Réttarfarsdómstóll

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 14:48:40 (140)

1998-10-06 14:48:40# 123. lþ. 4.2 fundur 4. mál: #A réttarfarsdómstóll# frv., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[14:48]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka þær ágætu undirtektir sem þetta frv. hefur fengið, bæði frá hæstv. dómsmrh. og hæstv. forsrh. Ég tel að þeir hafi í grófum dráttum lýst stuðningi við þá stefnu málsins sem hér er um að ræða þó svo að um fyrirkomulagið megi að sjálfsögðu hafa ýmsar skoðanir og eðlilegt sé að menn velti því fyrir sér.

Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh. að í þessu frv. er gert ráð fyrir svipuðum efnisreglum að því er varðar hugsanlega endurupptöku mála og eru í lögum í dag. Hins vegar er hér aðeins tekið öðruvísi á málsmeðferðinni og síðan er lagt til að stofnaður verði sérstakur dómstóll.

Nú verð ég að segja það eins og er að ég leitaði lengi að heiti á þessari stofnun vegna þess að ég hef kannski ekkert endilega áhuga á því að þessi stofnun heiti dómstóll af því að hún er mjög sérstök miðað við okkar réttarkerfi þannig að ég held að gjarnan megi líta svo á að hér sé um að ræða sérstaka nefnd sem ætti að réttu lagi að heita úrskurðarnefnd í réttarfarsmálum. Það er kannski einum of brotamikið heiti en það er það sem hér er átt við. Þess vegna finnst mér að það mætti kannski velta málinu fyrir sér út frá því hvort menn vilja kannski gefa þessu eitthvert annað heiti. Ég segi líka fyrir mig að ef hæstv. ríkisstjórn og hæstv. dómsmrh. vilja flytja hér annað frv. um líkt efni og telja þannig auðveldara að koma málinu í gegnum þingið þá skiptir það mig nákvæmlega engu máli.

Ég tel líka að mjög miklu máli skipti þær afdráttarlausu og sögulegu yfirlýsingar sem komu fram í ræðu hæstv. forsrh. sem hljóta að vekja mikla athygli með hliðsjón af því að þessi Guðmundar- og Geirfinnsmál eru ofarlega í huga þjóðarinnar. Þó að mörg ár séu liðin frá því að þau voru til meðferðar þá sitja þau talsvert mikið í okkur öllum geri ég ráð fyrir. Ég var blaðamaður á þeim árum þegar um þessi mál var fjallað og fékk m.a. ákúrur fyrir það sem slíkur að ég sinnti þeim ekki sem skyldi, gæfi þeim ekki eins mikið pláss og þau ættu að fá. Þá vorum við dálítið á valdi æsifréttamennskunnar og tilfinninganna að mér fannst stundum og því miður verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst að hlutur Alþingis í því máli hafi kannski ekki verið alveg nægilega góður og að það sé til nokkurrar eftirbreytni að reyna að læra af því þannig að við lendum ekki aftur í því vegna þess að það er slæmt (SJS: Voru þetta einhverjir sérstakir þingmenn?) fyrir þjóðina. Hv. þm. sem kallar fram í var þá ekki kominn á þing enda ungur að árum. Það er slæmt fyrir þjóðina eins og kunnugt er að Alþingi, að stjórnmálamenn taki sér dómsvaldið í hendur. Það er slæmt og það er alveg sama hver í hlut á. Ég hygg að það sé eitt það versta sem gæti gerst fyrir þessa þjóð ef menn ætluðu sér að fara að kveða upp efnisdóma í málum í þessari stofnun. Það má aldrei gerast, ekki heldur í málum af því taginu sem að einhverju leyti eru undirrót þessa frv. sem hér er flutt þó svo að það sé ekki eina ástæðan fyrir því vegna þess að á bak við frv. eru fyrst og fremst almennar mannréttindaástæður.

Ég þakka að öðru leyti fyrir góðar undirtektir.