Ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 14:52:42 (141)

1998-10-06 14:52:42# 123. lþ. 4.4 fundur 10. mál: #A ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[14:52]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir lítilli þáltill. sem ber yfirskriftina: Tillaga til þingsályktunar um ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort rétt sé að færa saman undir eitt ráðuneyti málefni lífeyrissjóða og lífeyrissparnaðar, almannatrygginga, félagslegrar framfærslu og vinnumarkaðsmála, a.m.k. það sem lýtur að atvinnuleysisbótum og málefnum atvinnulausra. Sérstaklega verði hugað að kostum þess og göllum að gera slíka breytingu á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins með hliðsjón af þörfum fyrir samræmingu á þessu sviði.``

Hér er um að ræða endurflutta tillögu, herra forseti, frá síðasta þingi en hún varð þá eigi útrædd enda kom hún fram síðari hluta vetrar. Ég bind vonir við að a.m.k. tímaskortur verði mönnum ekki fjötur um fót við að fá botn í þetta einfalda mál, þ.e. hvort vilji sé fyrir hendi til þess á Alþingi að fela ríkisstjórninni og þá væntanlega forsrh., en undir hann heyrir verkaskipting innan Stjórnarráðsins, að gera úttekt á, eins og segir í tillgr., kostum þess og göllum að gera þessa skipulagsbreytingu.

Það er ljóst, herra forseti, að veruleg skörun er á verksviði ráðuneyta í málum sem snerta þetta svið, lífeyris- og framfærslusviðið. Lífeyristryggingarnar á einum stað, í fjmrn., almannatryggingarnar eru hjá heilbr.- og trmrn. og síðan eru málefni atvinnulausra og framfærslustuðningur sveitarfélaga o.fl. hjá félmrn. Samspil þessara þátta bæði innbyrðis og við skattkerfið er mjög flókið og það er kunnara en frá þurfi að segja að tekjutenging bótaliða innan og utan skattkerfisins er mjög margþætt og flókið mál.

Það er skoðun mín eftir að hafa nokkuð skoðað þessi mál að eitt af því sem hefur staðið löngu tímabærri endurskoðun og samræmingu fyrir þrifum sé þessi dreifing málaflokksins innan Stjórnarráðsins.

Enginn vafi er á því heldur í mínum huga að betri nýting fjármuna og skýrari mörk gætu hjálpað til í þeim efnum að ná betur utan um stjórn á þessu sviði. Ég tel hvort tveggja koma til greina að stofna nýtt ráðuneyti sem færi með þennan málaflokk í heild sinni --- það væri þá í raun og veru einhvers konar velferðarmálaráðuneyti --- eða fela einu ráðuneyti og þá væntanlega helst félmrn. að taka að sér allan þennan málaflokk. Færa má fyrir því ýmis rök að þetta væri heppilegast vistað þar. Hvað heilbrrn. varðar þá er þar þegar á ferðinni gífurlega umfangsmikið ráðuneyti sem hefur ærinn starfa og mikla forvöltun fjármuna þó að almannatryggingahlutinn bætist ekki við þau 35--40% sem heilbrigðismálin taka til sín. Það er ekki að öllu leyti heppilegt að mínu mati að fjmrn. sem fer með skattamál og mundi að sjálfsögðu gera einnig hvað varðar tekjutengingar á bótaliðum og stuðning innan skattkerfisins, fari jafnframt með málefni lífeyrissjóðanna. Síðast en ekki síst er það sem snýr að sveitarfélögunum í þessum efnum mikilvægt og vill oft gleymast svo ekki sé talað um þá aðila sem eru utan Stjórnarráðsins og fá því miður í vaxandi mæli á sínar herðar verkefni þessu tengd. Þá er ég að vitna til þess sem hjálparstofnanir og frjáls félagasamtök inna af höndum og er vissulega hluti af því öryggisneti sem segja má að velferðarkerfið samanstandi af.

Ég, herra forseti, er þeirrar skoðunar að það sé a.m.k. fullrar athygli vert og einnar messu virði ef svo má að orði komast að fara yfir það hvort akkúrat núverandi verkaskipting í þessum efnum sé hin heppilegasta. Ég veit að það þarf ekki að nefna við hv. þm. tölur um umfang þessa málaflokks. Telji menn of í lagt að sérstakt ráðuneyti sem við gætum kallað velferðarmálaráðuneyti, trygginga- og framfærslumálaráðuneyti eða hvað við kysum að kalla það, færi með þessi mál þá leyfi ég mér að nefna nokkrar tölur því til rökstuðnings að þetta yrði umsvifalaust væntanlega annað stærsta ráðuneytið í útgjöldum á eftir heilbrrn. ef þessi mál yrðu færð undir einn hatt og í rauninni án þess að við tökum inn í það þá veltu sem er í lífeyrissjóðakerfinu. Þar er að sjálfsögðu á ferðinni sjálfstæður sparnaður einstaklinganna sem ekki þarf endilega að færa undir eða flokka sem hluta af hinum opinberu útgjöldum á þessu sviði nema þá ef menn kjósa að gera svo í tilviki lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna.

Ritið Búskapur hins opinbera er ein ágæt bók og kemur út hér í landi og ég hef nýjast undir höndum hefti frá því í nóvember 1997. Þar er fjallað um búskap hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, opinberra aðila í heild á árunum 1995--1996. Þar er t.d. tafla sem sýnir útgjöld hins opinbera til almannatrygginga og velferðarmála og í ljós kemur að félagsmálaútgjöld hins opinbera eru alls 41,9 milljarðar kr. á árinu 1996 og þar af er það sem flokkast undir þessi mál beint og er utan skattkerfisins, þ.e. sjúkra-, mæðra- og örorkubætur upp á tæpar 1.800 millj., elli-, örorku- og ekkjulífeyrir upp á 16,5 milljarða og atvinnuleysisbætur upp á 3,2 milljarða. Hér eru á ferðinni yfir 20 milljarðar kr. af rúmlega 40 milljarða útgjöldum til almannatrygginga og velferðarmála. Ef við lítum á tekjutilfærslur hins opinbera þá voru þær 33 milljarðar kr. á árinu 1996 eða 6,8% af landsframleiðslu. Við erum þar af leiðandi ekki að tala um neinar smátölur, herra forseti, þegar við ræðum þetta.

Mér sýnist að undir það málasvið sem ég er að fjalla um mundu falla beint a.m.k. 25 milljarða útgjöld sem flokkast undir trygginga- og velferðarmál og þar fyrir utan liggja greiðslur lífeyrissjóðanna sem hér þarf einnig að hafa í huga. Heildargreiðslur lífeyrissjóða til sinna félagsmanna, iðgjaldagreiðslur eða heildargreiðslur á árinu 1997, voru um 10,5 milljarðar kr. og skiptust þannig að í lífeyri eða ellilífeyri voru greiddir 6,4 milljarðar, í örorkulífeyri 1,9 milljarðar, í makabætur um 2 milljarðar og í barnalífeyri um 200 millj. Það lætur nærri að þessi útgjöld verði þá á árinu 1998 í lífeyrissjóðakerfinu um 12 milljarðar miðað við lauslegan framreikning, þ.e. um 1 milljarður kr. í hverjum mánuði ársins.

[15:00]

Þar af leiðandi er ljóst, herra forseti, að við erum hér að tala um málasvið sem veltir mjög háum fjárhæðum og er umtalsverður hluti af ráðstöfun þjóðarverðmæta okkar, eða af stærðargráðunni 35--40 milljarðar kr. hið minnsta, lauslega reiknað.

Við gætum einnig litið í fjárlagafrv., ef menn kjósa svo, t.d. á útgjöldin hjá þessum tveimur ráðuneytum, þ.e. félmrn., sem er með Atvinnuleysistryggingasjóð og þau mál. Atvinnuleysisbæturnar einar eru upp á tæpa 2,3 milljarða á þessu ári og veltan í tryggingabótunum er um 5 milljarðar í bótum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og um 17,5 milljarður í lífeyristryggingunum sjálfum. Þetta eru nokkrar tölur, herra forseti, til að rökstyðja hversu umfangsmikill málaflokkur er hér á ferðinni og þar af leiðandi mikið í húfi að vel takist til við að halda utan um þessa fjármuni og nýta vel og þó meira væri. Ég hef þó ekki komið inn á það sem væri auðvitað tilefni mikillar umræðu, að mörgum þykir sinn hlutur rýr út úr þessu kerfi. Það er dapurleg staðreynd að mitt í góðærinu skuli ásóknin í úrlausn hjá hjálparstofnunum og félagasamtökum utan hins skipulega velferðarkerfis vera jafnmikil og raun ber vitni.

Ég vil einnig nefna, herra forseti, að það vill svo merkilega til, enda tilviljanirnar oft skrýtnar, að einmitt í dag birti dagblaðið Dagur forsíðufrétt þess efnis að verið væri að vinna að því innan heilbr.- og trmrn. að semja drög að nýrri löggjöf og þar væri það merkast nýmæla í vændum að svokölluðum félagslegum öryrkjum yrði úthýst úr tryggingakerfinu. Samkvæmt fréttinni er ætlunin að reyna að byggja á einhvers konar skilgreiningu á þeim grunni að eingöngu þeir öryrkjar sem búi við það sem kallað er ,,læknisfræðilega örorku`` yrðu áfram innan opinbera tryggingakerfisins, öðrum ætti þá að vísa á félagsmálastofnanir sveitarfélaganna eða framfærslu sveitarfélaganna.

Mér finnst ástæða til að staldra við þessa frétt, án þess að ég hafi nú neitt fyrir mér um málið nema þessa forsíðufrétt Dags og tek auðvitað enga ábyrgð á áreiðanleik þess fréttaflutnings og enn síður á því orðbragði sem þar er haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum. Ég verð að segja að mér leiðist að sjá á prenti vissa hluti af því tagi sem þar eru birtir, eins að vandamálið snúist um letingja í bunkum sem séu í þessu kerfi, fólk sem sé sérstaklega að svindla sér inn í tryggingakerfið o.s.frv.

Eftir stendur að séu menn í trmrn. með vangaveltur af þessu tagi þá er það til marks um landamæradeilur í kerfinu sem eru afleiðing þess að málaflokkurinn er á tvist og bast í Stjórnarráðinu. Þarna eru menn að reyna að ýta af sér viðfangsefnum og koma þeim yfir á aðra, ýta hópum út úr opinbera tryggingakerfinu yfir á sveitarfélögin. Ég held að allir hljóti að sjá að það er eitthvað að ef menn nálgast málin svona. Ef það á að verða sparnaðarráðstöfun, eða hvað annað sem þarna vakir fyrir mönnum, að færa hópa til á grundvelli skilgreininga af þessu tagi, sem ég hef auðvitað fullan fyrirvara á, og hægt sé að draga menn í dilka eftir því hvort þeir séu félagslegir eða læknisfræðilegir öryrkjar. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að það fer nokkur hrollur um mig þegar ég reyni að geta mér til um það sem er á ferðinni, hvaða hugarheimur býr að baki vangaveltum af þessu tagi.

Herra forseti, þetta eru mér enn frekari rök fyrir því að ástæða sé til að velta alvarlega fyrir sér hvort þetta er skynsamlegt og skilvirkt fyrirkomulag sem við búum við í þessum efnum. Er ekki ástæða til að yfirfara það?

Að lokum, herra forseti, er ljóst að um er að ræða málaflokk sem eykst mjög hratt að umfangi í ráðstöfun þjóðarverðmæta okkar á komandi árum. Til þessa málaflokks munu stórauknar fjárhæðir renna nú ár frá ári. Það stafar einkum af tvennu, sem þó er auðvitað hvort öðru tengt. Annars vegar fer öldruðum hratt fjölgandi, breytt aldurssamsetning í samfélaginu mun að sjálfsögðu skila hlutföllum sem eru í ætt við það sem gerist í nálægum þjóðfélögum. Reyndar erum við Íslendingar þar dálítið seinna á ferðinni, aldurssamsetning þjóðfélagsins hér hefur breyst hægar en gerist t.d. á hinum Norðurlöndunum. Fæðingartala hefur verið hærri hér og kannski gengur aldurssamsetningin aldrei alveg jafnlangt í þá átt og hún hefur þegar gert t.d. í Svíþjóð og Þýskalandi, að hlutfall aldraðra verði jafnhátt miðað við heildarmannfjölda eða þá sem eru á vinnumarkaði. En þarna eru hlutföllin að breytast.

Hitt kemur líka til og er önnur meginástæðan fyrir því að þarna þarf að veita stóraukna fjármuni á komandi árum. Það er auðvitað uppbygging lífeyrissparnaðarins í landinu, sem á hinn bóginn mun draga eitthvað úr umfangi opinbera tryggingakerfins. Gegnum þetta kerfi munu á komandi árum renna stórauknir fjármunir að raungildi en líka sem hlutfall af ráðstöfun þjóðarverðmæta okkar. Þar af leiðandi, herra forseti, er ég sannfærður um að eitt af mikilvægustu atriðunum til þess að undirbúa velferðarkerfi okkar fyrir þá framtíð sem blasir við í þessum efnum er að stjórnkerfið sé skipulagt og skilvirkt.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að ítreka að lokum þá ósk mína að þetta fái skoðun hjá hv. nefnd. Væntanlega er skynsamlegast að allshn. þingsins taki þetta til umfjöllunar þó að til greina kæmi að málið færi til heilbr.- og trn., eða þess vegna í efh.- og viðskn. Við nánari umhugsun er kannski rétt að flm. fái að hugleiða aðeins á milli funda, herra forseti, um hvaða nefnd verði gerð tillaga.

Málið sem slíkt fær vonandi efnislega skoðun og afgreiðslu hér á þinginu og ég vænti þess einnig að hæstv. forsrh., sem er hér viðstaddur, undir hann heyrir verkaskipting innan Stjórnarráðsins og jafnframt er hann um þessar mundir starfandi hæstv. fjmrh., bregðist vel við, verði það niðurstaða Alþingis að samþykkja að fela ríkisstjórninni að skoða þetta mál. Það færi vel á því að ný ríkisstjórn á komandi kjörtímabili fengi niðurstöður af slíkri úttekt í sínar hendur þegar hún hæfi störf.