Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 15:43:14 (181)

1998-10-07 15:43:14# 123. lþ. 5.10 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[15:43]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú fór í verra. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir á engin svör við því hér og nú hvort þingmaðurinn standi hugsanlega að ákvörðunum varðandi stóriðjuframkvæmdir á borð við magnesíumverksmiðju á Reykjanesi sem fyrir tveimur árum var talið að gæti losað 2,5 millj. tonna af gróðurhúsalofttegundum. Samkvæmt endurskoðuðum framleiðsluáætlunum kann það að vera langtum minna og vonandi langtum minna magn. Nefnd hafa verið 300--400 þús. tonn af gróðurhúsalofttegundum. Hér stendur hv. þm. ásamt hv. þm. Ágústi Einarssyni, þingmanni úr Reykjaneskjördæmi, að tillögu um að undirrita nú þegar Kyoto-bókunina í algerri óvissu um það hvort einhver frekari teygjanleiki fæst í 10% mörkin. Er þá engin alvara á bak við þennan tillöguflutning? Er þetta bara sýndarmennska sem hér er uppi? Mér finnst alveg nauðsynlegt að þetta liggi ljóst fyrir.

Hvað segir hv. þm. Gísli S. Einarsson --- hann er ekki hér í þingsal --- sem ég átti í deilum við út af stækkun járnblendiverksmiðju á Grundartanga vegna mengunarmála fyrir einu ári, ári eftir þetta umrædda flokksþing Alþfl. sem átti að hafa tekið nýja stefnumörkun í málum? Hvað segir sá hv. þm. úr samfylkingarliðinu um að undirrita þessa bókun nú þegar og taka á sig þá ábyrgð sem því væntanlega fylgir að ekki verði ráðist í frekari stóriðjuframkvæmdir uppi í Hvalfirði, þ.e. að ekki verði farið að stækka Norðurálsálbræðsluna frekar? Það verður auðvitað að vera fótur fyrir því sem hér er verið að leggja til. Ég harma það ef svörin eru jafnþokukennd og óljós og hér kom fram.