Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 15:55:39 (147)

1998-10-06 15:55:39# 123. lþ. 4.8 fundur 21. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[15:55]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég flyt þetta frv. til laga um slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands ásamt þeim hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, Pétri H. Blöndal, Einari K. Guðfinnssyni og Árna R. Árnasyni.

Þetta er í þriðja skipti sem þetta frv. er flutt á hinu háa Alþingi. Það hlaut ekki afgreiðslu hvorki á þinginu í fyrra né hittiðfyrra. Það hafa orðið um þetta þó nokkrar umræður í bæði skiptin sem málið var flutt þannig að ég gæti orðað það sem svo að efnislega væri kannski óþarfi að mæla fyrir því. Segja má að þetta mál sé löngu útrætt en ég tel brýnt að það komi til afgreiðslu, til samþykktar eða synjunar.

Í aðalatriðum fjallar þetta mál um það að gagnkvæmt tryggingafélag hættir starfsemi sinni. Í fyrstu gerist það meðeigandi að nýju tryggingafélagi en selur síðan sinn hlut í því og er núna bara handhafi þeirrar sölu. Það er sem sagt hætt störfum eins og það var stofnað til. Slit á þessu félagi er því fyrst og fremst spurning um prinsippmál. Það er spurning um afstöðu manna til séreignarréttarins en í íslenskum lögum, svo og allri löggjöf Norður-Evrópu, liggur það fyrir að gagnkvæm tryggingafélög eru eign þeirra sem tryggja. Þeir bera ábyrgð á skuldbindingum þess og eignum. Þar sem félagið hefur hætt starfsemi teljum við flutningsmenn að það beri að slíta því og deila eignum þess meðal hinna réttu eigenda. Um þetta eru mýmörg dæmi frá Vestur-Evrópu á síðustu árum og áratugum en þetta hefur átt sér stað þannig.

Það er ekki spurning um það, herra forseti, hverjir það eru, hvort það eru stórir hlutir eða litlir hlutir, heldur er það afstaðan til þess sem verður að taka, afstaðan til eignarréttarins að hann sé ekki fótum troðinn heldur sé hann virtur. Samfélag okkar byggist í grundvallaratriðum á þessum séreignarrétti. Ef hann er ekki virtur, þá stæðist fátt. Því er það mjög brýnt, herra forseti, að þetta mál fái að koma til afgreiðslu á þinginu þannig að ljóst sé hver afstaða hinna einstöku þingmanna er til þess. Sérstaklega er brýnt að vekja athygli á því þar sem ég varð fyrir miklum vonbrigðum á hinu fyrra þingi að þetta mál gat ekki fengið afgreiðslu. Eflaust hefur það verið vegna röð óhappa að það atvikaðist svo, en ég geri ráð fyrir því að þetta mál geti fengið núna mjög fljóta afgreiðslu. Hér er kosningaþing sem við köllum svo. Það eru kosningar að vori og því held ég að það sé mjög nauðsynlegt að það komi fram mjög skýrt hver er vilji þingsins til máls eins og þessa, það sé mjög nauðsynlegt fyrir þjóðina í heild að gera sér grein fyrir því hverjir vilja virða séreignarréttinn eða hverjir vilja líta fram hjá honum.

Það er nú þannig að ef menn vilja ekki viðurkenna séreignarréttinn og vilja líta fram hjá honum í einu máli þá er sannfæring mín að þeim sé ekki að treysta í neinu öðru máli. Því legg ég þetta frv. fram, herra forseti, og legg til að það fari til umfjöllunar hjá efh.- og viðskn. þingsins.