falli að þeirri endurskoðun og sé mikilvægur þáttur í þeirri endurskoðun og ég hef gert ráð fyrir að þessi atriði komi öll þar til skoðunar og umfjöllunar í þeirri nefnd sem öðru fremur hefur á undanförnum árum mótað nýjungar í réttarfari okkar sem hefur síðan verið fjallað um á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Ég vil aðeins koma þessum sjónarmiðum á framfæri við upphaf umfjöllunar um þetta mál á þinginu að þessu sinni.