Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 10:45:46 (187)

1998-10-08 10:45:46# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[10:45]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það mjög alvarlegt ef það kemur ítrekað fram á Alþingi Íslendinga í tengslum við það mál sem hér er rætt, alþjóðasamninginn um loftslagsbreytingar og þá bókun sem frá var gengið í Kyoto í fyrra, að Ísland hafi einhverja alveg gífurlega sérstöðu í þessu máli. Þetta mátti heyra í stefnuræðu hæstv. forsrh. Þetta er endurtekið hér af stjórnarþingmönnum, nánast hverjum eftir annan. Mér finnst þetta bera vott um að menn hafi lítið sett sig inn í málið. Það er verið að apa hér upp klisjur sem menn hafa fundið upp til þess að komast hjá þessu eða telja þjóðinni trú um að við eigum ekki samleið með öðrum þjóðum í þessu stóra máli.

Síðasti hv. ræðumaður endurtók þessa klisju. Hann fór með þuluna um hitaveiturnar sem við komum á laggirnar um 1980, að við hefðum útrýmt olíukyndingu, sem var auðvitað gott og þarft verk, og af þeim sökum gætum við alls ekki verið með öðrum þjóðum í sambandi við skuldbindingar til að draga úr þessari stórfelldu mengun sem talið er að valdi breytingu á loftslagi jarðar.

Hverjar eru staðreyndirnar í þessu máli? Hafa menn ekki lesið skýrslu sjálfs hæstv. umhvrh. sem lögð var fram á síðasta þingi? Ísland losar á hvern íbúa nánast alveg sama magn í tonnum talið og meðaltalið er hjá Evrópusambandsríkjunum, 8,6 tonn á hvern íbúa. Það er nú öll sérstaðan. Við erum alveg fast upp við meðaltal í Evrópusambandinu. Hvers konar málflutningur er það að telja þjóðinni trú um að við höfum einhverja slíka sérstöðu meðal þjóða að við eigum bara að njóta þess á alþjóðavettvangi og þurfum ekkert að taka til í eigin ranni.