Réttur til launa í veikindaforföllum

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 15:16:31 (143)

1998-10-06 15:16:31# 123. lþ. 4.5 fundur 15. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# (breyting ýmissa laga) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[15:16]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þetta frv. er um margt athyglisvert og vil ég þá einkum koma þar að sem lýtur að sjómannalögunum. Ég tel að það hafi verið nokkurt vandamál umliðinna ára þegar sjómenn hafa þurft að fara í land vegna krankleika en þó ekki legið ljóst fyrir hvort hægt væri að skilgreina beint sem sjúkdóm eða veikindi sem viðkomandi aðila þjáði. Þá hafa oftar en ekki komið upp vandamál við að menn hafi getað leitað réttar síns til veikindalauna. Mér finnst þetta mál því athyglisvert og tel eðlilegt og rétt að það fái góða umfjöllun. Hins vegar greinir mig og flm. aðeins á um hvert skuli vísa málinu. Ég tel að breytingin á sjómannalögunum hljóti að falla undir samgn. Það sé eðlilegt að hún komi þar til umfjöllunar en hv. félmn. hefur vissulega um málið að fjalla sem snýr að lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests og launa vegna sjúkdóms, ég efa það ekki en nú er það svo að samgn. Alþingis fjallar um sjómannalögin. Þetta er mál sem þarf að skoða og ég teldi því ekki óeðlilegt að báðar nefndirnar fengju málið til umfjöllunar. Segja má að þetta sé nokkurs konar bandormur vegna réttinda launafólks og þá líka sjómanna en ég endurtek það sem ég sagði áðan, málið er þess eðlis að það þarf virkilega að fá skoðun í nefndinni. Margir sjómenn hafa oftar en ekki lent í vanda vegna þess að réttur þeirra hefur ekki verið nægilega tryggur.

Sjómenn hafa oftar en ekki staðið frammi fyrir þeim vanda að hafa komið í land og jafnvel á skipi sem er úti í fjórar vikur í einu, verið veikir í fimm vikur eða á sjöttu viku og þá hafa læknar útskrifað viðkomandi aðila að hálfu leyti, sagt að þessi viðkomandi aðili væri fær til léttra starfa þótt hann væri ekki að fullu frískur. Það þýðir einfaldlega að maður sem hefur ekki stundað nein önnur störf en sjómannsstörf kann að lenda í miklum vanda. Hann er fallinn út af tryggingabótum og á ekki rétt til launa hjá útgerðinni og fær ekki heldur starf við sitt hæfi. Vandamálið er því stórt og kemur víða við en ég vildi aðeins beina þessu til þeirra flm., hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og Bryndísar Hlöðversdóttur, hvort ekki sé rétt að beina þessum málum m.a. til samgn., að breyting á sjómannalögum fari einnig til þeirrar nefndar.