Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 16:17:18 (154)

1998-10-06 16:17:18# 123. lþ. 4.8 fundur 21. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[16:17]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ekkert við því að segja þó menn séu misjafnlega sáttir lagafrumvörp. Það verður alltaf að hafa sinn gang. Ég ætla heldur ekki að svara fyrir þá sem stóðu að þessari lagasetningu árið 1994, ég var ekki hér. Þeir hljóta að afstöðu og geta staðið fyrir henni. Ég þarf ekkert að svara fyrir það. Þeir hafa eflaust reiknað með því að þetta félag mundi halda áfram þeirri starfsemi sem það var bundið í upphafi. Ég geng út frá því. Annars svari hver fyrir sig.

Ég tel hins vegar, herra forseti, alveg ljóst að þessi hlutur hefur verið seldur. Það getur vel verið að eitthvað sé ógreitt af því. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta var en þeir hafa þegar afsalað sér atkvæðisrétti og hafa hann ekki, hvort sem eignarhluturinn er að fullu greiddur eða ekki. Það skiptir ekki máli.

Við flytjum þetta frv. til þess að fullnusta því sem ég sem flm. og aðrir hv. meðflytjendur, teljum alveg óyggjandi, að eignarrétturinn sé eins og hann hefur verið skilgreindur í lögunum, að afhenda beri réttum eigendum tryggingafélagsins sinn hlut hvort sem hann er stór eða lítill. Þeir eru náttúrlega að stórum hluta sveitarfélögin sjálf. Við metum það svo að það eigi að gera það, öll rök leiði til þess, án tillits til þess hvort góðir menn og gegnir sitji í þessum sjóði. Það skiptir engu máli. Þetta eru hinir réttu eigendur og ber að afhenda þeim peningana í þessu tilfelli eins og öllum öðrum þegar um slík mál er að ræða.