Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 13:54:12 (162)

1998-10-07 13:54:12# 123. lþ. 5.8 fundur 42. mál: #A sveitarstjórnarlög# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[13:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Frv. til sveitarstjórnarlaga var lagt fram á síðasta þingi, líklega snemma í nóvember, ég man ekki dagsetninguna og hef ekki sinnt um að finna hana. Ég held að það hafi verið tekið til 1. umr. 18. nóv. þannig að málið var lengi fyrir þinginu. Það var ekki afgreitt fyrr en 28. maí, eins og ég sagði áðan, og vegna anna á skrifstofu Alþingis var það ekki sent til félmrn. fyrr en 2. júní. Það er því ekki nein handarbakavinna í félmrn. sem olli þessum töfum, það voru miklar annir hjá hinu ágæta starfsfólki á skrifstofu Alþingis og það er sjálfsagt orsökin fyrir því að frv. fór ekki til félmrn. fyrr en gildistökudagur var liðinn.

Svo ég svari þeim spurningum sem fram komu taldi ráðuneytið vissara að eyða efa ef um efa skyldi verða að ræða. Það hefur einn hæstaréttardómur, að vísu í gjörsamlega óskyldu máli, það var í refsimáli, verið byggður á því að lög hefðu ekki verið komin í gildi þar sem ekki var búið að birta þau í Stjórnartíðindum. Þó að um óskylt mál væri að ræða vildum við eyða öllum efa gjörsamlega og þess vegna var sú ákvörðun tekin að setja bráðabirgðalög.

Við höfum enga ástæðu til að ætla að sveitarstjórnir hafi ekki starfað í fullum rétti þessa daga í júní og fram í júlí og engar kærur hafa borist ráðuneytinu um gerðir sveitarstjórna á þeim tíma, þ.e. þar sem sveitarstjórnir hafa dregið í efa að þær væru að vinna í fullum rétti. Ég vil biðja hv. þm. að vera ekki að álasa skrifstofu Alþingis fyrir þann drátt sem varð á skrifstofuvinnunni við fullgildingu laganna.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. Ögmundar Jónassonar er það ekki ég sem félmrh. heldur er það hæstv. umhvrh. sem kemur til með að leggja fram frv. til breytinga á skipulags- og byggingarlögum. Mér er kunnugt um að hann hyggst gera það næstu daga og þá kemur það til umræðu í þinginu innan mjög fárra daga. Ég tel mjög mikilvægt að það dragist ekki að frv. hljóti afgreiðslu. Ég veit ekki um gildistökudag þess frv. en ég vænti þess að það líti dagsins ljós innan örfárra daga og vonast eftir að það hljóti afgreiðslu a.m.k. fyrir jól.