Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 15:08:58 (142)

1998-10-06 15:08:58# 123. lþ. 4.5 fundur 15. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[15:08]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir frv. til laga um rétt til launa í veikindaforföllum. Flm. ásamt mér er hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir. Frv. gerir ráð fyrir breytingu á tveimur lögum. Fyrst ber að telja breytingu á lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, nr. 19/1979, þar sem gert er ráð fyrir að aukið verði við tveimur greinum. Í fyrsta lagi að tvær málsgreinar bætist við 5. gr. laganna. Þær eru svohljóðandi:

,,Til forfalla frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa samkvæmt lögum þessum teljast hvers kyns aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar af læknisfræðilegum ástæðum, rannsóknir og önnur meðferð að læknisráði, enda þótt launamaður hafi ekki verið óvinnufær við upphaf læknismeðferðar.

Heilbrigðir líffæragjafar njóta réttar til launa í forföllum frá vinnu vegna líffæragjafar í samræmi við ákvæði laga þessara.``

Og síðan önnur grein, sem er umorðun á 8. gr., svohljóðandi:

,,Nú vill launamaður neyta réttar síns skv. 4.--6. gr. og skal hann þá, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda vottorð læknis er sýni að forföll hafi verið óhjákvæmileg, sbr. og ákvæði 5. mgr. 5. gr.`` sem einnig er verið að breyta með ákvæðum frv.

Hér er verið að skýra í lögum og kveða á um atriði sem hafa verið mjög umdeild og ekki náð fram að ganga, verið álitamál. Hins vegar hafa gengið dómar í þessum málum þar sem fjallað hefur verið um álitaefni og túlkun á gildandi lögum um þetta efni raunar verið óljós. Með frv. er meiningin að kveða það skýrt á um þetta að réttarstaðan verði ljós og styrkist launamanninum í vil.

Hinn þáttur frv., sérstakur kafli, er um breytingu á sjómannalögum nr. 35/1985. Þar er umorðun á 36. gr. laganna og efnislega er um að styrkja ákvæði sem varðar réttindi sjómanna ef þeir forfallast og geta ekki sinnt sínum störfum, að þeir missi ekki réttindi við það, að þeir njóti skýrrar réttarstöðu þó að þeir hafi forfallast vegna veikinda.

Í greinargerð með málinu er rakin þróun undanfarinna ára og athygli vakin á auknu misrétti sem orðið hefur milli einstakra hópa launafólks varðandi rétt til launa í veikindaforföllum. Bent er á að það byggist annars vegar á því að lögbundinn réttur verkafólks og sjómanna á þessu sviði hafi verið túlkaður mjög þröngt og hins vegar á því að þessum hópum hafi ekki verið tryggður réttur í samræmi við þróun á sviði nútímalækninga. Sem dæmi er nefnt að starfsmenn ríkis og bæja fá greidd laun í 15 daga vegna fjarveru af völdum tæknifrjóvgunar og á hver starfsmaður rétt á slíkum greiðslum einu sinni.

Sé litið til þessarar þróunar er langt frá því að verkafólk og sjómenn njóti slíks réttar og í raun hefur þróunin í heild leitt til þess að verkafólk og sjómenn hafa nú lakari rétt en almennt gerist og lakari rétt en ráða má af lagafyrirmælum. Þannig hafa hugtökin ,,sjúkdómur`` og ,,óvinnufærni`` í lögum nr. 19/1979 og lögum nr. 35/1985, þ.e. sjómannalögum, verið túlkuð afar þröngt af dómstólum. Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að lögin tryggi þeim ekki rétt sem að læknisráði gangast t.d. undir hjartaþræðingu eða rannsókn vegna magasárs. Fjarvistir vegna munnskurðaðgerðar, kjálkaaðgerðar eða ísetningar nýs gerviauga hafa ekki verið taldar veita rétt til launa í veikindaforföllum. Þá hefur tæknifrjóvgun ekki talist til greiðsluskyldra forfalla þótt ófrjósemi kunni að stafa af sjúkdómi, en eins og að framan er getið fá opinberir starfsmenn greidd laun í forföllum vegna tæknifrjóvgunar.

Með breytingum á þessum lögum er leitast við að bæta stöðu hinna fjölmennu starfsstétta sem hér um ræðir að því er þetta snertir og virðist það sanngjarnt miðað við þróun almennt í þjóðfélaginu.

Þetta frv. hefur verið flutt hér á þingi nokkrum sinnum áður og um það hefur verið fjallað í félmn. þingsins. Fyrir liggja umsagnir frá ýmsum aðilum í þessu máli, einkum frá aðilum vinnumarkaðarins. Þær umsagnir sem borist hafa bera vott um að þar beri mikið í milli. Það hefur leitt til þess að félmn. hefur ekki afgreitt málið hingað til. Mér finnst einnig skorta svolítið á að þau fjölmennu samtök sem gæta hagsmuna umræddra stétta hafi tekið þessi mál upp af þeim þunga sem þyrfti að vera til að fá tryggðar og viðurkenndar þær réttarbætur sem hér er um að tefla.

[15:15]

Auðvitað eru þetta ekki fjölmennir hópar sem þetta mál varðar og kostnaðarauki sýnist ekki eiga að verða mikill þótt þessar réttarbætur yrðu innleiddar. Ég tel því að hér sé fyrst og fremst um sanngirnisatriði að ræða sem full ástæða sé til að lögfesta á Alþingi. Þess vegna er þetta mál enn endurflutt í von um að félmn. fjalli um málið og skili niðurstöðu í málinu. Ég tel að mikil þörf sé á því að við fáum afgreiðslu af hálfu nefndarinnar. Auðvitað kunna að vera einhverjar aðrar leiðir færar til að ná þessum markmiðum en hér er vísað til en ef svo er ætti hv. þingnefnd að koma því á framfæri við þingið. Ég legg sem sagt til, virðulegur forseti, að að lokinni umræðunni gangi þetta frv. til hv. félmn. og vænti þess að við eigum eftir að sjá það aftur á dagskrá þessa þings.