Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:02:14 (194)

1998-10-08 11:02:14# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar að mér finnst digurbarkalega um þetta mál. Það er alveg ljóst að ef mjög mikil hlýnun yrði í andrúmsloftinu eða jörðinni, þá mundi vatnsborð hækka. Við vitum það mjög vel. En við vitum líka jafn vel, herra forseti, að hlýnun andrúmslofts hefur orðið alveg gersamlega óháð atvinnustarfsemi á jörðinni.

Fyrir 12 þúsund árum, ef ég man rétt, hlýnaði á nokkrum áratugum, 20--30 árum, það mikið að andrúmsloftið gerbreyttist. Það var ekki út af neinum koltvíoxíðsútblæstri sem það gerðist. Menn eru nefnilega alls ekki sammála um að þessi hlýnun geti orðið svo mikil út af þessari koltvíoxíðsmengun. Menn eru alls ekki sammála um þetta, herra forseti. (ÖS: Það eru allir sammála um þetta.) Það eru ekki allir sammála um það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Aftur á móti eru allir sammála um að fara verði varlega og ekki eigi að auka hættuna. Við eigum fullt af mengunarlausum orkugjöfum. Við getum virkjað fallvötnin og við getum virkjað háhitasvæði til að koma hér upp iðnaði sem nýtist okkur öllum. Að slá því öllu á frest hjálpar ekki neinum. Ég vil fagna því að hér skuli hafa komið fram skýrt og skilmerkilega að nýi flokkurinn er á móti því að fara út í byggingu stórra fyrirtækja í landinu. Það er óljóst hvenær þeir hafa þá hugsað sér að hefja mætti iðnaðaruppbyggingu hér að nýju. Ég held að þetta sé mjög gott innlegg í þá stjórnmálaumræðu sem fram undan er, um það hvert þessi nýi flokkur stefnir.