Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 14:14:58 (165)

1998-10-07 14:14:58# 123. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[14:14]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hér reifar hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir mjög athyglisvert mál sem þó vekur nokkrar spurningar í brjósti mér, sjálfsagt vegna þess að ég er ekki allt of vel að mér í þessum fræðum. Ýmis hugtök sem hér er talað um vekja vissar spurningar, eins og kynjuð hugsun, ef hún gæti skýrt það út í örstuttu máli hvað felst í kynjaðri hugsun. Einnig mundi ég vilja að hún kæmi örlítið betur inn á þetta samþættingarhugtak. Hvað þýðir samþættingarhugtakið í þessari tillögu, ef hún vildi skýra hugtakið örlítið betur út fyrir mér og þingheimi sem kannski hefur ekki skilið þetta til fullnustu.

Ég spyr líka: Hvað sér hv. þm. fyrir sér að þessi námskeið taki langan tíma? Það vakna líka spurningar hjá mér um hvort íslenskt stjórnkerfi býður upp á að hægt sé að skikka eða skylda biskup Íslands til þess að taka þátt í námskeiði sem þessu. Ég spyr líka um hæstaréttardómara. Getur íslenskt stjórnkerfi skikkað íslenska embættismenn til þess að taka þátt í slíku námskeiði? Ég endurtek að hér er um mjög merkilegt og athyglisvert mál að ræða en mér þætti vænt um að fá örlítið nánari útskýringar á þessum hugtökum.