Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 16:08:49 (151)

1998-10-06 16:08:49# 123. lþ. 4.8 fundur 21. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[16:08]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert skýra grein fyrir sinni afstöðu í þessu máli og vissulega er honum heimilt að hafa þá skoðun sem hann telur rétta og hann telur sig geta rökstutt eins og hann hefur gert hér ágætlega.

Ég vil aðeins í þessu samhengi vitna til niðurstöðu Árna Tómassonar og Tryggva Gunnarssonar. Hæstaréttarlögmaðurinn Tryggvi Gunnarsson, sem nú er eftir því sem mér skilst að taka við embætti umboðsmanns Alþingis, er einn af þekktari mönnum á sviði eignarréttar hér á Íslandi. Ég vitna hér til 4. tölul., með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af því hversu óvirkt og óvisst hugsanlegt tilkall félagsmanna BÍ er til eigna BÍ verður að telja líkur á að löggjafinn geti án þess að það fari í bága við ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar mælt fyrir um ráðstöfun á eignum BÍ í þágu þeirra markmiða, ...``

Löggjafinn hefur nú --- gerði það 1994 --- mælt fyrir um ráðstöfun þessara eigna og byggði það m.a. á áliti manna eins og Tryggva Gunnarssonar og fleiri. Það er alveg ljóst að hv. þm. Pétur H. Blöndal er ósammála þessum mönnum. Það er ekki mitt að dæma um það hvor þeirra hafi rétt fyrir sér en ég þori þó að fullyrða að Tryggvi Gunnarsson og hans menn sem hafa unnið í þessu hafa meiri reynslu á því sviði að meta hvenær eignarrétturinn er í samræmi við stjórnarskrána og hvenær ekki.