Þjónustugjöld í heilsugæslu

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 15:38:40 (146)

1998-10-06 15:38:40# 123. lþ. 4.7 fundur 18. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[15:38]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um að fella niður þjónustugjöld í heilsugæslu. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi án þess að verða útrætt og það er því endurflutt hér en ýmsar nýjar upplýsingar um málið koma fram í greinargerð. Meðflutningsmenn eru hv. þingmenn Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon en öll eigum við sæti í þingflokki óháðra.

Ég vil geta þess hér að þetta frv. var á síðasta þingi og þinginu þar á undan, ef ég man rétt, flutt af þingflokki Alþb. og óháðra og má segja að það sé nokkurt stílbrot af minni hálfu að hafa ekki leitað eftir meðflutningsmönnum úr þeim röðum vegna þess að við höfum sameiginlega barist fyrir þessu máli og ég veit að svo er enn. Þar eru á ferðinni mistök af minni hálfu þannig að ég hefði viljað hafa þetta á annan veg.

Hér er gert ráð fyrir tveimur lagabreytingum, breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum. Þar er gert ráð fyrir að breyta 2. mgr. 20. gr. laganna sem mundi orðast svo, með leyfi forseta:

,,Ekki eru tekin gjöld fyrir þjónustu heilsugæslunnar við einstaklinga. Um þjónustu sem aðrir greiða fer eftir sérstakri gjaldskrá sem ráðherra setur.``

Síðan er lögð til breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Hún orðast á þennan veg, með leyfi forseta:

,,Í stað fyrri málsliðar 66. gr. laganna koma tveir málsliðir, svohljóðandi:

Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerð. Í reglugerðinni er þó ekki heimilt að leggja gjöld á þá einstaklinga sem leita þjónustu heilsugæslunnar.``

Nú er þess fyrst að geta að komugjöld í heilsugæslunni eru hluti af miklu stærri mynd. Það olli miklum deilum í þjóðfélaginu þegar sú ríkisstjórn sem þá sat, ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl., ákvað að koma þessum gjöldum á og auka við þau gjöld sem áður voru fyrir. Röksemdin að baki komugjöldunum var sú að þau væru líkleg til að skapa kostnaðarvitund, eins og það var kallað, hjá sjúklingum, auk þess sem þau mundu afla heilsugæslunni tekna og ýmsir frjálshyggjumenn höfðu á orði að þetta gæti greitt fyrir almennum skattalækkunum. Í þjóðfélaginu var þetta hins vegar gagnrýnt mjög harkalega á þeirri forsendu að verið væri að hverfa frá samtryggingu sem heilbrigðisþjónustan á Íslandi væri byggð á og að það væri siðferðilega rangt að freista fólks með skattalækkunum á kostnað þeirra sem þyrftu aðstoðar við. Þá var bent á rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis og hafa leitt í ljós að þjónustugjöld í heilsugæslunni eru mjög vandmeðfarin. Reynslan sýnir að ef þjónustugjöld væru mjög há þá gætu þau fælt tekjulágt fólk frá því að leita sér aðstoðar í heilbrigðisþjónustunni eða annars staðar þar sem slík gjöld eru en ef gjöldin væru lág væru áhöld um það hvort skrifræðið og fyrirhöfnin væru erfiðisins virði og hvort þetta borgaði sig hreinlega fjárhagslega.

Ýmis rök mæla með því að byrja á því að afnema þjónustugjöld í heilsugæslunni. Heilsugæslan er grunnþjónusta heilbrigðisþjónustunnar og á það hefur verið bent að greiður aðgangur að henni geti orðið til þess að draga úr sérfræðikostnaði þannig að á sama hátt og leidd voru rök að því hér í máli sem ég flutti áðan um breytingar á almannatryggingalögum, um breytta greiðsluhlutdeild hins opinbera í tannlækniskostnaði, þá gæti þetta leitt til sparnaðar þegar fram líða stundir.

Samkvæmt fjárlagafrv. er áætlað að þessi kostnaður nemi árlega um 260 millj. kr. Þetta er vissulega umtalsverð upphæð. En ekki er ólíklegt að þetta gæti borgað sig þegar fram líða stundir og hvað sem því líður og hvað sem kostnaðinum líður þá er hér á ferðinni mikið réttlætismál og komið hefur fram að mikill meiri hluti Íslendinga er á því máli einnig.

[15:45]

Í ítarlegustu skoðanakönnun sem framkvæmd hefur verið hér á landi um afstöðu Íslendinga til velferðarþjónustunnar kemur fram að yfirgnæfandi meiri hluti er því fylgjandi að fallið verði frá þessum þjónustugjöldum í heilbrigðisþjónustunni og hún algerlega fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum landsmanna með skattfé. Það er athyglisvert þegar borin er saman sambærileg könnun sem gerð var fyrir tæpum 10 árum, árið 1989, að hlutfall þjóðarinnar sem er á þessu máli, að afnema beri þjónustugjöldin, hefur aukist.

Árið 1989 voru um 60% andvíg þjónustugjöldunum og hlynnt fjármögnun úr skattpyngjunni en í könnuninni sem var gerð núna í haust á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir BSRB kemur fram að 71% þjóðarinnar er því fylgjandi að þjónustugjöldum verði létt af og heilsugæslan fjármögnuð með skattfé.

Það er líka merkilegt í þessari könnun að almennt er fólk á því að það beri að efla félagslega þjónustu, beri að efla heilbrigðisþjónustuna og aðra þætti velferðarþjónustunnar, jafnvel þótt þetta kostaði auknar skattálögur. Þetta finnst mér athyglisvert og eykur manni bjartsýni að þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem við búum við, þrátt fyrir stjórnarfarið og þá stefnu sem hefur verið keyrð fram, nýtur hún ekki fylgis hjá meiri hluta þjóðarinnar. Það er síðan umhugsunarefni hvers vegna þjóðin fylgir ekki þessu áliti sínu eftir í kjörkassanum en við vonum að þar verði breyting á þegar gengið verður til kosninga næsta vor.

Í umfjöllun heilbr.- og trn. þingsins sem fékk þetta mál til skoðunar á síðasta þingi var leitað til ýmissa aðila um álit á þessu frv. Í gögnum nefndarinnar kemur fram að allir þeir sem tjáðu sig um málið hafi verið því mjög eindregið fylgjandi að það yrði samþykkt. Er þar vísað í stærstu samtök launafólks í landinu, vísað í stjórn Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna sem mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt, og hér leyfi ég mér að vitna orðrétt í umsögnina:

,,Stjórnin telur að nægjanleg rök séu færð fyrir samþykktinni í greinargerð með frumvarpinu og hefur engu við hana að bæta. Rétt þykir þó að taka fram að sjaldan er leitað til almennrar heilsugæslu með börn sem fengið hafa krabbamein og því er ekki talið að þær breytingar á lögum um almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu sem hér um ræðir komi fjölskyldum þeirra sérstaklega til góða. Umsögn SKB miðast því fyrst og fremst við hinn almenna notanda í heilsugæslu.``

Í greinargerð frá Umhyggju, félagi til stuðnings sjúkum börnum, segir, með leyfi forseta:

,,Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu hafa álögur á sjúka og aðstandendur þeirra aukist á undanförnum árum þegar um rannsóknir ásamt þjónustu heilsugæslu og heimilislækni er að ræða. Þetta á við í fleiri tilfellum og nægir þar að nefna lyfjakostnað og þjónustu sérfræðinga sem dæmi. Auknar álögur vegna heilbrigðisþjónustu þegar um langsjúk börn er að ræða koma afar illa við aðstandendur þeirra. Ástæðan er sú að foreldri eða foreldrar barnsins minnka við sig vinnu eða hætta að vinna í lengri eða skemmri tíma til þess að geta annast það sem best. Með öðrum orðum verður viðkomandi fjölskylda fyrir nánast óbættri tekjurýrnun sem er afleiðing af því að barn greinist með sjúkdóm eins óréttlátt og það hljómar (alla vega í eyrum þeirra sem verða fyrir því). Á sama tíma eykst kostnaður af ýmsum orsökum og ekki hætta gluggaumslögin að koma inn um bréfalúguna. Afleiðingin er fjárhagserfiðleikar, mismiklir að vísu eftir aðstæðum hvers og eins.

Alvarlega sjúk börn njóta þjónustu sérfræðinga í flestum tilfellum og því skiptir frumvarp það sem hér er til umfjöllunar ekki meginmáli en sá hópur er afmarkaður. Reyndar breytist sú fullyrðing ef um systkin er að ræða sem þurfa á heilsugæslu að halda. Hins vegar er algengt að langveik börn, sem ekki eru talin alvarlega sjúk, þurfi alloft á þjónustu heilsugæslu að halda og kæmi samþykkt frumvarpsins fjölskyldum þeirra án nokkurs vafa til góða sem nokkurs konar kjarabót þótt augljóst sé þeim sem vilja skilja hlutina að talsvert meira þarf að koma til ef fullnægja á réttlætinu í þessu sambandi. Er þar einkum átt við að nauðsynlegt er að fjölga launuðum frídögum launþega sem þarf að sinna sjúku barni sínu.

Niðurstaða stjórnar Umhyggju er sú að hér sé um þarft frumvarp að ræða og því er eindregið mælt með því að það verði samþykkt. Ekki þykir ástæða til að leggja til breytingar á frumvarpinu.``

Í umsögn Félags ísl. heimilislækna um frv. segir, m.a.:

,,Komugjöld voru tekin upp fyrir einum fimm árum. Mikil ábyrgð, skriffinnska og vinna felst í að innheimta þau og standa á þeim skil. Settur var á stofn svonefndur 10% sjóður en andvirði hans skyldi einkum varið til þess að endurmennta starfsfólk.

Þótt komugjöld megi að ýmsu leyti rökstyðja og æskilegt sé að kostnaðarvitund almennings sé sem mest er samt staðreynd að fyrir marga sjúklinga geta fjárútlát fyrir heilbrigðisþjónustu orðið umtalsverð. Hefur því verið mætt m.a. með því að gefa út afsláttarkort til þeirra sem verst eru settir. Fylgir því einnig mikil skriffinnska og vinna og fjöldinn er gífurlegur því að árlega eru gefin út hátt í 30.000 kort. Einstaklingar sem afsláttar njóta eru þó enn fleiri, jafnvel yfir 50.000.``

Þetta var úr umsögn Félags ísl. heimilislækna en hér er vikið að því sem ég kom inn á hér í upphafi máls míns að það hlýtur að vera áleitin spurning hvort það sé fyrirhafnarinnar og kostnaðarins virði að ráðast í þessar innheimtur og Félag ísl. heimilislækna setur þarna ákveðin spurningarmerki. Eitt af því sem ég set hins vegar spurningarmerki við er ábending þeirra um kostnaðarvitund almennings. Ég skrifa ekki upp á slíkt. Ég vil hins vegar stuðla að kostnaðarvitund lækna og allra þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustunni og reyndar samfélagsins alls, þeirra sem skipuleggja þessa þjónustu, Alþingi sem setur lögin og almennar reglur og framkvæmdarvaldið sem stýrir hendi en ég frábið mér að við köllum eftir kostnaðarvitund hjá veiku fólki.

Ég legg til, hæstv. forseti, að þessu frv. verði vísað til heilbr.- og trn. Alþingis.