Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 14:50:48 (174)

1998-10-07 14:50:48# 123. lþ. 5.10 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[14:50]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 41 hef ég lagt fram tillögu til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að undirrita nú þegar Kyoto-bókunina fyrir Íslands hönd, bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Svavar Gestsson, Svanfríður Jónasdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Þessi tillaga var flutt í lok síðasta þings af fjórum þingmönnum þingflokks jafnaðarmanna en þá náðist ekki að mæla fyrir henni. Nú er tillagan endurflutt, lítillega breytt, af hálfu þingmanna úr þingflokki jafnaðarmanna, Alþýðubandalagsins og Kvennalista. Hér er um að ræða sameiginlega tillögu þeirra flokka sem nú vinna að sameiginlegu framboði til næstu alþingiskosninga. Efni þessarar tillögu, um að Kyoto-bókunin verði staðfest, er meðal efnisatriða í nýlega birtri málefnaskrá þessara þriggja flokka. Þannig má segja, herra forseti, að þetta sé fyrsta þingmálið sem samfylkingin leggur fram hér á hinu háa Alþingi sem hefur beina skírskotun í málefnagrunninn.

Íslendingar eru aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar en bókunin sem kennd er við borgina Kyoto í Japan er gerð við þann samning. Í bókuninni er mótuð alþjóðleg stefna um að þjóðir heimsins skuldbindi sig til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

Kyoto-bókunin felur í sér að iðnríkin skuldbinda sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hún verði rúmlega 5% minni á tímabilinu 2008--2012, miðað við árið 1990, en það ár er viðmiðunarár í samningnum. Skuldbindingar eru mismunandi hjá einstökum ríkjum. Sum ríki verða að draga úr losun allt að 8% en öðrum ríkjum er heimil meiri losun, allt að 10% meiri miðað við viðmiðunarárið. Íslendingar fengu rýmstar heimildir allra þjóða og er okkur heimil 10% meiri losun í Kyoto-bókuninni.

Að minnsta kosti 55 ríki þurfa að staðfesta samninginn til að hann öðlist gildi og í þeim hópi verða að vera iðnríki sem bera ábyrgð á að minnsta kosti 55% af útblæstri iðnríkjanna. Íslenska ríkisstjórnin hefur tekið þá ákvörðun að undirrita ekki Kyoto-bókunina, sem er þvert á stefnu nágrannalandanna. Nú hafa flest ríki í Evrópu undirritað samninginn, öll Evrópusambandsríkin og Norðmenn svo nokkur séu nefnd, auk fjölmargra annarra ríkja. Sú stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að undirrita ekki Kyoto-bókunina heldur bíða framhaldsráðstefnu sem verður haldin í Buenos Aires í haust, er að mati okkar flutningsmanna algerlega röng.

Íslendingar eiga að axla ábyrgð í umhverfismálum með öðrum þjóðum og laga stefnu sína innan lands að þessum breyttu viðhorfum. Vitaskuld hafa Íslendingar nokkra sérstöðu m.a. vegna þess að húshitun með hitaveitu er langt komin hérlendis meðan aðrar þjóðir kynda hús sín með útblástursmengandi orkugjöfum. Við notum tiltölulega mikla orku m.a. í sjávarútvegi og í samgöngum sem ræðst af atvinnuháttum hérlendis. Vitaskuld er hér fámenni og þar með lítið hagkerfi. Einstakar framkvæmdir geta þannig virkað hlutfallslega íþyngjandi hvað varðar þær skuldbindingarnar sem kveðið er á um í Kyoto-bókuninni.

Um þriðjungur af útblæstri okkar er vegna fiskiskipaflotans og annar þriðjungur vegna samgangna. Við getum dregið úr þessu með markvissum aðgerðum. Auk þess sem hægt er að draga út áhrifum mengunar með aukinni gróðurrækt og skógrækt en bæði er rætt um landgræðslu og skógrækt í tengslum við Kyoto-bókunina. Aukin tækni, betri vélar og minni orkusóun munu að hluta til leysa þetta vandamál. Þá opnast möguleiki við hina nýju stefnu að taka upp mengunargjöld hérlendis eins og fjölmargar aðrar þjóðir hafa gert, til dæmis að leggja á koldíoxíðskatt. Fyrsta flokks tækifæri gafst til að leggja á mengunarskatt í anda Kyoto-bókunarinnar síðastliðið vor þegar stóð til að breyta þungaskatti í almennt olíugjald. Við jafnaðarmenn lögðum til að olíugjald yrði útfært á alla olíu sem hefði verið fyrsti vísir að mengunarskatti hér á landi. Ríkisstjórnin féllst ekki á þessa lausn, endurvakti hið gamla þungaskattskerfi og lét þetta tækifæri ganga sér úr greipum.

Hægt er að benda á fjölmarga þætti sem tengjast endurbótum á umferð og geta hjálpað okkur við að uppfylla kvaðir Kyoto-ráðstefnunnar. Þróun á sviði bílavéla, hvort sem þær eru knúnar vetni eða rafmagni, er gott dæmi um það þótt vitaskuld sé enn nokkuð í land með að slík faratæki verði almenningseign. Flest ríki heimsins vinna nú mjög að nýjum aðferðum til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Það er til skammar, herra forseti, að við skulum ekki taka þátt í þessari vörn gegn umhverfisskaða eins og önnur ríki sem mörg hver eiga mun erfiðara við að uppfylla kvaðir Kyoto-bókunarinnar.

Ríki heimsins hafa áfram fundað um hnattrænar aðgerðir til að sporna gegn frekari upphitun lofthjúpsins. Þannig funduðu nýlega ráðherrar frá fjölda ríkja, þar á meðal öllum Evrópusambandsríkjunum, Bandaríkjunum, Rússlandi og fleiri ríkjum, um framhald þessa máls og undirbúning fyrir ráðstefnuna í Buenos Aires.

Þess má geta að hluti af Kyoto-bókuninni fjallar um viðskipti með mengunarkvóta en búist er við að þau viðskipti verði heimiluð þótt enn hafi þau ekki verið útfærð nákvæmlega. Ritt Bjerregaard sem fer með þessi mál fyrir hönd Evrópusambandsins hefur lagt mikla áherslu á að verði slíkt kerfi tekið upp þá verði eftirlitið að vera mjög skilvirkt. Hún vill einnig að framtíðarviðskipti með útblásturskvóta verði takmörkuð með vel skilgreindu þaki. Ef slík viðskipti verða heimiluð munu Íslendingar vitaskuld eiga kost á þeim. Þó eru þeir möguleikar meira spennandi að rækta landið t.d. með skógi til að minnka gróðurhúsaáhrifin og opna þannig möguleika fyrir nýjan iðnað hérlendis.

Hins vegar er ljóst að ýmis áform um orkufrekan og útblástursmengandi iðnað verður að endurmeta hér á landi, ekki einungis í ljósi Kyoto-bókunarinnar heldur einnig til að mæta breyttum viðhorfum í umhverfismálum. Að mati okkar flutningsmanna ráðum við mjög vel við að uppfylla skilyrði Kyoto-bókunarinnar ef við mörkum okkur skynsamlega stefnu.

Þetta snýst vitaskuld um hvaða áherslur við viljum leggja í atvinnumálum í framtíðinni. Við höfum á undanförnum árum lagt mikla áherslu á stóriðjuframkvæmdir til að nýta vatnsorku landsins. Við getum hins vegar hagað uppbyggingu atvinnulífsins með öðrum hætti og lagt meiri áherslu á þær atvinnugreinar sem hagkvæmari reynast til framtíðar. Það er athyglisvert, herra forseti, að skoða ummæli Williams Nitze, yfirmanns alþjóðamála hjá Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna, sem er æðsti embættismaður Bandaríkjanna á sviði alþjóðlegra umhverfismála. Í viðtali við Morgunblaðið 2. október sl. sagði Nitze, með leyfi forseta:

,,Ég er viss um að það er hægt að vinna saman að einhvers konar lausn á þessu vandamáli. Hins vegar verður að hafa í huga að hér á Íslandi fara nú fram umræður um það hvar framtíð íslensks atvinnulífs liggi, hvort það sé í álbræðslu og annars konar stóriðju, þekkingariðnaði eða ferðaþjónustu. Vandamálið, sem er til umræðu, verður augljóslega minna ef Íslendingar ákveða að fara fremur í átt þekkingariðnaðar og ferðaþjónustu.``

Þetta er laukrétt ábending hjá hinum bandaríska embættismanni. Umræðan verður vitaskuld að eiga sér stað út frá þeirri stefnu sem við viljum taka í atvinnumálum. Nú er þetta hins vegar ekki spurning um annaðhvort eða. Vitaskuld munum við halda áfram að virkja og byggja hér iðjuver. Það er ekkert útilokað þó við skrifum undir Kyoto-bókunina og vinnum eftir hinum nýju viðhorfum um umhverfisvernd. Hins vegar munum við gæta enn frekar að umhverfinu og vinna gegn útblástursmengandi iðnaði með öðrum aðgerðum. Það er mikilvægt fyrir okkur að lifa í sátt og samlyndi við umhverfið.

Undanfarið hefur átt sér stað athyglisverð umræða um hvílík verðmæti eru fólgin í víðerninu norður af Vatnajökli sem fer mikið til undir vatn vegna stóriðjuáforma núverandi ríkisstjórnar. Það er vissulega kominn tími til, herra forseti, að menn fari sér aðeins hægar í þessari uppbyggingu og staldri við vegna þess að umhverfisskaðar verða ekki bættir eftir á.

[15:00]

Athyglisvert viðtal við Sigfús Bjarnason hjá Umhverfisstofnun Evrópu birtist í Morgunblaðinu 8. júlí sl. Þar vekur hann sérstaka athygli á að meðan aðrar þjóðir stefni að því að minnka útstreymi þá stefni Íslendingar að auknu útstreymi. Sigfús bendir m.a. á að Kyoto-bókunin dugi ekki til að minnka hættuna á hækkun hitastigs og gróðurhúsaáhrifum, hún sé einungis veikburða skref í rétta átt. Þess vegna er enn fráleitara af okkur að stefna í þveröfuga átt. Sigfús bendir á að þó að við séum að tala um að stóriðja byggist hér á hreinni orku, sem minnki mengun annars staðar, þá sé sú hætta vitaskuld fyrir hendi að við fáum á okkur orð sem umhverfissóðar. Það er laukrétt ábending að við eigum meiri sóknarfæri í þekkingariðnaði, byggðum á góðri menntun, og ferðaþjónustu í framtíðinni en í stóriðjuverum sem útheimta tiltölulega lítinn mannskap en mikil umhverfisspjöll. Víðerni Íslands og ósnortin náttúra eru vitaskuld auðlindir alveg eins og vatnið í ánum. Ef til vill liggur framtíð okkar meira í alls konar hátækniiðnaði fremur en að halda áfram í stóriðjuframkvæmdir sem einu lausnina í íslenskum atvinnumálum eins og ríkisstjórnin vill.

Það þarf að hafa skýrt í huga að við undirritun Kyoto-bókunarinnar munum við samt sem áður áfram taka þátt í þeim samningum sem eftir á að gera. Við munum hins vegar verða mun ábyrgari þátttakendur en að vera ein af þeim tiltölulega fáu þjóðum sem skorast úr leik á fyrsta stigi málsins. Það er mat okkar flm. að þessi afstaða ríkisstjórnarinnar vinni gegn hagsmunum Íslendinga til lengri tíma. Umhverfisvandamál eru ein mesta ógn heimsins. Það er skylda okkar sem ábyrgrar þjóðar í samfélagi þjóðanna að taka á því með öðrum þjóðum að bægja þessari hættu frá, hættu sem getur tortímt öllu lífi á jörðinni.

Það er ljóst að við viljum að sérstaða Íslendinga verði viðurkennd og það hefur okkur þegar tekist en það er mjög hættulegt að grípa ekki þegar í taumana. Sjóstaða getur hækkað mjög í heiminum og það er ætlað að hitastig geti hækkað um 3,5° á næstu öld. Það er mesta hækkun hitastigs í 10.000 ár.

Við í samfylkingunni, þ.e. í Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Kvennalista, sem vinnum nú að sameiginlegu framboði, höfum gengið frá málefnaskrá fyrir næstu alþingiskosningar. Þar er umhverfisstefna lykilatriði. Við lítum svo á að almannaréttur, vernd lífríkis, verðmætar náttúruminjar, sjálfbær nýting auðlinda og sjálfbær orkustefna séu lykilatriði í umhverfisstefnu til framtíðar. Við viljum að Íslendingar axli ábyrgð á við aðrar þjóðir með því að taka virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum til verndar umhverfinu og hafa grundvallarreglur Ríó-yfirlýsingarinnar um samskipti manns og umhverfis að leiðarljósi. Þetta eru meginþættir í umhverfisstefnu okkar. Við viljum sameign þjóðarinnar á helstu auðlindum. Við viljum að sjónarmið umhverfisverndar og grænna mælikvarða verði teknir upp á öllum sviðum. Við viljum endurskoðun náttúruverndarlaga, leggja áherslu á almannarétt, vernd búsvæða, jarðfræðilegar náttúruminjar, landslagsvernd og vernd víðerna. Við viljum umhverfis- og mengunargjöld og að heildstæð viðhorf náttúruverndar ráði við skipulagningu og stjórnun hálendissvæða og óbyggða. Við viljum mat á umhverfisáhrifum sem meginreglu í atvinnustefnu okkar. Það sést á þessu, herra forseti, að við í samfylkingunni höfum markað mjög róttæka og afdráttarlausa umhverfisstefnu. Þessi tillaga er hluti af henni og þar með höfum við tekið forustu í umhverfismálum í íslenskum stjórnmálum.

Við verðum að hafa í huga að losun gróðurhúsalofttegunda á mann hérlendis er sambærileg við það sem gerist á mann innan annarra ríkja Evrópu-sambandsins. Fámenni okkar er engin afsökun fyrir því að leggjast ekki á árina með öðrum þjóðum. Þó við endurmetum stóriðjuframkvæmdir okkar og skoðum þær í ljósi breyttra aðstæðna munum við vitaskuld nýta auðlindir okkar sem best. En fleiri auðlindir eru í landinu en vatnsorkan ein.

Vitaskuld munum við eftir sem áður taka þátt í starfi á vegum Sameinuðu þjóðanna á sviði umhverfismála. Staða okkar er styrkari í því umhverfi ef við skrifum undir Kyoto-bókunina. Þetta mál snýst, herra forseti, um að aðstæður hafa breyst mjög hratt á síðustu 5--10 árum. Við eigum að svara kalli tímans og stuðla að umhverfisvernd með öðrum þjóðum. Það mun hafa jákvæð áhrif á lífskjör framtíðarinnar því fáar þjóðir, ef nokkrar, eiga meira undir því að það takist að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Ég legg til, herra forseti, að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. umhvn. að lokinni þessari umræðu. Ég vil hins vegar geta þess að hér er rætt um undirritun alþjóðlegs samnings sem varðar vitaskuld utanrmn. Ég vænti þess að hv. umhvn. íhugi þetta og leiti umsagnar utanrmn.