Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 14:19:18 (167)

1998-10-07 14:19:18# 123. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þessar útskýringar. Ég var svo óheppinn að vera á vegum Vestnorræna ráðsins úti í Noregi einmitt þegar þingsetningin fór fram þannig að ég missti því miður af ræðu séra Sigríðar. En ég er kirkjurækinn maður og hver veit nema ég læri betur um þessa svokölluðu kynjuðu hugsun ef ég verð enn duglegri að mæta í guðsþjónustur, ég tala nú ekki um hjá kvenprestum. Við erum svo heppin t.d. í Rangárþingi að vera með tvo ágæta kvenpresta þannig að þær gætu hugsanlega kennt mér þessi fræði enn betur. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að útskýra þessi hugtök fyrir mér. Ég mun hlusta með athygli á umræðurnar áfram og verð væntanlega margs vísari. Ég endurtek að mér finnst málið merkilegt og þess virði að fylgjast vel með því.