Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 15:05:52 (175)

1998-10-07 15:05:52# 123. lþ. 5.10 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að leggja nokkur orð í belg út af þeirri till. til þál. sem hér hefur verið mælt fyrir. Ég vil fyrst segja og hef reyndar lýst áður yfir úr þessum ræðustóli að ég tel að Íslendingar eigi að gerast aðilar að þessum samningi og undirrita Kyoto-bókunina. Það hefur komið fram áður og út af fyrir sig þarf ég ekki að fara mörgum orðum um það viðhorf mitt. Ég tel að við eigum að taka þátt í því verkefni með öðrum þjóðum. Ég tel að við séum að takast markvisst á við umhverfismálin og af ábyrgð. Hins vegar er ég ósammála hv. frsm. tillögunnar og efni hennar þar sem segir að Íslendingar eigi að undirrita þessa bókun nú þegar. Fyrir því færði ég líka rök í umræðum á seinasta þingi þegar við ræddum þessi mál ítarlega, reyndar bæði fyrir og eftir fundinn í Kyoto á seinasta ári.

Í grg. með þáltill. víkja flm. að sérstöðu Íslands og telja að tekið hafi verið tillit til hennar, a.m.k. að nokkru nú þegar. Ýmislegt af því sem þar kemur fram og í máli hv. frsm. get ég tekið undir, þ.e. um þá þætti sem við getum kallað sérstöðu okkar. Vegna þeirrar sérstöðu sem við teljum okkur hafa með fullum rökum, taldi ríkisstjórnin og íslenska sendinefndin á fundinum þau 10% sem fólust í þessari viðurkenningu á sérstöðu Íslands ekki nægjanleg. Við lýstum því yfir strax á Kyoto-ráðstefnunni eins og hv. þm. er kunnugt um og grein var gerð fyrir hér í fyrra, á seinasta þingi. Ég vil líka minna á að í lok Kyoto-bókunarinnar var ákveðið að reyna að finna lausn á þeim sérstaka vanda sem lítil hagkerfi standa frammi fyrir þegar kemur að því að halda losun gróðurhúsalofttegunda innan settra marka. Þessum ákvæðum börðumst við fyrir og fengum sett þar inn til að fylgja sérstöðu okkar eftir. Sérstaðan er m.a. sú að einstök verkefni hafa svo mikil áhrif á lítil hagkerfi eins og okkar. Ísland er sérstaklega í þessum sporum þar sem þetta ákvæði getur átt við. Við höfum oft tekið dæmi um að álver Norðuráls á Grundartanga mun auka losun hér um 13%, sem er auðvitað hátt hlutfall af heildarlosun okkar, í fullri stærð en hjá samsvarandi fyrirtækjum eða verksmiðjum í öðrum löndum þar sem losun er allt önnur og miklu meiri hefðu verkefni af þessu tagi vart mælanleg áhrif eins og hefur reyndar líka verið bent hér á í umræðum.

Hv. frsm. nefndi reyndar ýmis þau atriði sem við höfum notað sem rök fyrir sérstöðu okkar, t.d. að viðmiðunarárið 1990 höfðum við leyst að verulegu leyti vanda okkar varðandi húshitun, komið húshitun úr því að nota orkugjafa sem losa mikið af gróðurhúsalofttegundum, yfir í jarðhitann eins og allir þekkja. Við erum þess vegna í algerri sérstöðu miðað við aðrar þjóðir. Hv. frsm. nefndi líka mikla orkunotkun í sjávarútvegi og samgöngum sem stafa af atvinnuháttum okkar. Við eigum því miklu meira undir, sérstaklega í sambandi við sjávarútveginn, en aðrar þjóðir og erfiðara með að beita okkur í þeirri tæknibreytingu sem ég er alveg sammála hv. frsm. um að er fram undan en við erum því miður kannski meiri þiggjendur í því en gerendur. Við eigum þó auðvitað að leggja okkar af mörkum í því efni og höfum vissulega verið að vinna að því, m.a. með nefndarstarfi og ýmiss konar vinnu við að leita að nýjum orkugjöfum og láta sjónarmið okkar koma fram, leita að samstarfsaðilum varðandi framleiðslu og nýtingu á vetni svo eitthvað sé nefnt af því sem þar hefur verið rætt.

Varðandi þessa sérstöðu í lokasamþykkt bókunarinnar og ég nefndi áðan um vanda lítilla hagkerfa vil ég segja frá því að á fundi undirnefnda loftslagssamningsins í Bonn í júní sl. var þetta mál sérstaklega rætt og Ísland lagði þar fram hugmyndir sínar um það hvernig við teldum að hægt væri að leysa þetta mál eða komast að niðurstöðu sem við teldum ásættanlega. Sú tillaga okkar fékk í raun góðar undirtektir. Hún byggir í stuttu máli á því að einstökum framkvæmdum megi halda utan losunarbókhalds ef þær auka losun um 5% eða meira, eins og það dæmi sem ég tók áðan, byggja á endurnýjanlegum orkugjöfum, sem er auðvitað forsenda í þessu efni, og nota bestu fáanlegu tækni. Gert er ráð fyrir að þessi heimild nái einungis til ríkja sem losa minna en 0,05% af heildarlosun ríkjanna árið 1990. Það er því verið að tala aðeins um hin smæstu ríki í þessu sambandi, hin smæstu efnahags- eða hagkerfi sem Íslendingar falla hér undir með 0,01 til 0,02% af heildarlosun.

Í gangi eru viðræður við önnur aðildarríki um þessa lausn og það hefur fengið góðar undirtektir og von mín er að lausn finnist á málinu á fundinum í Buenos Aires í nóvember. Ég tel að annað væri óeðlilegt og ekki málinu til framdráttar af okkar hálfu en fylgja þessu eftir í þeim farvegi sem við höfum lagt upp með og strax að loknum fundinum í Buenos Aires tökum við afstöðu til málsins, í hvaða farvegi það er þá. Ég vænti þess sannarlega að forsendur málsins verði eftir þann fund þannig að við getum skrifað undir bókunina að Buenos Aires-fundinum loknum. Það er það upplegg sem ríkisstjórnin hefur unnið eftir og sendinefndir og samninganefndir okkar hafa unnið að á þessu ári og við munum að sjálfsögðu reyna að vinna svo til loka.

Hæstv. forseti. Ég sé að ég á eftir örstuttan tíma og vil taka undir sumt annað sem kom fram í máli hv. frsm. eins og áherslubreytingar í skattamálum. Að því höfum við reyndar unnið nokkuð á þessu kjörtímabili. Umhvrn. hefur verið í viðræðum við fjmrn. um upptöku grænna skatta, hvort sem við köllum það nú mengunarskatta eða CO2-skatta, en reynt verði að leita nýrra leiða í áherslum í skattamálum sem tækju meira tillit til umhverfissjónarmiða. Þar er verkefni sem við höfum verið að vinna að. Ég hef fullan hug á að reyna að fylgja því eftir áfram á þessum vetri eða næstu mánuðum. Ég vil líka undirstrika það að ég er náttúrlega sammála hv. þm. í áherslum varðandi þekkingariðnað, ferðaþjónustu og ýmsar aðrar atvinnugreinar sem okkur er nauðsynlegt að leggja áherslu á og byggja upp. Hv. þm., frsm. tillögunnar, tók reyndar fram að þetta ynni í raun ekki hvað gegn öðru og ég vil undirstrika það viðhorf mitt líka. Ég tel að það sé alls ekki. Það er fráleitt að fullyrða að ríkisstjórnin hafi ekki neina aðra sýn en til stóriðjuuppbyggingar.