Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 14:16:37 (166)

1998-10-07 14:16:37# 123. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., Flm. GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[14:16]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hér er stórt spurt og efni í marga fræðilega fyrirlestra en ég skal gera mitt besta á þeirri mínútu eða tveimur sem ég hef. Kynjuð hugsun er þýðing á enska hugtakinu ,,gendered thinking`` og þýðir að litið er á þjóðfélagið og reynt að horfa á það frá sjónarhóli karla annars vegar og kvenna hins vegar. Ég held að t.d. í predikun séra Sigríðar í Dómkirkjunni á þingsetningardaginn hafi þetta komið mjög vel í ljós þegar lesið var úr Gamla testamentinu og sagan síðan endursögð frá sjónarhóli viðkomandi konu. Það var mjög gott dæmi um kynjaða hugsun að mínu mati.

Þá er það samþætting. Oft er talað um að jafnréttismál séu mál á jaðrinum. Þeir sem hafa áhuga á jafnréttismálum eru að vinna að sérmálum og það eru gjarnan nokkrar konur í hverju þjóðfélagi sem verða sérfræðingar í þeim málum. En hugmyndafræði samþættingar gengur út á að þetta sé málasvið sem flytjist inn í miðju stjórnmálanna og að jafnréttismálin verði samþætt alls staðar inn í skólamálin, inn í heilbrigðismálin og inn í öll mál, þannig að þetta verði ekki bara sérhæfður lítill málaflokkur, heldur málaflokkur sem verði miðlægur eins og t.d. fjármál, þ.e. komi inn í öll mál. Samþætting er þýðing á ,,mainstreaming`` og táknar að sviðið færist og verði miðlægt en ekki sérmál.

Spurt var um hve langan tíma þessi námskeið taka. Þau hafa verið skipulögð í Svíþjóð sem fjögurra til sex tíma námskeið, þá gjarnan tvískipt. Fyrst er almennur hluti og síðan sérhæfður miðað við viðkomandi stofnun. Loks eru þau endurtekin reglulega, kannski árlega eða svo.

Það að skikka menn, hvort sem það eru biskup Íslands eða aðrir yfirmenn, til að mæta er auðvitað umdeilanlegt. Það var einmitt hugsunin hjá Monu Sahlin í Svíþjóð. Ég held að það sé mjög mikilvægt að skilgreina þetta fyrir æðstu ráðamenn þannig að það þyki merki um háa stöðu að mæta á þessi námskeið því þau séu bara fyrir æðstu ráðamenn. (Forseti hringir.) Fólk fann þetta fljótt og þeir sem líta á sig sem einstaklinga í mikilvægum störfum mættu á þessi námskeið. Þessi aðferð virkaði vel og ég er alveg sannfærð um að hún gæti líka verið áhrifarík hér.