Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 15:41:41 (180)

1998-10-07 15:41:41# 123. lþ. 5.10 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað afdráttarlaust þessari spurningu sem Hjörleifur Guttormsson spyr mig um. Hins vegar eru sinnaskipti okkar ekki ný. Þau eru ekki sinnaskipti gærdagsins eða frá því fyrir viku og það veit Hjörleifur Guttormsson. Það eru sinnaskipti sem urðu fyrir tveimur árum á flokksþingi Alþfl. þegar við fjölluðum ítarlega og alvarlega um umhverfismál og virkjana- og stóriðjumál. Þá var gerð samþykkt um að gjörbreyta okkar stefnu, fara í endurskoðun á henni og vinna að því að finna út hvernig við mundum standa að málum.

Það hefur síðan gerst, sem Hjörleifur veit, að við höfum farið í mikla samvinnu á milli flokkanna í stað þess að einbeita okkur að verkefnum innan flokksins og þess vegna liggja þessi mál ekki fyrir af okkar hálfu. Þau munu gera það innan tíðar í samvinnuverkefni flokkanna þegar við munum kynna verkefni næstu fjögurra ára. Þar verður m.a. fjallað um verkefni á vettvangi stóriðju og hvernig við munum standa að virkjunarmálum og öðru. Það er mjög víðtækt verkefni að skoða hvernig við nýtum orkulindirnar, hvaða orkulindir og í hvaða röð.